fbpx
viktor-gegn-val-vefur

Magnaður sigur í fyrsta leik úrslitakeppni Olísdeilar karla

arnar-birkir-gegn-haukumStrákarnir okkar í handboltanum byrjuðu úrslitakeppnina í handbolta þetta árið með því að mæta Haukum að Ásvöllum í dag.  Það voru ekki margir spekingar sem spáðu okkur í úrslit þennan veturinn.  Við settum hinsvegar sokk upp í marga spekinga og sýndum að við erum verðugir í þessa úrslitakeppni og margir sjálfskipaðir snillingar sem þurfa að hugsa sinn gang J .
Það var vel mætt af okkar fólki og ótrúlegt hvað við FRAMarar eigum mikið af tryggum stuðningsmönnum sem mæta og styðja FRAM hvernig sem gengur.  Ég er gríðarlega stoltur af ykkur FRAMarar.
Leikurinn í dag byrjaði ágætlega, við ekki alveg vaknaðir rétt í byrjun en komum svo strax sterkir inn í þennan leik.  Við jöfnuðum leikinn eftir 6 mínútur í dag og  litum ekki um öxl eftir það.  Við vorum ótrúlega flottir bæði í vörn og sókn, spiluðum mjög agað sóknarlega sem skilaði endalausum mörkum ásamt því að gamla geðveikin var komin í vörnina, þvílík vinna hjá strákunum varnarlega, vorum algjörlega frábærir í fyrri hálfleik.  Staðan eftir 10 mín. 5-6.  Ég ætlað ekki að hafa þetta hefðbundið í dag, við kláruðum þennan hálfleik gríðarlega vel, börðumst eins og ljón varnarlega og héldum skipulagi sóknarlega eða Arnar Birkir skoraði, hann var frábær í fyrri hálleiknum, bara magnaður.  Ef Arnar skoraði ekki þá átti hann sendingar sem gáfu mark, ekki margir leikmenn í dag sem geta það sem þessi drengur getur í handbolta.  Við náðum mest 6 marka forrustu en staðan í hálfleik 13-18.  Já Haukarnir voru búnir að gera á okkur 9 mörk þegar 26 mín. voru búnar af þessum leik.
Hrikalega flottur hálfleikur hjá okkar strákum og útlitið bara mjög gott fyrir þann seinni.  Margir að spila vel og flott stemming í hópnum.
Síðari hálfleikur byrjaði hinsvegar ekki vel, Haukarnir  breyttu um vörn, sóttu okkur alveg út að miðju og náðu að skerma Arnar Birki alveg út úr leiknum. Við gerðum ekki mark í tæpar 11 mín. og Haukarnir náðu að jafna leikinn í 18-18. Við samt pínu klaufar að gera ekki betur því þó við fengjum ekki mörg færi þá vorum við að klikka líka úr góðum færum.  Við tókum svo góðan kipp eftir þessa vondu byrjun Sigurður Þorsteins setti nokkur góð mörk og það hristi upp í liðinu.  Elías skoraði úr frábæru sirkusmarki og allt að verða vitlaust, við hreinlega óstöðvandi, aftur komnir í góða stöð þegar 9 mín. voru eftir 22-27.
Það sem svo gerðist verður að skrifast á okkur sjálfa, við fórum að gera klaufa mistök aftur sem gaf Haukunum líflínu,  það fór svo þannig að þeir náðu að jafna leikinn með síðasta skoti leiksins. Lokatölur í dag 28-28.
Það var algjör óþarfi að setja þennan leik í framlenginu því við vorum algjörlega með leikinn í okkar hendi.  Við höfum svo sem gert þetta áður í vetur og verðum að fara að læra af þessu.
Við byrjuðum framlenginguna ekkert sérlega vel, eðlilega voru menn smá kvekktir og ekki til í að taka stóra sénsa til að byrjað með Viktor samt frábær og hreinlega reddaði okkur. Staðan eftir 65 mín. 29-29 og rólegheit í húsinu ! Við náðum svo frumkvæðinu fljótlega með góðum mörkum frá Arnari, Þorgeiri og Sigga en ég held að skot hans hafi farið 6 sinnum í stöngina áður en hann lak í markið, kíkið á þetta mark.Him…
En þetta var ekkert því þegar 2 sek. voru eftir hljóp Hauka maður á Arnar Birkir og kauðinn frá eyjum henti sér niður í þriðja eða fjórða skiptið í þessu leik og ekki nóg með það þá var bróðir hans búinn að henda sér niður nokkrum sinnum áður, þetta á ekki að sjást í handbolta þið bræður. Hætta þessu strax. Arnar Birkir fékk réttilega rautt og víti dæmt, þegar ég kem heim og skoða þetta vel þá lítur þetta ekki vel út en enginn ásetningur í þessu broti og verður fróðlegt að sjá hvað dómarar leiksins skrifa í sínar bækur.
Viktor tók svo vítið glæsilega og við unnum þennan leik sanngjarnt, 32-33.
Við vorum algjörlega frábærir í þessum leik að mörguleiti, baráttan í liðinu til fyrirmyndar og vinnusemi leikmanna frábær.  Það er ekki hægt að biðja leikmenn um meira. En við hefðum átt að spila betur út okkar stöðu þ.e við vorum búnir að vinna þennan leik mörgum sinnum en náðum  því miður ekki að klára verkefnið endanlega. Það hefur verið okkar veikleiki í vetur.
Verð að hrósa strákunum fyrir leikinn og það verður gríðalega spennandi að sjá hvernig við mætum í „leik 2“  sem verður í FRAMhúsi  á þriðjudag kl. 19.30.
Ég hvet alla FRAMara,íbúa Grafaholts-Úlfarsársdals og Háaleitis að mæta á leikinn á þriðjudag kl. 19:30 og orga úr sér lungun, þetta verða allir að sjá sem eru með eitthvað blátt í sér.  Nú er mánuður Bláa fólksins og gerum þessi orð að okkar FRAMara.  „Lífið er blátt á mismunandi hátt“
Mætum í bláu á þriðjudag.
ÁFRAM FRAM

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!