fbpx
Úlfarsárdalurcomplex1

Nú er nóg komið. „Fréttatilkynning frá Knattspyrnufélaginu FRAM“

 

ÚlfarsárdalurFréttatilkyning frá Knattspyrnufélaginu FRAM

Efni: Samningar Knattspyrnufélagsins Fram og Reykjavíkurborgar

Eins og borgarfulltrúum er kunnugt þá hefur Knattspyrnufélagið Fram (hér eftir Fram) verið í viðræðum við Reykjavíkurborg í mörg ár um breytingar á núgildandi samningi aðila frá 1. maí 2008 um uppbyggingu í Úlfarsárdal. Ástæður þess að viðræður þessar hafa tekið langan tíma tengdust í upphafi því efnhagsástandi sem ríkti á landinu í kjölfar hruns bankakerfisins haustið 2008 og var Fram tilbúið að sýna ákveðna biðlund á meðan það ástand varði. Þegar efnahagsástandið lagaðist vildu fulltrúar borgarinnar að breytingar yrðu gerðar á umfangi framkvæmdanna. Fulltrúar Fram voru tilbúnir í slíkar viðræður ef samhliða væru gerðar breytingar sem félagið taldi geta vegið upp minna umfang.

Á fundi fulltrúa Fram með borgarstjóra og helstu embættismönnum borgarinnar, ásamt samninganefnd borgarinnar, þann 20.september 2016 kom fram berum orðum að borgin ætlaði ekki að standa við gerðan samning að er virtist í þeim tilgangi einum að setja félagið í erfiða stöðu, þ.e. þvinga Fram til að ganga að kröfum borgarinnar eða rifta samningnum. Þessi framganga fulltrúa borgarinnar vakti furðu ekki síst í ljósi þess að stuttu áður hafi borgarstjóri gert opinbert ákall í flugvallarmálinu um að aðrir viðsemjendur borgarinnar ættu að standa við gerða samninga.  Ljóst mátti vera að forsendur áframhaldandi viðræðna um breytingar á samningi aðila frá 2008 væru vart lengur til staðar en Fram hélt þó áfram viðræðum í þeirri vona að hægt væri að klára nýjan samning.

Síðar kom fram í máli borgarstjóra, með íbúum í Grafarholti og Úlfarsárdal, sem haldinn var þann 8. nóvember 2016 í Ingunnarskóla að staðið yrði í öllu við núgildandi samning þó með þeirri undantekningu að íbúafjöldi uppá 15.000 íbúa yrði ekki tryggður, þrátt fyrir að það væri ein af grunnforsendum í samningi aðila.

Á fundi Borgarráðs þann 15. desember 2016 voru síðan einhliða drög að nýjum samningi við Fram, um uppbyggingu íþróttamannvirkja og starfsemi félagsins í Úlfarársdal/Grafarholti, lögð fram. Ekki kemur fram í fundargerð hver afgreiðsla málsins var. Fram fékk umrædd samningsdrög send stuttu síðar ásamt bréfi frá samninganefnd borgarinnar.  Í bréfinu var tiltekið að nefndin hefði ekki frekari heimildir til samninga en kæmi fram í umræddum drögum.  Samninganefndinni var hins vegar fullkunnugt að Fram gæti ekki sætt sig við umrædd drög og því með hreinum ólíkindum að þau hafi verið kynnt einhliða með þessum hætti. Framganga fulltrúa borgarinnar styðst ekki við ákvæði núgildandi samnings aðila, heldur þvert á móti, né staðfestingu borgarstjórnar árið 2008 á gildi þess samningsins. Bréf samninganefndarinnar verður ekki skilið öðruvísi en svo að samningsdrögin séu endanleg afstaða af hálfu borgarinnar  Með slíkri framgöngu hefur félaginu verið settir afarkostir, þ.e. skrifa undir drögin eða krefjast efnda á núgildandi samningi fyrir gerðardómi líkt og þar er kveðið á um.

