Fáir listamenn hafa betur náð að fanga inntak og eðli kaupstaðarins Selfoss en poppstjarnan Love Guru í epísku dægurlagi sínu 1 – 2 – Selfoss. („Partýkrakkar, FM-hnakkar/allir hér inní húsinu/haldið ykkur frá búsinu/fáið ykkur frekar rúsínu/allir útá gólf!“
Það hefði verið stórkostlegt ef Frömurum hefði tekist að herja út 1:2 útisigur í kvöld og þessi pistil hefði getað heitið „1 – 2 – Selfoss!“ – en eins og áður hefur verið rætt á þessum vettvangi þá eru ekki alltaf jólin. Þessi útgáfa er svo sem pínkulítið sniðug líka.
Annars mátti ekki svo miklu muna að okkur tækist að stela öllum stigunum á Selfossi. Eftir þrautleiðinlegan fyrri hálfleik þar sem fátt bar til tíðinda, tók við æsilegur seinni hálfleikur þar sem bæði lið reyndu að sækja sigur. Niðurstaðan var nokkuð sanngjarnt jafntefli og þótt eitt stig telji ekki mikið á stigatöflunni, hljóta öll lið að geta sætt sig við þann árangur á erfiðum útivelli í Flóanum.
Fréttaritari Framsíðunnar mætti fimm mínútum of seint á völlinn eftir umferðaröngþveiti á Ölfusárbrúnni. Liðsuppstillingin var svipuð og í síðasta leik að því frátöldu að Bubalo sneri aftur í byrjunarliðið eftir leikbann og Alex Freyr byrjaði inná. Helgi og Benedikt Októ hófu því ekki leik, sá síðarnefndi var ekki einu sinni á bekknum og því væntanlega meiddur.
Sem fyrr sagði var fyrri hálfleikurinn dauflegur og hvorugu liði tókst að skapa sér neitt af viti. Selfyssingar komust yfir á tólftu mínútu úr sinni fyrstu sókn og nálega þeirri einu sem eitthvað kvað að. Sóknin var raunar ekkert ýkja merkileg. Sóknarmaður Sunnlendinga átti í höggi við tvo Framara í vörninni, en tókst einhvern veginn að klúðra boltanum í netið, 1:0.
Snemma í fyrri hálfleiknum virtust heimamenn ákveða að reyna að halda bara fengnum hlut og gerðu sitt besta til að drepa niður leikinn, svo sem með því að leggjast í grasið í tíma og ótíma. Frömurum gekk illa að ná valdi á miðjunni og þá sjaldan sem okkur virtist ætla að takast að skapa skyndisóknir voru hvítklæddu sóknarmennirnir of seinir og of fáir fram á völlinn.
Seinni hálfleikurinn byrjaði á sömu nótum. Selfyssingar lágu til baka en áttu ekki í neinum vandræðum með að verjast kýlingum okkar manna fram á völlinn. Þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar af hálfleiknum freistuðu liðsstjórar Fram þess að hrista upp í leiknum. Alex Freyr kom inná fyrir Hlyn Atla og strax í kjölfarið virtist sóknarþunginn aðeins fara vaxandi.
Það verður þó að viðurkennast að jöfnunarmarkið á 58. mínútu kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Indriði Áki vann boltann eftir baráttu við Selfyssin útá miðjum velli, var fljótur að hugsa og átti frábæra stungusendingu inn fyrir Selfossvörnina á Orra sem kom á fleygiferð og öskraði á boltann af öllum lífs og sálarkröftum. Orrin náði boltanum og lét vaða rétt fyrir utan vítateigshornið, óverjandi í fjærhornið. Eitt af mörkum sumarsins hjá Fram komið!
Síðasti hálftíminn var gríðarlega fjörugur. Framarar reyndu að láta kné fylgja kviði en Selfyssingar vöknuðu einnig til lífsins. Á 65. mínútu fékk Haukur spark í höfuðið þar sem hann var að skalla frá marki. Hann vankaðist greinilega við höggið og þurfti að yfirgefa völlinn fimm mínútum síðar. Það var mikil synd því miðvarðaparið hafði staðið sig frábærlega fram að þessu. (Dino líklega maður leiksins að öðrum ólöstuðum.)
Allt sauð uppúr þegar rúmt kortér var til leiksloka. Alex Freyr hafði skömmu áður fengið fáránlegt gult spjald (hafði unnið öxl-í-öxl einvígi við einn Selfyssinginn) en gerðist svo brotlegur og mátti teljast ljónheppinn að fá ekki seinna gula. Dómarinn hefur væntanlega vitað upp á sig sökina úr fyrra atvikinu. Eftir mikla reikistefnu slapp Alex með tiltal, en heimamenn efldust mjög við atvikið og sóttu stíft að okkar marki fyrst á eftir.
Tvisvar mátti engu muna að Selfyssingum tækist að skora. Á 80. mínútu áttu þeir skot í stöngina þar sem Atli Gunnar var fljótur að hugsa og náði að grípa frákastið. Mínútu síðar komst Selfyssingur einn í gegn, en Atli átti stórkostlega markvörslu og bjargaði í raun stiginu.
Síðustu mínúturnar skiptust bæði lið á að sækja og engir voru sérstaklega kátir í leikslok. Á leiðinni heim léttist þó lund Framara sem minntu sig á að Selfoss er erfiður staður heim að sækja. Endum á að fallegu tóndæmi: https://www.youtube.com/watch?v=8upRl-MP3H0
Stefán Pálsson