fbpx
Leiknir FRAM vefur

Óþarfar sumargjafir

Fótboltasumarið 2017 byrjaði fyrir alvöru á Leiknisvelli. Reyndar hafði Fram þegar leikið fjórum sinnum í deild og bikar fyrir kvöldið, en tveir leikirnir voru innandyra á gervigrasi og aðrir tveir í næðingi eða hreinlega roki. Þegar flautað var til leiks í Breiðholtinu voru aðstæður hins vegar allar ákjósanlegar: fallegur grasvöllur, sól og hlýr andvari (sem breyttist reyndar í golu þegar á leið). Frábært fótboltaveður.

Liðið var aðeins breytt frá tapinu ergilega á Akranesi, en Guðmundur Magnússon hélt sæti sínu í framlínunni meðan Bubalo mátti sætta sig við tréverkið. Hlynur Örn var aftur kominn í markið og Orri Gunnarsson byrjaði inná. Alex Freyr var hins vegar á ný í hópi varamanna. Einhverjir urðu hissa að ská Kristófer Reyes í liðinu eftir rauða spjaldið á Skaganum og furðuðu sig á að hann væri ekki leikbanni. Reglufróðir menn upplýstu þá að á síðasta ársþingi KSÍ hafi verið ákveðið að skilja alfarið á milli bikarkeppninnar og deildarinnar þegar kemur að spjöldum.

Í leikskrá Leiknismanna var tekið fram að bakvörðurinn Ósvald Jarl hefði áður verið í herbúðum okkar Framara. Hins vegar gleymdi ritstjórinn alveg að geta um frækinn feril Leiknisþjálfarans, Kristófers Sigurgeirssonar, hjá Safamýrarstórveldinu.
Áhorfendur sleiktu sólina og leikurinn hófst á frekar rólegum nótum. Varla hægt að tala um nein alvöru færi fyrsta stundarfjórðunginn, þótt Indriði Áki næði reyndar skoti að marki, en beint í lúkurnar á markverði Leiknis. Leikurinn var í hálfgerðum hægagangi og sóknir beggja liða of hægar til að valda sérstökum usla.

Á 18. mínútu náðu heimamenn forystu hálfpartinn upp úr þurru. Stungusending smaug í gegnum Framvörnina, sem leit ekkert sérstaklega vel út í það skiptið. Sannast sagna hefur vörnin virst brothætt það sem af er sumri, eins og markafjöldinn í deild og bikar ber með sér. Meiðsli og örar mannabreytingar eiga vafalítið þátt í því.
Hafi fyrra mark Leiknismanna verið hálfgerð gjöf frá Framvörninni, var það seinna hálfu verra. Á 34. mínútu áttu Framarar flotta sókn þar sem boltinn barst hratt manna á milli: Símon átti frábæra sending yfir þveran völlinn á Indriða Áka sem aftur kom knettinum á Benedikt Októ sem sendi á Guðmund sem skoraði með góðu skoti. Framarar fögnuðu, en aðstoðardómarinn hafði lyft flaggi sínu til að dæma rangstöðu á Guðmund– sem virtist hæpinn dómur.
Leiknismenn voru fljótir að hugsa og stormuðu upp völlinn á meðan Framarar voru enn að átta sig. Boltinn lá í netinu, 2:0, tuttugu sekúndum eftir að okkar menn töldu sig hafa jafnað. Það sem eftir lifði hálfleiksins bar fátt til tíðinda, fyrir utan að Kristófer Reyes fékk frían skalla eftir aukaspyrnu rétt fyrir hlé.

Leiknismenn eru skipulagðir og þekkja vel sín takmörk. Í seinni hálfleik voru þeir staðráðnir í að drepa niður leikinn og virtist ganga það býsna vel. Framarar sköpuðu sér lítið og áhorfendur fóru sífellt oftar að gægjast í símana sína til að fá fréttir af handboltaleik tveggja liða sem hér verða ekki nefnd á nafn suður í Hafnarfirði.

Þegar um hálftími var til leiksloka brá Ásmundur á það ráð að gera tvöfalda skiptingu. Bubalo og Alex Freyr komu inná og fljótlega tók stríðsgæfan að breytast okkur í vil. Það var þó í takt við annað í leiknum að markið sem kom okkur inn í leikinn á ný, varð til upp úr varnarmistökum. Símon var rétt staðsettur til að nýta sér aulagang í Leiknisvörninni, sendi á Guðmund sem skaut í slá af stuttu færi, en Alex nýtti sér frákastið og skoraði auðveldlega. Tuttugu mínútur eftir og allt gat gerst.
Þrátt fyrir markið ákváðu Leiknismenn að reyna að hanga á fengnum hlut og sóknarþungi Framara jókst. Tíu mínútum síðar fékk Alex Freyr (maður leiksins) boltann við endamörk frá Benedikt Októ, sendi hann fast og lágt fyrir markið þar sem Bubalo þurfti rétt að pota honum yfir marklínuna.
Það sem eftir leið leiks áttu Framarar frá a-ö. Leiknismenn höfðu engin völd á miðjunni  en lögðu þeim mun meiri áherslu á að leggjast í grasið í tíma og ótíma. Fram fékk 1-2 þokkaleg tækifæri til að tryggja sér stigin þrjú, en lengra komumst við ekki.
Fyrirfram hefði maður líklega sætt sig við stig á erfiðum útivell í Breiðholti og óneitanlega er það alltaf betri tilfinning að ná jafntefli eftir að hafa lent undir en á hinn veginn. Tvívegis hafa Framarar nú komið til baka eftir að hafa lent tveimur mörkum undir, sem út af fyrir sig er gleðilegt. Deildin byrjar öll í einum hnappi. Nú er bara að tryggja að baráttan skili sigrum í stað léttvægra jafntefla. En þá verðum við líka að hætta þessum óþarfa sumargjöfum í vörninni.

Stefán Pálsson

 

 

 

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!