fbpx
FRAM - HK vefur

Óslitin sigurganga í Kórahverfi

Það er oft ónotaleg tilfinning sem fylgir því að mæta með fáeinna daga millibili sama liði í deild og bikar. Í minningunni hafa slíkir tvíhöfðar tilhneigingu til að enda á þá leið að tapliðið úr fyrri leiknum nái fram hefndum í síðari viðureigninni. (Reyndar munu tölfræðingar hafa reiknað út að þessi mýta standist illa skoðun – en flest látum við eðlisávísun frekar en tölfræðinga stjórna lífi okkar.
Keppnistímabilið hófst fyrir alvöru með útileik gegn HK í bikarnum fyrir viku. Sá sem þetta ritar missti af þeim kappleik, en flestum heimildamönnum ber saman um að þar hafi ekki verið mikils misst – við komumst þó áfram í 32-liða úrslitin sem var fyrir öllu.
Það hversu stutt var frá síðustu viðureign liðanna hafði þó greinilega sitt að segja fyrir stemninguna meðal leikmanna beggja liða. Strax á fyrstu mínútunum mátti sjá að þráðurinn væri stuttur, einkum í heimamönnum – sem kemur svo sem ekki á óvart með þá Jóhannes Karl Guðjónsson og Pétur Pétursson báða í þjálfarateymi HK. Þeir höfðu væntanlega engan húmor fyrir tilhugsuninni um tvö töp gegn Fram.
Fyrri hálfleikur einkenndist því að harðri stöðubaráttu, þar sem lítið gerðist þó framávið lengst af. Fyrsta færið sem náði máli var þegar hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður. Þá heimtuðu heimamenn víti af tilefnislausu, en Framarar brunuðu fram og einungis glæsitilþrif HK-markvarðarins kom í veg fyrir að Bubalo opnaði markareikninginn.
HK átti ágætis spretti í samspili úti á velli en var bitlaust í sókninni. Framarar áttu einu færin og hálffærin fyrir hlé og á 44. mínútu kom Bubalo okkur yfir – nýtti vel dauðafæri sem HK-vörnin færði honum á silfurfati eftir farsakennd mistök, þar sem einn leikmanna þeirra rann á rassinn án sýnilegrar ástæðu.
Þið skorið bara ljót mörk gegn okkur“, sagði svekktur HK-kunningi minn í röðinni eftir kaffibollanum í sjoppunni í hléinu. „Markið fyrir viku var það ljótasta í sögunni“, bætti hann við, „en þetta var það næstljótasta.“ – Ekki veit ég hvort hann hefur endurskoðað þessa röðun eftir seinni hálfleikinn, en það væri synd að segja að mark Helga Guðjónssonar á 49. mínútu hafi verið sérstakt augnayndi. Helgi kom inná fyrir Kristófer í hléi og var ekki lengi að láta að sér kveða. Sóknarmenn Fram voru eitthvað að atast í fjölmennri HK-vörninni. Kópavogsbúar töldu sig væntanlega eiga heimtingu á aukaspyrnu og biðu eftir að dómarinn flautaði, en á meðan hrökk boltinn fyrir fætur Helga sem átti ekki í vandræðum með að afgreiða hann í netið.
Við Framarar voru skyndilega komnir með þægilega forystu og næsta skref var að drepa leikinn og sigla stigunum þremur í höfn. HK hresstist hins vegar við áföllin og fór loks að skapa sér færi. Örlítil taugaveiklun virtist grípa Framvörnina fyrstu tíu til fimmtán mínúturnar eftir seinna markið, HK fékk nokkur góð færi og má þakka Hlyni Erni í markinu fyrir að þeim tókst ekki að skora. Vörnin í heild sinni leit ekki vel út á þessum kafla, en einstaklingsframtak ýmissa leikmanna kom í veg fyrir að ekki fór verr. Þar má nefna Sigurð Þráinn sem var gríðarlega traustur í miðvarðarstöðunni allan leikinn. Reyndar er ástæða til að hrósa miklu fleiri leikmönnum fyrir baráttuna í kvöld. Benedikt Októ skipti vandræðalaust á milli stöðu vinstri kantmanns og hægri bakvarðar og skilaði hvoru tveggja vel. Indriði Áki átti góða spretti og Símon Smidt lét finna fyrir sér. – En sem fyrr segir á allt liðið hrós skilið fyrir baráttu og festu… sem var nauðsynleg því þetta var alvöru Inkasso-leikur en enginn ballett.
Síðustu tuttugu mínúturnar virtist Frömurunum ætla að takast að halda tökum á leiknum. Sóknir HK-manna urðu þá færri og bitminni, en framherjar okkar tóku að ógna á ný. Bubalo var nærri því að klára leikinn endanlega með flottu skoti á 75. mínútu en skotið sleikti stöngina.
Á lokamínútu venjulegs leiktíma eygðu heimamenn vonarglætu þegar Árni Arnarson skallaði í netið og reyndar líka í hausinn á félaga sínum. Ásmundur þjálfari er varla kátur með að tveir andstæðingar hafi komist óvaldaðir á fjærstöngina í föstu leikatriði í blálokin. Sem betur fer tókst HK ekki að ganga á lagið þrátt fyrir alldrjúgan uppbótartíma, þar sem allt virtist ætla að sjóða upp úr við varamannabekk HK eftir ljótt brot á einum okkar manna. Dómarinn flautaði til leiksloka og fámenn en góðmenn sveit Framstuðningsmanna hyllti toppliðið, sem að sjálfsögðu endaði á ziggi-zaggi.
Fyrsti leikur búinn og bara tuttugu og þrír eftir. Illu er best af lokið segir víst í páskaegginu og því gott að hafa strax afplánað innanhússleikinn í Kópavogi á þessu gamla og úrsérgengna gervigrasi. Eftir fyrsta leikkvöld Inkasso 2017 trónir Fram á toppnum og þannig viljum við jú hafa það!

Stefán Pálsson

 

 

 

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Karfa0
There are no products in the cart!
Halda áfram að versla
0