Strákarnir okkar í fótboltanum mættu í kvöld á “gettó ground” hinn ljómandi fína leikvöll Leiknis úr Breiðholti. Frekar fátt á vellinum og ég átti von á meiri stemmingu í þessu vígi Breiðholts.
Leikurinn í kvöld var ekki nógu góður af okkar hálfu, við bara frekar slakir í fyrri hálfleik og vorum sennilega heppnir að fá ekki á okkur mark í hálfleiknum. Það vantaði kraft og áræðni í liðið, við ekki mjög líklegir til að skora og einhver deyfð yfir liðinu að mér fannst. Staðan í hálfleik 0-0.
Síðari hálfleikur byrjaði mun betur og greinilegt að Ási hefur eitthvað hrist upp í mannskapnum. Við vorum mun áræðnari, spiluðum boltanum betur og komum okkur í færi. En það var svo á 58 mín. að við fengum á okkur mark, að mér fannst eftir vondan varnarleik, frekar fúllt eftir ágæta byrjun. Við létum markið ekki slá okkur út af laginu og héldum áfram að sækja, fínn kraftur í okkar liði. Við náðum svo að setja mark á 81 mín. þegar Orri Gunnarsson kláraði góða sókn okkar með föstu skoti. Flott mark hjá strákunum. Ég var eiginlega viss um að við myndum klára þennan leik, það fór því miður ekki þannig. Við fengum á okkur frekar ódýrt mark og aftur eftir klaufagang í okkar varnarleik. Það urðu svo úrslit leiksins, lokatölur 2-1.
Súrt að tapa þessum leik, við vorum síst slakari í síðari hálfleik og fengum góð færi sem við hefðum átt að nýta. Jákvætt að strákarnir mættu ferskir í síðari hálfleikinn og lögðu sig fram.
Næsti leikur er eftir slétta viku í Laugardalnum gegn HK, hvetjum FRAMara til að mæta og styðja strákana.
ÁFRAM FRAM
Share this post
Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email