Drögin sem nú liggja fyrir geta ekki á neinn hátt talist til efnda á núgildandi samningi frá árinu 2008. Gerðar hafa verið töluverðar breytingar sem flestar miða að því að draga úr umsömdu umfangi framkvæmda, svo sem:

a) Íþrótta-og félagshús hefur verið minnkað um 20%
b) Gert er ráð fyrir 3 grasvöllum í stað 7
c) Áhorfendaaðstaða við aðalkeppnisvöll hefur verið verulega skert og þannig ekki lengur gert ráð fyrir henni beggja megin vallarins né möguleikum á áhorfendaaðstöðu við enda
d) Ekki er gert ráð fyrir bygginganefnd með formlegri aðild Fram né að félagið hafi ákvörðunar vald við útfærslu á byggingu íþrótta- og félagshúss
e) Í aðalskipulagi hefur möguleg íbúabyggð verið færð niður úr 15.000 í 9.000 manna hverfi þrátt fyrir að vera tilgreind sem grunnforsenda í samningi aðila f) Deiliskipulagi hefur verið breytt án samráðs við Fram
g) Þá hefur ákvæðum um eignarhald verið breytt, en Fram hefur lýst vilja til að ræða þann þátt málsins.

Líkt og áður hefur verið nefnt hefur Fram á undanförnum árum komið til móts við borgina vegna ytri aðstæðna í samfélaginu. Þær aðstæður eru ekki lengur fyrir hendi, svokallað hrun er yfirstaðið og því er ekkert því til fyrirstöðu að samningurinn verði efndur skv. efni sínu.  Fram hefur einnig viljað koma til móts við borgina vegna breytinga á uppbyggingu m.a með tímabundinni frestun byggingu á hluta grasvalla á móti öðru. Hins vegar hefur skort á að eðlilegt endurgjald í formi annarrar mannvirkja komi á móti. Einnig hefur borgin ekki viljað ræða endurgjald vegna þess kostnaðar sem Fram hefur haft af drætti á uppbyggingu á nýju svæði, en kostnaður félagsins hleypur á tugum milljóna í þjálfara- og ferðakostnað.

Þá hefur Fram einnig viljað tryggja eðlilega íþróttaaðstöðu fyrir íbúa Háaleitishverfis og viljað tryggja ákveðna stærð á svæði fyrir íþróttaiðkun í framtíðinni. Borgin hefur ekki svarað því með öðrum hætti en að íþróttahús og gervigrasvöllur muni standa en íbúar hverfisins hafa lagt áherslu á stærra svæði en það.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þá sérstaklega samþykkt Borgarráðs á fyrirliggjandi samningsdrögum og því sem kom fram í bréfi viðræðunefndar borgarinnar í framhaldi afgreiðslu Borgarráð um að gengið hafi verið eins langt og samningsumboð þeirra nær til, er Fram nauðbeygður sá kostur að vísa ágreiningi aðila til gerðardóms og krefjast réttilegra efnda á núgildandi samningi aðila.  Telur félagið hins vegar rétt að veita Reykjavíkurborg frest til 15.febrúar nk. til að lýsa því yfir með skuldbindandi hætti að það sé reiðbúið að samþykkja uppbygginu íþróttasvæðis í Úlfarársdal til samræmis við samning aðila frá 2008 og ljúka samningsgerð, að því er varðar framkvæmdatíma, fyrir 1. mars nk. í ljósi þess að framkvæmdum átti að vera lokið fyrir fimm  árum og þeirrar staðreyndar að framganga borgarinnar gagnvart íbúum Grafarholts/Úlfarsársfell er til skammar. Jafnframt er þess óskað að kostnaðaráætlun sú sem lögð var fyrir á fundi Borgarráðs þegar samningsdrögin voru samþykkt verði send félaginu fyrir 15. febrúar nk.

Ef Reykavíkurborg er ekki reiðubúin til að taka af skarið hvað þettar varðar með afdráttarlausum hætti eru ekki forsendur til annars en að skjóta málinu til gerðardóms í ljósi forsögu málsins og hagsmuna íbúa umræddra hverfa sem augljóslega eru samofnir hagsmunum félagsins.

Fh Knattspyrnufélagsins Fram
Sigurður Tómasson formaður Knattspyrnufélagsins Fram

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email