Strákarnir okkar í handboltanum mættu Haukur að Ásvöllum í dag, hreinn úrslitaleikur um sæti í undanúrslitum og því allt undir, hrikaleg spenna í okkar fólki en margir með það á hreinu að við myndum vinna. Ég hafði það úr innsta hring að strákarnir ætluðu að vinna leikinn, mjög góð stemming í okkar liði og allir klárir. Ekki nógu margir mættir en samt ekki hægt að kvarta því það eru páskar og ekki allir sem áttu hreinlega heimagengt, FRAMarar þið eruð flottastir, alltaf.
Leikurinn byrjaði þokkalega, við smá tíma að komast í gang en það væri að æra óstöðugan að fara yfir allt sem gerðist í dag. Við vorum sjálfum okkur vestir lengi framan af hálfleiknum því við fóru illa með góð færi og það varð þess valdandi að við náðum ekki góðu forskoti í fyrri hálfleik. Með betri nýtingu á færum hefðum við átt að vera vel yfir eftir fyrri hálfleikinn, staðan í hálfleik 13-14. Við vorum alls ekki að spila illa í þessum hálfleik en hefðu átt að gera betur, strákarnir mjög góðir seinnihluta hálfleiksins og virkilega gaman að vera í húsinu. Mér fannst við eiga inni.
Síðari hálfleikur var algjör rússibani frá upphafi til enda, við yfir allan hálfeikinn og mest fjögur mörk margir okkar leikmenn að spila gríðarlega vel. Við hefðum átt að klára þennan leiki í venjulegum leiktíma eins og svo oft áður í vetur, við vorum með þennan leik í okkar höndum. En í dag var munurinn að við vorum við að spila við mjög gott lið sem er með frábæra leikmenn sem kunna ýmislegt í handbolta. Leikurinn var því ótrúleg skemmtun og spennan þannig að menn gátu ekki setið í stúkunni, þvílík skemmtun drengir. Lokatölur í dag 32-32. Ljóst að leiknum var ekki nærri lokið.
Já FRAMarar þetta var rétt að byrja, framlengingin var ekki minni spenna og seinni framlengingin ekki síðri, húsið var hreinlega á hvolfi og þið drengir þið voruð dásamlegir í dag. Hvað við FRAMarar eigum marga flott handboltamenn. Staðan eftir 70 mín. 37-37 og 80 mín. 43-43. Hvað viljið þið meira, ég get bara ekki talið þetta allt upp, því ég man hreinlega ekki allt en við áttum möguleika á því að vinna í báðum framlengingum en Haukarnir voru góðir í dag.
Þetta endaði því í vító, eitthvað sem ég man ekki eftir í handbolta á Íslandi í mjög langan tíma, algjörlega magnað og hverning við fórum inn í vítakeppnina allir okkar leikmenn brosandi út að eyrum og bara skrifað í skýin að við við myndum vinna vítakeppnina. Ég held að leikmönnum FRAM hafi liðið þannig í dag ? Við vorum bara að fara að vinna þennan leik og hann Viktor okkar er einn af þeim sem vildi vinna. Drengurinn hreinlega frábær í dag, magnaður og 16 ára, haltu á ketti…..
Það fór sem sé þannig að Þorgeir setti síðasta vítið í markið eftir að Daníel Þór hafði lokað markinu í 4 víti Hauka og hann þurfti bara að skora, bara að skora og hann gerði það sem glans. Þvílíkur leikur hjá honum í dag, Þorgeir var heinlega margnaður og hvað hann hefur vaxið drengurinn. Lokatölur 45-47.
Víð FRAMarar þar með komnir í undanúrslit, en þar sem við mætum Val, baráttan um borgina heldur því áfram, get ekki beðið.
Veit ekki hvar ég á að byrja, Arnar Birkir, Þorgeir, Viktor, Andri, Siggi og Gauti frábærir í dag, hefði ekki getað beðið um meira framlag frá þessum drengjum. Allir hinir gáfu allt sem þeir áttu og geta verið stoltir af því sem þeir skildu eftir á vellunum í dag. Matti, Bjartur, Daníel, Valdi, Andri, Elli, Davíð og Guðjón þið voruð ómetanlegir fyrir liðið í dag. Þvílík frammistaða drengir, Usssss, sem segir okkur að þið getið farið alla leið í þessari keppni. Magnað lið sem við eigum og þá er áherslan á LIÐ, því lið vinna mót, munið mig um það.
Ógleymanlegur leikur og ég er spenntur fyrir framhaldinu. Mun ekki þreytast á því að mæta á leiki hjá þessu liði. Næsti leikur verður á heimavelli gegn Val á miðvikudag kl. 19:30 að ég best veit.
Ég er að segja ykkur það, þið verðið að mæta og styðja strákana okkar, þetta verður ógleymanlegt.
Gleðilega páska og njótið helgarinnar.
ÁFRAM FRAM