Ríkharður Jónsson F: 12. nóvember 1929. D: 14. febrúar 2017.
* Útför Ríkharðs fer fram frá Akraneskirkju í dag, mánudaginn 27. febrúar 2017, kl. 14.
Kveðja frá Knattspyrnufélaginu Fram
Við fráfall Ríkharðs Jónssonar sjá Framarar á eftir litríkum félaga og vini. Ríkharður var aðeins 17 ára þegar hann kom frá Akranesi til Reykjavíkur og hóf málaranám 1947. Meistari hans var Eiríkur Jónsson, húsa- og listmálari, sem varð margfaldur Íslandsmeistari með Fram. Rikki minntist Eiríks, sem hannaði Frammerkið, á 80 ára afmæli Fram 1989 þeger hann gaf bikar, Eiríksbikarinn, til minningar um meistara sinn. Bikarinn hefur árlega verið veittur ungum leikmanni sem hefur sýnt mestar framfarir í yngri flokkum félagsins.
Þegar Rikki gekk til liðs við Fram sýndi hann strax hvers hann var megnugur – skoraði 9 af 12 mörkum Fram sem varð Reykjavíkurmeistari. Þá var hann lykilmaður í Íslandsmeistaraliði Fram um sumarið og lék sinn fyrsta landsleik.
Í byrjun árs 1951 sendi Fram Ríkharð til Þýskalands til að kynna sér betur listir knattspyrnunnar og var Ríkharður Fram alla tíð þakklátur fyrir þá velvild og sagði að ÍA hafi alltaf staðið í þakkarskuld við Fram. „Framarar fengu boð um að senda mann til Koblenz. Þeir buðu mér að fara þrátt fyrir að þeir vissu að ég myndi fara á ný til Akraness vorið 1951. Ég er viss um að það hefðu ekki orðið stórlegar breytingar hér á Akranesi, ef ég hefði ekki farið til Þýskalands,“ sagði Ríkharður í bókinni: 100 ára saga Íslandsmótsins í knattspyrnu.
Ríkharður var mikill Framari og hugur hans var alltaf hjá Fram. Hann lét sig aldrei vanta á herrakvöld Fram – allt frá byrjun – og á meðan heilsa hans var góð. Þá mætti hann á allar hátíðarstundir félagsins og einnig til að kveðja gamla félaga. Rikki var sæmdur Gullmerki Fram 1989 – á sextíu ára afmæli sínu.
Knattspyrnufélagið Fram kveður heiðursmanninn Ríkharð Jónsson með mikilli hlýju og þakkar honum fyrir ómetanlegan þátt í sögu félagsins. Börnum hans og öðrum ástvinum eru sendar hugheilar samúðarkveðjur.
Sigmundur Ó. Steinarsson.