fbpx
FRAM - Þróttur vefur

Grátbroslegt tap í fyrsta leik Lengjubikarsins

FRAM - Þróttur IFramarar máttu sætta sig við grátbroslegt tap gegn Þrótti frá Reykjavík í fyrsta leik Lengjubikarkeppninnar í ár; lokatölur urðu 2-3 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 1-2. Framarar léku manni fleiri í 55 mínútur, en gekk bölvanlega að færa sér liðsmuninn í nyt.
Liðsuppstillingin í dag lofaði góðu og fyllti fjölmarga stuðningsmenn Fram bjartsýni; Atli stóð í markinu og Kristófer, Gavric, Brynjar, Benedikt Októ, Sigurpáll, Indriði, Alex Freyr, Helgi Guðjóns, Simon Smidt og Bubalo skipuðu aðrar stöður í byrjunarliðinu. Leikurinn fór hins vegar ekkert sérlega vel af stað, sofandaháttur í vörninni, þar sem menn virtust telja Þróttara hafa brotið af sér, kostaði mark sem Brynjar Jónasson skoraði eftir aðeins fimm mínútna leik. Í kjölfar marksins kom kafli hinna miklu þreifinga, hvorugt liðanna náði almennilegum tökum á sínum leik, en Framarar voru þó öllu líklegri og Sigurpáll átti m.a. ágætt skot sem Sindri, markvörður Þróttara, sló í þverslána og aftur fyrir endamörk. Heldur dró þó til tíðinda þegar um tíu mínútur lifðu fyrri hálfleik; Þróttarinn Finnur Ólafsson gekk þá full vasklega fram í baráttunni gegn Alex Frey og var réttilega verðlaunaður með rauðu spjaldi. Lokamínútur fyrri hálfleiks voru tíðindum hlaðnar; á 42.mínútu náðu Þróttarar tveggja marka forystu þegar Vilhjálmur Pálmason skoraði og útlit fyrir heldur dapra stemmningu í klefanum í hálfleik. Á annarri mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiksins birti þó lítillega til, en þá var vítaspyrna dæmd á Þróttara fyrir brot á Ivan Bubalo. Alex Freyr sýndi stillingu og stáltaugar þegar hann skoraði af öryggi af ellefu metrunum, eða „elf meter“ a la Olli. Staðan í hálfleik 1-2.

Framarar hafa líklega margir gert sér vonir um bjartari tíð með blóm í haga strax í upphafi seinni hálfleiks, manni fleiri og sveiflan á bandi blárra, en í sannleika sagt var erfitt að greina hvort liðanna hafði liðsmun upp á að hlaupa. Þróttarar voru agaðir og vel skipulagðir, gáfu á sér fá færi og áttu nokkra ágæta spretti þar sem þeim tókst að velgja varnarmönnum Fram verulega undir uggum. Jöfnunarmarkið lét bíða eftir sér, en það kom að lokum. Á 72.mínútu skoraði Simon Smidt laglegt mark, örvfættur maðurinn smellhitti boltann með hægri eftir þunga sókn og talsvert at á vítateig Þróttara þar sem boltinn m.a. small í þverslánni og allar bjargir virtust bannaðar. Þetta mark jók enn á bjartsýnina, að liðsmunurinn myndi nýtast á lokasprettinum, en það var öðru nær. Þremur mínútum eftir jöfnunarmark Framara skoruðu Þróttarar ótrúlegt mark sem flestir aðrir en gallharðir Köttarar hljóta að viðurkenna að hafi verið vafasamt í meira lagi. Sótt var að Reyes inni á vítateig, að flestra mati með ólöglegum hætti, boltinn rúllaði á Sveinbjörn Jónasson fyrir galopnu marki og hann, í furðu og vantrú, skoraði og tryggði Þrótturum sigur. Helgi Mikael Jónasson, dómari leiksins, var ágætlega staðsettur þegar meint brot átti sér stað, en ákvað illu heilli að hvíla flautuna.

Niðurstaðan er sigur Þróttar, 3-2, í leik sem Fram átti svo sem ekki skilið að tapa. Leikurinn var í ágætu jafnvægi, tvö marka Þróttara voru í ódýrari kantinum, en vissulega má svekkja sig á því að hafa ekki nýtt betur liðmun sem Fram naut rúmlega heilan hálfleik.

Upp með sokkana og áfram veginn. Næsti leikur Fram er gegn í Lengjubikarnum er gegn Leikni frá Fáskrúðsfirði, en hann fer fram í Fjarðabyggðarhöllinni þann 26.febrúar.

Berjast Framarar!

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Karfa0
There are no products in the cart!
Halda áfram að versla
0