fbpx
Guðmundur Jónsson vefur

Guðmundur Jónsson heiðursfélagi Fram er látinn

Guðmundur Jónsson, heiðursfélagi Knattspyrnufélagsins Fram, lést föstudaginn 23. júní 2017, 87 ára. Mummi, eins og Guðmundur var kallaður, fæddist 20. júní 1930, var fæddur og uppalinn Framari – var skrifaður inn í Fram 1932, tveggja ára, af föður sínum Jóni Guðjónssyni, sem starfaði lengi fyrir Fram og varð heiðursfélagi.

Guðmundur fór til Þýskalands í byrjun árs 1951 og var um tíma í knattspyrnuskóla þýska knattspyrnusambandsins í Koblenz. Hann var leikmaður meistaraflokks Fram þar til hann lagði skóna á hilluna vegna meiðsla í baki 1954.

Mummi, sem markaði djúp spor í sögu Fram, varð leiðbeinandi og leiðtogi yngri flokka félagsins 1956, 25 ára. Undir stjórn hans urðu yngri flokkar Fram nær ósigrandi í mörg ár.

Samhliða allri þjálfun sá Mummi um húsvörslu í Framheimilinu við Skipholt og við hlið hans stóð Guðrún Jóhannesdóttur, eiginkona hans, sem var hæstráðandi innan veggja heimilisins.

Mummi byrjaði að þjálfa meistaraflokk Fram 1962 og varð flokkurinn Íslandsmeistari sama ár. Mummi tók sér frí frá þjálfun meistaraflokks 1964, en kom aftur 1970 og gerði Fram strax að bikarmeisturum og síðan að Íslandsmeisturum 1972.

Guðmundur var gerður heiðursfélagi Knattspyrnufélagsins Fram í 100 ára afmælishátíð félagsins 2008. Áður hafði Guðmundur verið gerður að heiðursfélaga/Heiðurskross KSÍ 2007.

Fram þakkar Guðmundi fyrir vináttu og mikil og góð störf fyrir félagið.

Eiginkonu hans Guðrúnu Jóhannesdóttur og fjölskyldu eru sendar innilegar samúðarkveðjur.

Knattspyrnufélagið FRAM

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!