Við mættum Haukum á heimavelli í Olísdeild karla í kvöld. Það var ágætlega mætt á leikinn bæði þessi lið státa af traustum stuðningsmömmum sem fylgja sínum liðum allt til enda. Ljóst að þessi leikur yrði erfiður því Hauka liðið er gríðarlega vel mannað.
Við byrjuðum frekar illa að mér fannst og þá sérstaklega sóknarlega, vorum hægir og náðum ekkert að hreyfa Haukaliðið, vorum að reyna erfið og illa grunduð skot. Varnarlega vorum við þokkalegir en ekki alveg í nógu góðum takti. Staðan eftir 10 mín. 2-3. Við náðum svo ágætum kafla sóknarlega, settum nokkur ágæt mörk en réðum illa við þá varnarlega, vorum að gera kjánalega hluti í vörninn sem við réðum ekki við. Staðan eftir 20 mín. 6-8. Við lékum svo illa það sem eftir lifði hálfleiks, vorum að taka „sénsa“ bæði í vörn og sókn sem okkur var ýtrekað refsað fyrir. Verðum að halda okkar skipulagi. Staðan í hálfleik, 9-16. Fórum illa að ráði okkar á þessum kafla og ljóst að síðari hálfleikur yrði erfiður.
Við mættum svo vel stemmdir til síðari hálfleiks og ljóst að við ætluðum ekki að gefa neitt. Við bættum okkar bæði í vörn og sókn, gríðarleg barátta í liðinu strax í upphafi og við bættum jafnt og þétt í. Staðan eftir 40 mín. 14-19. Þeir fóru svo aftur í 6 mörk þegar c.a 13 mín. voru eftir þá hélt ég að þetta væri endanlega klárt. En þannig fór það ekki, við vorum búnir að jafna leikinn 7 mínútum síðar, hvort sem þið trúið því eða ekki. Staðan 23-23 og 6 mín. eftir. Við gríðarlega flottir varnarlega sem skilaði auðveldum mörkum. Við náðum því miður ekki að fylgja þessu eftir alla leið en við vorum nálægt, kannski óheppnir að ná ekki stigi eftir allt. Lokatölur 26-27.
Margt jákvætt í þessum leik og þá í sér ílagi okkar leikur í síðari hálfleik. Varnarlega vorum við að spila okkar besta leik í langan tíma, sérstaklega í síðari hálfleik sem segir okkur að við getum spilað vörn, þurfum að sýna þessa vinnu í næstu leikjum. Sóknarlega vorum við köflóttir en margt gott, allir að leggja sig fram, kraftur og áræðni sem skilaði góðum mörkum úr öllum stöðum á vellinum. Viktor var góður í markinu, gríðarlega flottur strákur sem við eigum þar.
Það þýðir ekkert að svekkja sig yfir þessum leik, næsti leikur er á fimmtudag gegn Stjörnunn í Mýrinni, það er leikur upp á líf og dauða. Ég ætla að mæta á þann leik, það verður háspenna og við þurfum á stuðning ykkar allra að halda, strákarnir eiga það skilið.
ÁFRAM FRAM