Í kvöld heldur meistaraflokkur kvenna í handbolta í æfingaferð til Tékklands, nánar tiltekið borgarinnar Hodonin, sem er nálægt landamærum Austurríkis.
Það var ákveðið í sumar að taka ekki þátt í Evrópukeppni að þessu sinni eins og gert hefur verið undanfarin ár. Það helgast fyrst og fremst af miklum kostnaði við þátttöku sem einungis verður meiri og meiri eftir því sem liðið kemst lengra. Þátttaka í Evrópukeppninni í fyrra varð til að mynda mjög dýr, þar sem leikið var heima og að heiman á móti liði frá Rúmeníu.
Í ár var þess í stað ákveðið að taka þátt í sterku æfingamóti í Tékklandi sem einnig stóð til boða að taka þátt í s.l. haust. Um er að ræða mjög sterkt mót átta liða þar sem byrjað er að leika í fjögurra liða riðlum og síðan leiknir tveir leikir til viðbótar í úrslitum.
Liðin sem taka þátt í mótinu í ár auk FRAM eru eftirfarandi.
BNTU – BelAZ Minsk Reg
Thüringer HC
Nantes Loire Atlantique Handball
Skuru IK
RK Lokomotiva Zagreb
DHC Sokol Poruba
Érd HC
Leikir FRAM verða þessir:
Miðvikudaginn 17/8 2016 19.00 Fram Reykjavík – Érd HC
Fimmtudaginn 18/8 2016 15:00 Thüringer HC – Fram Reykjavík
Föstudaginn 19/8 2016 16:00 BNTU-BelAZ Minsk Reg. – Fram Reykjavík
Á laugardaginn verður síðan spilað krossspil milli riðla og á sunnudaginn verða síðan úrslitaleikir.
Eins og fyrr segir heldur meistaraflokkurinn af stað í kvöld. Flogið verður næturflug til Kaupmannahafnar og lent þar eldsnemma. Deginum verður síðan eytt þar, og annaðkvöld verður síðan flogið áfram til Vínar og þaðan keyrt til Hodonin í Tékklandi. Þetta verður því langt og strangt ferðalag á mótið.
Reynt verður að senda upplýsingar um úrslit leikja og gengi liðsins eftir því sem tök eru á.
FRAM kveðja