fbpx
Fylkir-fram vefur

Þungur róður í Rofabæ

Góðu fréttir kvöldsins eru þær að líkurnar á tveimur skemmtilegum leikjum við KR-inga á næsta ári hafa snaraukist. Vondu fréttirnar eru að það myndi gerast með nokkuð öðrum hætti en við bjuggumst við.

Það var mikið undir á Trópí-vellinum í Árbænum í kvöld (og já – ég veit alveg að hann er ekki við Rofabæ – það stuðlar bara betur). Fylkismenn voru í öðru sæti fyrir leikinn og áttu kost á að komast á toppinn, en við fast á hæla þeim og eygðum færi á að komast í næstefsta sætið. Hér gafst líka möguleiki á að hrista af sér slyðruorðið úr leiknum dauflega gegn Þór á dögunum.

Sú breyting varð á Framvörninni að Haukur Lárusson byrjaði í annarri miðvarðarstöðunni, en þrálát meiðsli hafa sett svip sinn á veru hans í okkar herbúðum. Alex og Guðmundur voru í sókninni en þeir Indriði Áki og Bubalo báðir utan liðs. Héldu margir á pöllunum að króatíski framherjinn væri í leikbanni, en hann mun víst ekki taka það út fyrr en í næsta leik.

Spilamennskan endurspeglaði mikilvægi leiksins og fyrsti hálftíminn einkenndist af harðri stöðubaráttu úti á vellinum þar sem enginn dró af sér í tæklingunum. Fylkismenn voru líklegri og sköpuðu sér nokkur hálffæri og 1-2 mjög góð færi, en samt sem áður virtist leikurinn spilast á þann hátt sem Framarar lögðu upp með: að halda Árbæingum í skefjum og pirra þá.

Síðustu tíu mínútur hálfleiksins tókst Frömurum að koma sér betur inn í leikinn og minnstu mátti muna að við kæmumst yfir á 39. mínútu þegar Benedikt Októ – að mörgu leyti okkar frískasti maður í kvöld – braust upp að endamörkum og átti fasta sending fyrir markið þar sem maður í appelsínugulu sýnileikavesti bjargaði í horn.

Áhorfendur úr röðum Framara voru farnir að velta því fyrir sér hvort kaupa skyldi kaffi í hléinu eða jafnvel gefa Blásteins-hamborgurum Árbæinga tækifæri þegar allt fór í háaloft. Máttlítið skot Fylkismanna hrökk í hönd Hauks í vörninni. Dómarinn flautaði og gerði sig líklegan til að dæma víti, en var um leið litið á línuvörðinn sem hafði ekki tekið eftir neinu og sakleysissvipinn á varnarmönnum Fram. Guðmundur dómari lét sannfærast, sneri við á punktinum og gaf merki um að halda áfram leik.

Fylkismenn urðu foxillir. Skömmuðust í dómaranum og einn reyndi að jafna metin með ruddatæklingu útá velli – ljótt að sjá. Rétt á eftir dundi ógæfan yfir. Varnarmanni Fram mistókst að hreinsa frá það sem virtist sakleysisleg sending innfyrir. Hákon Ingi Jónsson var fljótur að nýta sér það og vippaði glæsilega yfir Hlyn Örn, sem átti að öðru leyti góðan dag í markinu.

Ljóst var að seinni hálfleikur yrði erfiður marki undir gegn andstæðingum sem að flestra mati eru besta lið deildarinnar. Sú varð líka raunin. Fylkismenn mættu mun ákveðnari eftir hléið. Framarar komust lítið áleiðis gegn vörn þeirra en áttu sjálfir oft í vök að verjast. Staðan varð 2:0 á 62. mínútu og úrslitin í raun ráðin. Ef frá er talin ein kröftug sóknarlota á 86. mínútu þar sem sóknarmönnum Fram tókst loksins að finna einhverja glufu á appelsínugula múrnum, virtust heimamenn alltaf líklegri til að bæta við þriðja markinu en við að minnka muninn.

Úrslitin voru sanngjörn miðað við gang leiksins. Fylkir virðist langbesta lið Inkasso-deildarinnar í ár og má mikið vera ef Árbæingar fara ekki upp í haust. Það er hins vegar nóg eftir af mótinu og þrátt fyrir tvo tapleiki í röð höldum við enn þriðja sætinu – a.m.k. til morguns. Næsta verkefni: Grótta.

Stefán Pálsson

 

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Karfa0
There are no products in the cart!
Halda áfram að versla
0