Strákarnir okkar í handboltanum mættu Val að Hlíðarenda í 4 liða úrslitum Olísdeildarinnar í kvöld. Þetta var leikur 2 en við töpuðum leik 1 á heimavelli fyrir viku. Það var því afar mikilvægt fyrir okkur að ná góðum úrslitum í þessum leik og jafna seríuna. Ágætlega mætt af okkar fólki en hefðum mátt vera aðeins fleiri.
Við byrjuðum leikinn ágætlega en ekkert meira en það, stóðum vörnina þokkalega en vorum ekki að finna okkur sóknarlega ásamt því að fara ekki vel með ágætfæri. Staðan eftir 10 mín. 3-2. Það vantaði eins uppá stemminguna hjá okkar drengjum, við hálf daufir. Við náðum lítið að hreyfa vörn andstæðinganna, vorum ferlega hægir og fyrirsjáanlegir, það bara gekk ekkert að skora. Varnarlega vorum við þokkalegir ásamt því að Viktor fór að verja. Staðan eftir 20 mín. 6-4. Skyttur okkar ekki búinar að gera mark. Það breyttist heldur lítið fram að hálfleik, vorum í vandræðum sóknarlega, létum verja frá okkur úr góðum færum og við bara ferlega andlausir. Staðan í hálfleik 9-7. Fátt sem gladdi augað nema að Viktor varði tvö víti. Ljóst að við þyrftum að gera miklu betur og kveikja aðeins í liðinu í hálfleik.
Síðari hálfleikur byrjaði ekki vel, það var því miður lítil breyting á okkar spilamennsku sóknarlega. Við hreinlega úti á túni og afskaplega ólíkir sjálfum okkur. Viktor hélt okkur á floti og staðan eftir 40 mín. 12-9. Okkar skyttur búnar að gera 1 mark. Við náðum okkur ekkert á strik og vorum bara að spila illa, fátt gott um okkar leik að segja og andstæðingurinn hreinlega að pakka okkur saman. Staðan eftir 46 mín. 18-11 og 21-12 eftir 50 mín. Okkur algjörlega fyrirmunað að skora, svakalegt að horfa á þetta.
Síðustu 10 mínútur leiksins voru svo bara formsatriði enda vonlaust að vinna upp svona forskot.
Lokatölur í kvöld 27-15.
Veit ekki hvað er hægt að segja, við algjörlega skelfilegir í þessum leik, við getum bara ekki mætt svona andlausir í úrslitaleik. Varnarlega vorum við bara í lagi lengi vel en sóknarlega var okkur gjörsamlega fyrirmunað að skora, það vantaði bæði kraft og áræðni í allt sem við vorum að gera. Það er ekki hægt að ætla að spila handbolta af hálfum hug. Enginn sem stóð upp úr í dag en Viktor átti góða spretti.
Næsti leikur er eftir rúma viku á okkar heimavelli og ég ætla rétt að vona, að það verið ekki okkar síðasti leikur í vetur. Það væri ömurlegt að enda þennan flotta vetur með tapi á heimavelli.
Upp með hausinn drengir og gefið allt í næsta leik, við mætum og styðjum ykkur.
ÁFRAM FRAM