Í kvöld var komið að því. Fyrsti leikur í einvígi Fram og Stjörnunnar um Íslandsmeistaratitilinn. Leikurinn fór fram í Mýrinni heimavelli Stjörnunnar.
Fyrstu mínúturnar var jafnræði með liðunum en síðan fékk Stjarnan nokkur hraðaupphlaup og náði forustu 7 – 3 eftir um 10 mínútur. Fram tók leikhlé og breytti stöðunni eftir það í 9 – 11 á nokkrum mínútum. Vörnin að halda virkilega vel og Guðrún að verja vel. Fram jók forustuna meira og var yfir í hálfleik 12 – 16.
Stjarnan byrjaði seinni hálfleikinn að miklum krafti eins og við mátti búast og jafnaði 20 – 20. En Fram náði aftur vopnum sínum og leiddi 22 – 25 þegar um 10 mínútur voru eftir. Þá hófst mikil barátta. Fram náði ekki að nýta sínar sóknir en Guðrún Ósk hélt okkur inní leiknum með frábærri markvörslu fyrir aftan frábæra vörn. Síðustu mínúturnar spilaði Stjarnan maður á mann og kom þá upp smá óðagot á okkur. Stjarnan náði ekki að nýta sér mistök okkar og tíminn rann út. Frábær Fram sigur 24 – 25.
Vörnin spilaði virkilega vel í kvöld ef frá eru taldar fyrstu 10 mínúturnar. Guðrún Ósk var frábær og var með eina 24 bolta varða, 50 % markvarsla.
Sóknarlega vorum við einnig að spila vel á löngum köflum. Ragnheiður og Hildur með mjög góð mörk og Sigurbjörg einnig.
Mörk Fram skoruðu, Ragnheiður 8, Hildur 5, Steinunn 5, Sigurbjörg 3, Rebekka 2 og Elva 2.
Í heil frábær sigur í fyrsta leik. En þetta er rétt að byrja. Næsti leikur verður mikið erfiðari og ef við komum ekki tilbúnar í þann leik þá skiptir sigurinn í kvöld litlu.
Fram þarf því á öflugum stuðningi að halda á miðvikudaginn þegar leikur nr. 2 fer fram í Safamýrinni kl. 18:30.
Mæta þá.
Áfram Fram