Ljósmyndari leit við á síðustu æfingu fyrir Íslandsmót en Inkasso-deildin hefst í dag, föstudaginn 5. maí, á útileik gegn HK í Kórnum í Kópavogi.
Leikmenn koma vel undan vetri og virka ferskir og tilbúnir í slaginn. Spáin fyrir mót gerir ráð fyrir liðinu um og fyrir neðan miðja deild. Leikmenn munu nota það til að brýna sig fyrir átökin og liðið ætlar sér stærri hluti en það.
Að æfingu lokinni var haldið í kirkjugarðinn að Lágafelli í Mosfellsbæ þar sem lagður var blómsveigur að leiði Ásgeirs Elíassonar heitins og Soffíu Guðmundsdóttur konu hans. Í ár verða liðin tíu ár frá andláti Ásgeirs en hann féll frá langt fyrir aldur fram. Formaður knattspyrnudeildar Fram, Hermann Guðmundsson, minntist Ásgeirs með nokkrum orðum og brýndi leikmenn fyrir komandi átök og minnti þá á að nú væru þeir Framarar eins og þúsundir annarra félaga lifandi og liðinna. Hermann hvatti leikmenn og þjálfara til að leggja sig alla fram um að vera félaginu til sóma bæði innan sem utan vallar, eins og Ásgeir hafði ávalt haft að leiðarljósi.
Við hvetjum alla til að fjölmenna á leikina í sumar og styðja okkar stráka.
Sjáumst í Kórnum kl. 19:15 í kvöld.
Áfram FRAM!
Fleiri myndir má sjá hér.