Fram og Þór frá Akureyri hafa nokkrum sinnum mæst í keppni í næstefstu deild í fótbolta. Sú var til dæmis raunin í sjöundu umferð sumarið 1996. Fyrir leikinn á Valbjarnarvelli voru Framarar með tólf stig en Þórsarar með ellefu í öðru og þriðja sæti. Dagblöðin töluðu því um spennandi toppslag.
Spennandi varð viðureignin í það minnsta ekki. Yfirburðir Fram voru algjörir. Þórsarar voru sundurspilaðir og lokatölur urðu 8:0. Þetta gerðist þrátt fyrir að Framarar lékju tíu hálfan leikinn. Michael Payne, bandarískur strákur sem hafði verið í skóla með Rikka Daða, skoraði sitt fyrsta og eina mark í Frambúningnum og breytti stöðunni í 3:0. Hann fagnaði með heljarstökki og réð sér ekki fyrir kæti. Örskömmu síðar straujaði hann einn Akureyringinn lengst úti við hliðarlínu á miðjum velli og fékk rauða spjaldið.
Það er gaman að rifja upp leikinn á Valbjarnarvelli 1996. Hann vekur upp hlýjar minningar. Slík upprifjun gefur líka fréttaritara Fram-síðunnar færi á að teygja lopann og skila ásættanlegum slagafjölda án þess að þurfa að ræða of mikið um leik kvöldsins.
Þetta var vondur leikur. Mjög vondur. Einkennismerki Framliðsins í sumar hefur verið baráttugleði en hana var því miður hvergi að finna að þessu sinni. Þetta var einn af þessum leikjum þar sem ekkert gekk upp. Sendingar voru misheppnaðar og komu of seint. Varnarmenn okkar stóðu of langt frá andstæðingunum. Föstu leikatriðin skiluðu sáralitlu. Og framherjarnir eyddu meiri orku í pirring en að skapa sér færi. Svona er það stundum í fótbolta – við höfum öll séð þetta ótaloft. Góðu fréttir kvöldsins voru að við töpuðum ekki fimm eða sex núll. Vondu fréttirnar voru að Þórsararnir voru ekki einu sinni sérstaklega góðir.
Liðsuppstillingin var rökrétt. Flestir eru sammála um hvert sé besta byrjunarliðið okkar. Það er helst í fremstu vígiínuþar sem þjálfaranum er vandi á höndum að velja og þar sem dagsformið getur ráðið því hverjum best sé að stilla fram.
Staðan var 0:2 í leikhléi, þar sem stöngin á Frammarkinu nötraði enn eftir þrumuskot gestanna. Þór braut helsta eða raunar eina færið okkar í fyrri hálfleik á bak aftur með broti sem sumir í stúkunni töldu að hefði verðskuldað rautt spjald. Erfitt að segja án þess að hafa séð sjónvarpsupptöku.
Seinni hálfleikur var vart byrjaður þegar staðan var orðin 0:3 og leikurinn í raun búinn. Næstu 35 mínúturnar gerðist lítið annað en leikmenn Fram urðu pirraðri og sönkuðu að sér gulum spjöldum, en Þórsarar lögðust í völlinn öllum stundum og reyndu að tefja.
Síðustu tíu mínúturnar náðu okkar menn aðeins vopnum sínum, enda Þórsliðið dottið ansi aftarlega á völlinn. Högni Madsen skallaði í netið eftir hornspyrnu. Bjartsýnisfólk í hópi áhorfenda –vant mörkum á lokasekúndunum úr liðnum leikjum – lét sig dreyma um að Þórsarar færu á taugum en því var ekki að heilsa. Lokatölur 1:3, sem sannast sagna lætur okkur líta betur út en réttmætt væri. Gleymum þessum ósköpum sem fyrst. Í besta falli munu Fylkismenn vanmeta okkur fyrir vikið.
Stefán Pálsson