Strákarnir okkar í handboltanum léku í kvöld fyrsta leik sinn í Olísdeildinni þetta tímabilið þegar þeir mættu Gróttu á nesinu. Það var viss spenna fyrir leikinn, liðið hefur gengið í gegnum miklar breytingar frá því í vor, nýir þjálfarar, margir nýir og spennandi leikmenn og virkilega spennandi að sjá hvernig liðið kæmi undirbúið til leiks.
Leikurinn byrjaði frekar hægt, liðin að þreyfa fyrir sér, bæði lið fengu ágæt færi sem þau nýttu ekki nægjanlega vel. Við að spila góða vörn, allir að leggja sig fram og góð stemming í okkar hópi. Staðan eftir 10 mín. 3-4. Við vorum svo betri það sem eftir lifði hálfleiks, liðið að spila vel varnarlega en mistækir sóknarlega, staðan eftir 20 mín. 6-8. Við náðum mest fjögurra marka forrustu í stöðunni 6-10 en þá gerðum við mörg misstök sóknarlega og hleyptum Gróttu aftur inn í leikinn. Við náðum að klára hálfleikinn vel, staðan í hálfleik, 11-13. Fínn hálfleikur hjá okkur en full mikið af tæknifeilum.
Það var því spennandi að sjá hvernig við myndum höndla síðari hálfleik, við byrjuðum því miður illa, fórum ferleg með okkar færi og fengum á okkur skelfilega ódýr mörk. Varnarleikurinn hvarf hreinlega og sóknarlega vorum við algjörlega á hælunum. Staðan eftir 40 mín. 18-14, gerðum eitt mark á þessum 10 mín. Við vorum svo áfram í smá vandræðum, mikið einu færri en svo kom góður kafli þar sem við sýndum góðan leik, leystum ágætlega úr málum með bráttu og vinnusemi sem skilaði því að við vorum aftur yfir eftir 50 mín 21-23.
Loka kafli leiksins var svo hrikalega spennandi, við klaufar að nýta færin og varnarlega vorum við að gera skelfileg misstök, þar sem við vorum hreinlega að bjóða andstæðingnum í færin aftur og aftur. Jafnt eftir 58 mín. 25-25 en við náðum ekki að klára leikinn og við verðum að skrifa það á okkar klaufaskap, við fengum færin en nýttum þau ekki. Lokatölur 28-26.
Margt gott í þessum leik sem var mjög kaflaskiptur, varnarleikur okkar góður í fyrri hálfleik en mjög gloppottur í þeim síðar, sóknarlega vorum við ekki nógu góðir. Við gerðum 26 mörk sem er ágætt, samt nýttum góð færi ferlega illa, fórum með 3 vítaköst og það reyndist dýrt. Þorsteinn Gauti var góður í leiknum, aðrir leikmenn eiga inni að mér finnst, markvarslan var ekki nógu góð, þannig að við getum bætt margt í okkar leik. Barátta leikmanna var til fyrirmyndar og ef við höldum þessu striki þá munum við vinna marga leiki í vetur.
Næsti leikur er eftir slétta viku á heimavelli í Safamýrinni gegn ÍBV, það verður hörkuleikur, sjáumst á fimmtudag.
ÁFRAM FRAM