mfl

Medisterpylsa með kartöflumús

Besti matur í heimi er svikni hérinn hans pabba. Galdurinn er að blanda hakkinu í hárréttum hlutföllum við beikonið og eggið – spara svo ekki raspið. Með þessu verður að vera brún sveppasósa, rauðbeður og súrar gúrkur. Gúrkurnar mega ekki gleymast. Dásemd!

En það er ekki alltaf hægt að borða svikinn héra. Stundum verður maður að sætta sig við hversdagslegri mat sem uppfyllir mikilvægustu fæðuflokkana: prótín, kolvetni, salt og bindiefni. Medisterpylsa með kartöflumús er prýðilegt dæmi um slíka fæðu. Ekkert spennandi en skilar tilætluðum árangri. Gróttuleikurinn í kvöld var medisterpylsa með kartöflumús.

Stemningin var skringileg í stúkunni fyrir leik. Allir voru að hugsa um það sama, en fæstir höfðu orð á því – nema þá helst í lágum hljóðum úti í horni. Þetta er ekki búið að vera skemmtilegasta vikan fyrir okkur Framara. Þjálfaraskiptum fylgja alltaf særindi, einkum þegar um er að ræða gamla félagsmenn. Fjölmiðlar hafa smjattað á málinu og stuðningsmenn annarra liða spara ekki skotin. Neikvæð umræða virtist þó ekki skila sér í færri áhorfendum. Það var bærilega mætt okkar megin í það minnsta – sem gæti þó líka skýrst af leikdeginum. Fimmtudagar eru ólíkt skemmtilegri leikdagar en þessir endalausu föstudagsleikir.

Þekkt er að leikmenn liða hressist við fyrst eftir þjálfaraskipti og reyni að hrista af sér slyðruorðið. Þeir áhorfendur sem vonuðust eftir slíku urðu fyrir vonbrigðum með fyrri hálfleikinn, sem var með ólíkindum dauflegur. Gróttuliðið er fjarri því að vera meðal betri liða Inkasso-deildarinnar, en gerir sér vel grein fyrir takmörkunum sínum. Hafa önnur lið fengið að reyna að það getur tekið tíma að brjóta niður varnir Gróttu.

Atli Gunnar Guðmundsson fór í markið í stað Hlyns sem er meiddur. Dino og Haukur voru miðvarðaparið og þeir Simon og Benedikt Októ byrjuðu í bakvörðunum. Sigurpáll og Hlynur voru á miðjunni með Orra og Indriða Áka á köntunum og þá Guðmund og Helga frammi.

Gróttumenn bjuggust greinilega við stórsókn Framara en hún lét bíða eftir sér. Í stað þess að keyra af hörku á vörn gestanna fóru okkar menn sér frekar hægt og gáfu andstæðingunum nægan tíma til að skipuleggja sig. Einu færin sem heitið gátu voru þegar Helgi náði í tvígang að komast upp að endamörkum og prjóna sig í gegnum vörnina, en náði í hvorugt skiptið almennilegu skoti eða sendingu fyrir. Segja má að Helgi hafi verið sá eini í Framliðinu sem sýndi lífsmark fyrir hlé.

Það hafa sést kátari andlit á Laugardalsvelli en í kaffinu í hálfleik. Engum þótti mikið til fótboltans koma, en flestir voru rólegir enda Framarar klárlega betri aðilinn.

Ein breyting var gerð í byrjun seinni hálfleiks, þar sem Alex Freyr kom inn fyrir Benedikt Októ. Alex fór á kantinn og Orri í bakvörðinn. Sú breyting átti eftir að reynast áhrifarík.

Þegar seinni hálfleikur var nýhafinn lenti Sigurpáll í hörkutæklingu við einn Gróttumanninn og allt varð vitlaust á vellinum, með hrindingum og æsingi á báða bóga. Grótta vildi gult spjald og þar með rautt á Sigurpál, en dómarinn gaf Fram aukaspyrnuna. Einhvern veginn virtist þetta atvik verða til að kveikja í okkar mönnum, en á sama hátt slökkva í gestunum.

Fram tók öll völd á vellinum og munaði þar mikið um kraftinn í Alex Frey sem gat vaðið í gegnum Gróttuvörnina að vild. Háar sendingar inn í vítateig Gróttu úr föstum leikatriðum sköpuðu ógn og skelfingu hjá frekar ótraustvekjandi Gróttuvörninni og úr einni slíkri skallaði Dino í fallegum boga yfir markvörðinn og í netið, 1:0 á 52. mínútu.

Næsta kortérið var algjör einstefna og Framarar í raun algjörir klaufar að setja ekki 2-3 mörk í viðbót. Sóknarmenn okkar náðu ítrekað að prjóna sig upp að marki Gróttu, en reyndu yfirleitt einni sending of mikið eða náðu ekki nægum krafti í skotin. Enginn fékk þó betra færi en Helgi sem skapp einn í gegn en beið of lengi og lét verja frá sér á marklínu.

Síðustu tuttugu mínúturnar náðu Gróttumenn aðeins vopnum sínum á sama tíma og Framliðið bakkaði um of. Bitlaus sóknarleikur gestanna skapaði þó lítil vandamál, enda þeir Dino og Haukur báðir í banastuði í hjarta varnarinnar. Það var helst að hornspyrnur Seltirninga næðu blóðþrýstingnum aðeins upp á við.

Jújú, auðvitað má segja að Framliðið ætti með réttu að afgreiða lið á borð við Gróttu á heimavelli með örlítið meiri glæsibrag en við urðum vitni að í kvöld, en eins og skrítna matar-myndlíkingin hér að framan átti að útskýra þá fáum við ekki veislumat á hverju kvöldi. Stigin þrjú eru dýrmæt og eitt og annað sem gladdi augað – einkum þó flott framlag Alex Freys sem var klárlega maður leiksins. Næsta stop: Selfoss.

 

Stefán Pálsson

 

 

 

 

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email