Það var rafmagnað loft í FRAMhúsinu í dag þegar við mættum Haukum í 3 leik okkar í 4 liða úrslitum Olísdeildar kvenna. Hitti á nokkra leikmenn fyrir leik og það var gott hljóð í mannskapnum en mikil spenna í húsinu. Það var gríðarlega vel mætt af okkar fólki og frábær stuðningur frá fyrstu mínútu greinilegt að stuðningsmenn ætluðu ekki að láta sitt eftir liggja í þessum leik. Þið voruð hreinlega frábærir FRAMarar í dag, takk fyrir stuðninginn, ómetanlegt.
Leikurinn í kvöld byrjaði hinsvegar ekki vel hjá okkur, við vorum bara ekki mættar til leiks. Þetta er eitthvað sem við verðum að fara að laga. Varnarlega vorum við mjög ólíkar sjálfum okkur og sóknarlega var fát á okkur. 2-7 eftir 10 mín. Við tókum reyndar flottan kipp og settum 3 mörk á mjög stuttum tíma og náðum að minnka muninn í 8-9 að mig minnir, fannst eins og við værum að ná tökum á leiknum. En það var bara ekki þannig við lékum mjög illa sóknarlega sem gaf Haukum mörg ódýr mörk og við vorum 6 mörkum undir í hálfleik, 10-16. Lagt síðan við höfum fengið á okkur 16 mörk í einum hálfleik. Ljóst að við þyrftum að gera mun betur í síðari hálfleiknum, en mér fannst Haukarnir spila gríðarlega vel í þessum hálfleik, það verður bara að viðurkennast.
Við vorum smá tíma að koma okkur í gang eftir hlé, en svo small vörnin og sóknarlega fór Ragnheiður að spila vel. Guðrún gaf tóninn með mjög góðri markvörslu og við fórum að vinna niður sjö marka forrustu Hauka. Staðan eftir 50 mín. 20-22. Við náðum svo að jafna leikinn þegar 2 mín. voru eftir og þar við sat, lokatölur eftir 60 mín. 24-24. Nú var spennan orðið óbærileg og ég er að segja þér það, hún átti ekki eftir að minnka. Þvílíkt stuð í húsinu.
Við byrjuðum illa í framlengingunni og skoruðum ekki mark, staðan eftir 65 mín. 24-26. Mér var farið að líða smá illa því við vorum undir 2 mörk og eitthvað fát á okkur. Við náðum svo að minnka muninn þegar 35 sek. voru eftir og Sigurbjörg jafnaði leikinn þegar 5 sek. voru eftir, algjörlega magnaður endir á þessari framlenginu og þakið um það bil að fara af húsinu. Þvílík læti og ég bara ekki hissa á því þakið sé farið að flagna, það verður bara eitthvað undan að láta.
Við byrjuðum svo seinni framlengingum gríðarlega vel, settum 3 mörk og komnar með frumkvæðið. Staðan eftir 75 mín. 30-27. Nú var leikurinn í okkar höndum og við kláruðum þennan leik vel, lokatölur í dag 31-28.
Magnaður sigur og þvílíkur karakter hjá okkar stelpum í kvöld. Maður tekur hreinlega hattinn ofan fyrir þessum snillingum, baráttan og sigurviljinn vann þennan leik. Bara magnað að klára þennan leik og gefum okkur búst fyrir úrslitin. Glæsilegt stelpur.
Guðrún var frábær í kvöld og þá sérstaklega þegar á leikinn leið, ómetanlegt að hafa svona markvörð í liðinu. Ragnheiður kom mjög stek inn og Steinunn heldur þessi liði saman bæði í vörn og sókn. Guðrún Þóra, Sigurbjörg og Rebekka Rut að spila vel þegar á reyndi og settu mikilvæg mörk.
Þar með erum við komnar í úrslit, unnum 3-0 og fáum nú nokkra aukadaga í hvíld á meðan hin liðin klára sína rimmu. Vel gert stelpur, takk FRAMarar og sjáumst í úrslitum.
ÁFRAM FRAM