fbpx
bubalo

Rok í Reykjavík

Stúkan við Laugardalslaugina er vanmetnasta mannvirki á Íslandi. Reglulega gerist það að gárungar hæðast að stúkunni sem enginn situr í og gantast með hugmyndina um mörghundruð áhorfendur á sundmótum. Veruleikinn er hins vegar sá að stúkan er stærsti vindbrjótur á Íslandi. Án hennar væri sumarið í Laugardalslauginni einni til tveimur mánuðum styttra, því þegar kaldi vindstrengurinn kemur úr norðrinu verður nístandi kalt í Laugardalnum.

Leikurinn við Hauka bar merkis þessa. Það var næðingur. Það var kalt. Fámennur en góðmennur áhorfendahópurinn færði sig sífellt ofar í stúkunni eftir því sem leið á leikinn og starfsmenn Laugardalsvallar þurftu nálega að beita ofbeldi til að rýma VIP-stúkuna eftir leikhléið, þar sem kulvísir Framherjar reyndu að hanga á kaffibollanum og Oreo-kexkökunni sinni.

Fram byrjaði með vindinn í bakið og fyrri hálfleikur gekk út á að okkar menn sóttu og reyndu, með takmörkuðum árangri, að nýta hann sér í hag. Haukar eru hins vegar lið sem kann sín takmörk (þannig liðum vegnar yfirleitt vel í þessari deild) og höfðu ekki minnsta áhuga á að halda boltanum. Þeim hugnaðist vel að liggja til baka, verjast, láta Framara um að spila úti á vellinum og treysta á skyndisóknir.

Okkar menn voru meira og minna með boltann í fyrri hálfleik án þess að ógna verulega. Fá raunveruleg marktækifæri litu dagsins ljós, en hálffærin voru öll Framara. Helgi Guðjónsson og Bubalo börðust vel en vantaði einhvern veginn alltaf herslumuninn. Í tilfelli þess síðarnefnda hjálpaði ekki að Haukarnir fengu í sífellu að brjóta á honum án þess að neitt væri dæmt. Ekki í fyrsta og varla í síðasta sinn sem framherjinn okkar þarf að gjalda fyrir að vera stór og stæðilegur útlendingur.

Með smá heppni hefði Fram hæglega átt að skora mark á fyrsta fjórðungi leiksins, en miðverðir Haukanna voru fastir fyrir og alltof margar sendingar af miðjunni voru of háar, fastar eða ónákvæmar. Taugaveiklaður Haukamarkvörðurinn þurfti lítið að hafa fyrir hlutunum og Haukavörnin átti ekki í neinum vandræðum með föst leikatriði. Fljótlega hættu Haukarnir líka að hika við að gefa horn og aukaspyrnur – vitandi að ekkert kæmi út úr þeim.

Haukar fengu tvö færi sem náðu máli í fyrri hálfleik. Bæði upp úr engu og eftir kæruleysi í Framvörninni. Í fyrra skiptið skall hurð nærri hælum, en í seinna skiptið – á 27. mínútu – var okkur refsað fyrir kæruleysið, 0:1. Eftir markið hélst allt við það sama út hálfleikinn. Fram sótti og átti fáein hálffæri og jafnvel 1-2 góð færi, en inn vildi boltinn ekki.

Það var bærileg stemming í leikhléi og Framstuðningsmenn frekar bjartsýnir um að landið færi að rísa, þótt sótt yrði upp í vindinn eftir hlé. Áfram héldum við að búa til hálffæri og Hafnfirðingar byrjuðu ansi snemma að nota hvert tækifæri til þess að tefja, með því að leggjast í jörðina og kalla til sjúkraþjálfa í tíma og ótíma. Þessar drjúgu tafir áttu síðar eftir að koma að góðum notum og á meðan á þeim stóð gafst Frömurum á pöllunum ágætt tækifæri til að rifja upp bráðskemmtilega sigra á Haukaliðum karla og kvenna í úrslitakeppninni í handboltanum í vor. (Minnið mig á að taka ekki sumarfríið í Hafnarfirði í ár.)

Þegar um hálftími var eftir virtist leikaðferð Hauka ætla að virka. Töluvert var farið að draga af okkar mönnum. Helga, sem hafði verið sprækur en tekinn að þreytast, var skipt útaf fyrir Alex Frey. Sóknum Framara tók að fækka og spilið einkenndist af marklausum kýlingum fram á við. Og á 75. mínútu komust Haukar í 0:2 nánast upp úr engu, aftur eftir einbeitingarleysi í vörninni.

Hvekktir Framarar í stúkunni játuðu sig sigraða einn af öðrum og sá er þetta ritar byrjaði að tuða yfir því að rétt væri að kippa Bubalo útaf áður en hann fengi hið óumfýjanlega seinna gula spjald sitt fyrir tuð eða pirringsbrot. Ásmundur þjálfari var ekki á sama máli og setti Orra og Axel Frey inná þegar tíu mínútur voru eftir.

Ekkert benti til þess að Framarar kæmu sér inn í leikinn þegar aukaspyrna var dæmd vel fyrir utan vítateig á 84. mínútu. Simon Smidt tók óratíma í að stilla upp og við önugu gamlingjarnir í stúkunni nöldruðum hvor í öðrum að þetta færi augljóslega langt yfir – ef boltinn drifi þá alla leið að varnarveggnum… Nema hvað: Smidt lagði knöttinn snyrtilega í markhornið með spyrnu sem var ekkert sérstaklega föst eða óútreiknanleg. Haukamarkvörðurinn mun gráta sig í svefn.

Nema hvað, nú var allt í einu komin upp glæný staða. Haukarnir fóru algjörlega á taugum og lögðust í nauðvörn þótt enn væru tíu mínútur eftir. Framliðið blés til sóknar og færðist sífellt nær markinu. Axel Freyr og Alex Freyr (má í alvörunni vera með tvo menn sem heita nálega sama nafni í leikmannahópi?) fengu hvor sitt færið en tíminn virtist á bandi Hauka – og þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma gáfu þeir horn.

Í horninu ákvað varnarmaður Hafnfirðinga að skynsamlegt væri að stíga á Alex og hrinda honum í leiðinni. Dómarinn, sem hafði látið 2-3 mögulegar (en langsóttar) vítaspyrnur Framara eiga sig var ekki í nokkrum vafa og benti á punktinn. Bubalo (maður leiksins) skellti honum á punktinn, skoraði glæsilega og var fyrstur allra til að grípa boltann og hlaupa með hann að miðju. Á þeim fáu sekúndum sem eftir lifðu tókst Fram að skapa sér hálffæri en lengra komumst við ekki. Eitt stig er kannski ekki merkileg uppskera á heimavelli gegn ekki sterkara liði en Haukum, en jöfnunarmark í uppbótartíma slagar samt upp í sigur. Og það að spila í þessum strekkingi er frábær upphitun fyrir bikarslaginn á miðvikudaginn.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!