fbpx
FRAM Haukar vefur

Skúffelsi á Skipaskaga

Það er líklega rétt að skrifa tvær umfjallanir um bikarleikinn okkar á Akranesi í kvöld. Önnur fjallar um fyrstu 87. mínúturnar og er um flest ánægjuleg lesning. Hin rekur herfilegar lokamínúturnar og er lítil skemmtun. Í þessu efni gildir það sama og um lýsið með morgunmatnum – illu er best af lokið. Vindum okkur í hörmungarnar:

Þegar 88. mínúta rann upp virtist sólin brosa við okkur Frömurum, að svo miklu leyti sem hægt er að nota þá myndlíkingu um leik sem fór fram í dæmigerðu, hvínandi Skagaroki. Fram var með 3:1 forystu og manni fleiri eftir að einum heimamanna hafði verið vikið útaf nokkrum mínútum fyrr. Ómarkvissar tilraunir gulklæddra til að koma sér inn í leikinn höfðu litlu skilað og hljóðið í áhorfendum var verulega þungt.

En þá fengu leikmenn ÍA óvænta líflínu. Aukaspyrna var dæmd alveg úti við endamörk, rétt utan vítateigs. Boltanum var lyft inn í teig, þar sem sterkir sviptivindar rugluðu vörn og markvörð. Garðar Gunnlaugsson skallaði í netið framhjá Atla Gunnari sem stóð í markinu í stað Hlyns Arnar. Á augnabliki breyttist stemningin á vellinum.

Tveimur til þremur mínútum síðar fengu Skagamenn aðra aukaspyrnu á nánast sama stað. Allir þyrptust inn í teig, þar sem voru miklar stympingar. Kristófer Reyes var að kljást við einn Skagamanninn, togaði í hann og fékk á sig víti og sitt annað gula spjald. Akranes jafnaði og veðurbarðir áhorfendur bjuggu sig undir framlengingu.

Til hennar kom þó ekki. Framarar, enn sársvekktir og áttavilltir eftir jöfnunarmarkið, höfðu misst alla einbeitingu og varamaður ÍA náði að stinga sér í gegnum vörnina og skora þriðja markið á fimm mínútum og skjóta sínum mönnum áfram í bikarnum. Helvítis, fokkíng fokk – eins og skáldið sagði.

Þessi gallsúru úrslit voru þeim mun ergilegri í ljósi þess hversu margt jákvætt hafði verið um leikinn að segja fram að ósköpunum. (Og núna hefst hin umfjöllunin.):

Liðsuppstillingin var talsvert breytt frá Haukaleiknum. Auk markmannsskiptanna sem áður voru nefnd, sátu Bubalo, Helgi Guðjónsson og Högni Færeyingur á bekknum allan tímann. Dino var ekki í hópi varamanna og því væntanlega meiddur. Í þeirra stað voru Guðmundur Magnússon, Kristófer Reyes, Hlynur Atli og Alex Freyr allir í byrjunarliðinu. Einhverjir áhorfendur hvískruðu um að Ási þjálfari ætlaði greinilega að setja bikarinn skör lægra en deildina miðað við þessar breytingar. Sú þarf þó alls ekki að hafa verið raunin. Munurinn á Framliðinu í ár og tvö síðustu ár er að breiddin er miklu meiri. Við erum með menn á bekknum sem hæglega er treystandi til að byrja hvern leik. Það er mikil framför.

Nýju mennirnir voru greinilega staðráðnir í að nota tækifærið til að stimpla sig inn. Enginn þó fremur en Guðmundur Magnússon, sem lét Skagamenn hafa fyrir hlutunum frá fyrstu mínútu. Kröftug byrjunin skilaði sér í marki þegar á áttundu mínút. Sigurpáll Melberg átti þá stungusendingu inn fyrir vörnina sem við allar eðlilegar veðuraðstæður hefði reynst of föst og of löng, en Skagarokinu tókst á undraverðan hátt að bremsa boltann í loftinu og láta hann falla beint fyrir tær Guðmundar sem afgreiddi hann fallega fram hjá markverðinum.

Skagamenn voru hugmyndasnauðir og reyndu einkum að senda langa bolta fram á við sem auðvelt var að stöðva. Við tók langur kafli með stöðubaráttu þar sem hvorugu liði tókst að byggja upp mikið spil, Frömurum þó sýnu skár. Sóknar- og miðjumenn Fram virtust miklu ákveðnari en andstæðingarnir og á 39. mínútu bætti Guðmundur við öðru marki eftir frábæran undirbúning og sending frá Benedikt Októ. Ekki tókst okkur þó að fara með tveggja marka forystu í leikhléið, því andartaks einbeitingarleysi í vörninni og örlítið misheppnað úthlaup varð til þess að Skaginn fékk víti og minnkaði muninn í 2:1.

Framstuðningsmennirnir í brekkunni voru kátir í hléi, en þó á varðbergi. Skagamenn höfðu verið ótrúlega daufir í fyrri hálfleik og hlytu að koma öflugri til leiks í þeim síðari. Aðalmálið væri að þrauka fyrstu tíu mínúturnar….

En það fór á annan veg. Seinni hálfleikur var ekki fyrr hafinn en Guðmundur Magnússon splundraði vörn ÍA með flottri sending á Alex Frey sem var svellkaldur og skoraði 3:1. Fréttaritari Framsíðunnar hefur séð marga Framleiki á Akranesi, þann fyrsta árið 1985. Oftar en ekki hefur þar verið notast við sama handritið, þar sem sóknarmenn Framara eru tuskaðir til af einhverjum jötnum í miðju Skagavarnarinnar. Það var því einstaklega ánægjuleg nýbreytni að sjá okkar menn vera þeir sterku og ákveðnu, sem sópuðu andstæðingunum til hliðar þegar þurfa þótti.

Guðmundur var bestur okkar manna í dag, en full ástæða er til að geta um fleiri. Indriði Áki var sívinnandi, Sigurpáll Melberg fantagóður á miðjunni og Benedikt Októ brá sér að venju í ýmis og ólík hlutverk á vellinum.

Frá þriðja Frammarkinu og til þessarar ömurlegu 88. mínútu  virtist Fram mun líklegra til að bæta við en heimamenn að minnka muninn og eftir á að hyggja er ergilegt að ekki hafi tekist að nýta 2-3 góð færi sem sköpuðust. Við verðum víst ekki bikarmeistarar í ár, en hver vill svo sem vinna bikarkeppni sem er kostuð af einhverju greiðslumiðlunarfyrirtæki sem er alltaf verið að rífast um í fréttunum? Og svo urðu Framstelpurnar líka Íslandsmeistarar, svo sá sem þetta ritar er bara góður!

Stefán Pálsson

 

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!