fbpx
bubalo

Fjallabaksleiðin

Höfum eitt á hreinu: ekkert í lífinu er fallegra en ljótir sigrar. Jújú, það er voðalega gaman að horfa á liðið sitt spila eins og Brasilía ´82, tæta sundur varnir að vild og vinna 3:0… en það er samt einhvern veginn miklu sætara að svæla inn marki – helst frekar ljótu – á lokasekúndunum og herja út sigur þegar allir voru búnir að sætta sig við annað. Þetta var þannig kvöld.

Fram stillti upp sókndjörfu byrjunarliði gegn ÍR á þjóðarleikvangnum. Það var greinilegt að blása átti til sóknar og kafsigla nýliðana úr Breiðholti. Og staðan hefði svo auðveldlega getað verið 2:0 eftir kortér. Alex setti boltann í slá eftir fáeinar mínútur og skömmu síðar fékk Arnór Daði frían skalla eftir hornspyrnu. ÍR-ingar voru með lífið í lúkunum og ekkert benti til annars en þægilegs heimasigurs á föstudagskvöldi.

Eftir fyrstu 15-20 mínúturnar tók aðeins að draga af okkar mönnum og ÍR náði að þétta vörnina. Leikáætlun þeirra gekk þó út á það eitt að liggja til baka, verjast og vonast til að fá skyndisókn eða tvær þegar á liði. Svo sem ekki vitlaus taktík hjá liði sem er afar meðvitað um sín takmörk. Inn vildi boltinn ekki fyrir hlé, en Framherjar tóku lífinu frekar létt í kaffinu undir stúkunni í hálfleik og mauluðu ljúffenga sandköku. ÍR-ingar höfðu litið verulega illa út fyrstu 45 mínúturnar, að frátöldum markverði og öftustu varnarmönnum og með tímanum hlyti eitthvað undan að láta.

Hafi stuðningsmennirnir vonast eftir að seinni hálfleikurinn byrjaði af sama krafti og sá fyrri, urðu þeir skjótt fyrir vonbrigðum. Sóknartilburðir Framara voru bitlitlir og einkenndust af of mörgum snertingum og fyrirsjáanlegum sendingum. ÍR fékk sitt fyrsta marktækifæri á 53. mínútu. Hlynur varði ágætlega en tónninn var sleginn.
Fram hélt áfram að sækja, en skapaði sér lítið af viti. Eins og venjulega komust varnarmenn andstæðinganna upp með að toga í Bubalo og hrinda honum að vild án þess að neitt væri dæmt – ekkert nýtt þar.

Eftir því sem dofnaði yfir framlínunni okkar tóku Breiðhyltingar að hætta sér framar á völlinn. Klaufagangur á miðjunni á 63. mínútu varð til þess að sóknarmenn ÍR sluppu í gegn og skoruðu, 0:1. Liggur nærri að þetta hafi verið önnur sókn þeirra í öllum leiknum.

Hlynur Atli kom inná fyrir Guðmund og reyndist lífga aðeins upp á spilamennskuna. Tíu mínútum fyrir leikslok leysti Helgi Guðjónsson svo Indriða Áka af hólmi. ÍR-ingar voru himinsælir með forystuna og bökkuðu meira en skynsamlegt gat talist. Bjartsýnismenn á pöllunum bentu á að Framarar hafa tvívegis það sem af er sumri ekki hrokkið í gang fyrr en eftir að hafa lent undir – á móti Haukum og Leikni. Enginn var þó tiltakanlega bjartsýnn á slíka endurkomu.

Á 82. mínútu fékk Fram enn eitt af ótal mörgum hornum sínum í leiknum. Hornspyrnan frá Símoni var hreinsuð frá, Alex skaut í áttina að marki en einhvern veginn rataði boltinn á kollinn á Bubalo sem var dauðafrír og skallaði í netið. Króatinn stóri er kannski ekki uppáhald dómaranna í Inkasso-deildinni, en hann hefur nú skorað í hverri einustu umferð og verið okkar jafnbesti maður. Jújú, hann hverfur kannski á löngum stundum, en hverjum er ekki sama svo lengi sem framherjinn skorar alltaf ?

Staðan 1:1 og tíu mínútur eftir. ÍR-ingar voru svekktir en Framarar með byr í seglinn. Næstu mínútur einkenndust hins vegar af óskynsamlegri spilamennsku. Okkar menn tóku of margar rangar ákvarðanir og þótt ÍR-vörnin væri greinilega kúguppgefin, virtist okkur ekkert takast að ógna henni af viti – gestirnir virtust jafnvel líklegir til að refsa til baka.

Þegar vel var liðið á uppbótartímann gerði Ási þriðju og síðustu breytinguna, þar sem Brynjar Kristmundsson kom inná fyrir Alex Frey. Einhverjir áhorfendur hnussuðu, enda vanari því að liðið sem reyndi að halda fengnum hlut gerði slíkar breytingar en þeir sem reyndu að knýja fram sigur…

En skiptingin reyndist borga sig. Dómari leiksins leit á klukkuna og virtist búa sig undir að flauta til leiksloka þegar Bubalo fékk góða sending sem hann afgreiddi áfram inn í teiginn á Helga. ÍR-ingur braut augljóslega á honum og vafalítið hefði víti verið dæmt, en áður en til þess kom hrökk knötturinn til Brynjars sem renndi honum í markið, 2:1 fyrir Fram! ÍR-ingar náðu varla að hefja leik að nýju þegar leiktíminn var úti.

Það er ekkert skemmtilegra en að vinna svona. Við skulum þó ekki gera okkur neinar grillur með að svona spilamennska dugi gegn betri liðum deildarinnar. Við vorum stálheppin í kvöld, en baráttan og úthaldið sem hefur einkennt okkur í sumar er að minnsta kosti enn til staðar. Við unnum, þótt það hafi þurft að fara fjallabaksleiðina til þess. Enginn átti stjörnuleik, en ef velja ætti einhvern einn sem mann leiksins væri það líklega Benedikt Októ.
Næsta stopp: Reyðarfjörður.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!