fbpx
Hópurinn á spáni vefur

Æfingaferð FRAM til Salou á Spáni í máli og myndum

Gamlir spánnUngir Spaánn 2017Æfinga á spániHjólaferð á spániGummi magg EspanyolLiðið gegn PalloFerðalagið hófst klukkan 06:00 niðrí Safamýri. Framundan er æfingarferð til Salou á Spáni. Hópurinn samanstóð af 25 leikmönnum, 3 manna þjálfarateymi og sjúkraþjálfara.

Eftir langt og gott ferðalag þá komumst við loks á leiðarenda. Hótelið sem við vorum á hét Cambrils Park og var þetta hótel með allt til alls. Sundlaugum, körfuboltavelli, tennis, mini golf og margt fleira.  Liðið æfði tvisvar sinnum á dag við bestu mögulegu aðstöðu, þá daga sem ekki voru spilaðir æfingarleikir.

Milli æfinga reyndu menn að sleikja sólina eins mikið og hægt var en reyndist það mönnum oft mjög erfitt þar sem Óli Brynjólfs réð sig í 100% starf sem sundlaugavörður og þurfti hann margoft að reka kjúklingana inn úr sólinni.

Við skelltum okkur til Barcelona á föstudeginum. Við fengum heldur betur að kynnast föstudags traffíkinni þar á bæ og breyttist klukkutíma rútuferð yfir í tæpa 3 tíma. En við létum það ekki á okkur fá og skelltum við okkur inn í miðborgina þar sem menn skoðuðu sig um, versluðu sér Gucci skó og margt fleira. Við enduðum daginn á því  að skella okkur á leik í La Liga. Sáum stóra liðið í borginni, Espanyol taka á móti Real Betis og fengum við hörkuleik sem endaði á dramatísku sigurmarki frá kónginum, José Antonio Reyes við mikinn fögnuð frænda síns, Kristófer Reyes.

Hin árlega nýliðavígsla fór fram í ferðinni. 15 nýjir menn voru vígðir inn í liðið. Við fengum að sjá misgóða söng, dans og leiklistarhæfileika en heppnaðist þessi vígsla fullkomlega og skemmtu menn sér frábærlega.

Við spiluðum tvo æfingarleiki í ferðinni. Fyrri leikurinn var gegn Varmdö IF frá Svíþjóð. Byrjunariðið í þeim leik var skipað þannig að Tómas byrjaði í markinu, varnarlínan var Dino, Siggi Þráinn, Orri og Arnór. Á miðjunni voru Högni, Sigurpáll, Simon og Indriði. Frammi voru Helgi og Ivan Bubalo.

Mikil harka var í leiknum, færi á báða bóga og mikil skemmtun. Eitt mark skildi liðin af og var það Sigurpáll sem skoraði eina mark leiksins.

Seinni leikurinn var gegn Palli-Lirot frá Finnlandi. Liðið í þeim leik var skipað þannig að Atli var í markinu. Reyes, Arnór, Unnar og Þorsteinn í vörninni. Maggi, Axel, Alex og Benedikt á miðjunni. Gummi Magg og Ívar voru frammi. Við byrjuðum þennan leik af miklum krafti en fljótlega misstum við tökin á leiknum. Finnarnir komust í 2-0 á stuttum kafla í fyrri hálfleik en Ívar minnkaði muninn undir lokin á hálfleiknum. Ekkert mark var skorað í síðari hálfleik og urðu lokatölur 2-1 fyrir Palla.

Síðasti dagurinn er runninn upp og það er loks komið á því, stærsta stund hverrar æfingarferðar, ungir vs gamlir. Gamlir höfðu harm að hefna síðan fyrir ári síðan, þar sem ungir fóru illa með þá eldri. Það sást strax á upphafsmínútum leiksins að gamlir ætluðu að kvitta fyrir afleita frammistöðu ársins áður. Snemma leiks fékk Orri boltann hægra meginn, gaf hárnákvæma sending fyrir teiginn þar sem hrægammurinn Gummi Magg stangaði boltann í netið, 1-0.

Stuttu síðar fengu gamlir boltann vinstra meginn, tóku hvern þríhyrninginn á fætum öðrum sem endar með því að Indriði fær boltann og setur hann fallega í fjærhornið og ungir farnir að klóra sér í hausnum. Strax í kjölfarið fékk Hlynur sendingu í gegn sem hann kláraði vel undir Baldur í markinu, 3-0. Undir lok fyrri hálfleiks vann Brynjar boltann á miðsvæðinu, keyrði að marki og setti hann í fjærhornið, 4-0 og fjallið orðið virkilega bratt fyrir þá yngri.

Ungir gáfust ekki svo auðveldlega upp og á lokamínútu fyrri hálfleiks átti Helgi gullfallega sendingu fyrir markið þar sem Alex Freyr skallaði boltann fram hjá varnarlausum Tomma í markinu.

Snemma í seinni hálfleik fékk Gummi sendingu fyrir markið og klárar snyrtilega, 5-1. Ungum fannst nóg komið og ákváðu að skipta um gír sem skilaði þeim 2 mörkum, Axel Freyr og Alex Freyr  skoruðu mörkin og skyndilega komin smá von fyrir þá yngri. Undir lokin fékk Indriði boltann í gegn, tók 3-4 skæri, lék á Baldur sem grípur um ökkla Indriða og tekur hann niður, frábær dómari leiksins, Ásmundur Arnarsson bendir á punktinn. Vöðvatröllið Tómas Ingason, sjálfskipuð vítaskytta eldra liðsins fór á punktinn en Baldur hefur greinilega hlustað vel á Tomma í vetur þar sem hann varði spyrnu hans glæsilega. Á lokamínútu leiksins fékk Indriði boltann enn og aftur í gegn, í þetta skiptið ákvað hann að vippa boltanum glæsilega yfir Baldur og söng boltinn í fjærhorninu, 6-3 og þá sagði dómari leiksins þetta gott og flautaði leikinn af við mikinn fögnuð þeirra eldri.

Eftir leik var farið í síðustu máltíðina og sleikt síðustu sólargeislana. Þegar horft ert til baka yfir síðustu vikuna er ekki annað hægt að segja en að þessi ferð hafi heppnast fullkomlega. Virkilega þéttur hópur var orðinn ennþá þéttari, innan vallar sem utan og erum við klárlega búnir að stíga amk eitt skref áfram í rétta átt í okkar undirbúningi. Núna tekur við lokaundirbúningur fyrir Íslandsmótiðið þar sem hópurinn er staðráðinn í því að gera alvöru hluti.

F. h. mfl.karla Brynjar Kristmundsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!