Síðustu dagar hafa verið tíðindamiklir hjá okkur Frömurum. Á dögunum féll frá Guðmundur Jónsson, ástsæll þjálfari meistaraflokks og fjölmargra yngri flokka Fram. Upplýst var um samkomulag félagsins og Reykjavíkurborgar um uppbyggingu á glæsilegri félagsaðstöðu í Úlfarsárdal. Þess verður ekki langt að bíða að við þurfum bara að mæta á Laugardalsvöllinn í bikarúrslitaleiki. Og um helgina var nýr þjálfari, Portúgalinn Pedro Hipólito, kynntur til sögunnar. Fréttaritari Fram-vefsins situr sveittur nú við og semur hnyttna orðaleiki tengda Portúgal til að nota í komandi pistlum. Þið eigið gott í vændum.
Með nýjan þjálfara við stjórnvölinn biðu margir spenntir eftir að heyra byrjunarliðið og þar voru strax tíðindi. Í stað þess að stilla upp 4-4-2 líkt og verið hefur, var leikaðferðin 3-5-2 (eða 5-3-2, eftir því hvort maður er týpan sem finnst glasið vera hálffullt frekar en hálftómt). Sigurður Þráinn, Dino og Arnór Daði voru í öftustu víglínu, en Haukur fór á varamannabekkinn – ef til vill ennþá laskaður eftir að hafa fengið bylmingsspark í höfuðið á Selfossi. Orri og Simon léku á köntunum, Sigurpáll aftastur á miðjunni en Indriði og Hlynur fyrir framan hann. Bubalo og Guðmundur fremstir.
Báðir lesendur þessara pistla hafa hrósað skemmtilegu líkingamáli þar sem fótbolti er borinn saman við mataruppskriftir. Hér er annað dæmi: Vissuð þið að í Portúgal er saltfiskur, bakkalá, hátíðarmatur sem snæddur er á jólunum. Galdurinn á bak við góðan saltfisk er að muna að útvatna hann nægilega. Í þeim skilningi var fyrri hálfleikurinn í kvöld mun betri saltfiskur en fótboltaleikur.
Völlurinn var háll, það rigndi talsvert og bærði nokkuð vind. Leikurinn bar þess vel merki. Keflvíkingingar lágu fremur til baka og Framarar voru örlítið líklegri til að skora fyrir hlé, sárafá alvöru færi litu þó dagsins ljós. Hornspyrnur Simons sköpuðu smáhættu, þó ekki væri nema útaf blautum vellinum. Þrátt fyrr að vera ágætlega fjölmennir á miðjunni fór lítið fyrir stuttri spilamennsku hjá okkur, heldur voru í sífelldu reyndar of langar og erfiðar sendingar. Ekki bætti úr skák að framherjaparið virtist engan veginn ná almennilega saman. Líklega henta þeir Bubalo og Guðmundur hvor öðrum ekkert sérstaklega vel.
Kaffið í heldrimannastúkunni var óvenjubragðvont, en Oreo-kexkökurnar sérdeilis smekklega framreiddar í hléi (svo ég gerist Henry Birgir minnar kynslóðar í íþróttaskrifum). Almannarómur var á þá leið að leikurinn væri með allra daufasta móti og hlyti að skána í seinni hálfleik.
Það reyndist ekki rétt.
Þegar seinni hálfleikur var nýhafinn fengu Keflvíkingar innkast og köstuðu að því er virtist hættulítið inn í teiginn. Þar lak boltinn milli manna og tveimur varnarmönnum mistókst að koma honum frá áður en einn Reykjanesbæingurinn komst á auðan sjó og skoraði. Dapurlegt einbeitingarleysi og reyndist dýrkeypt.
Fljótlega eftir þetta ákvað Portúgalinn með kátlega nafnið að hann hefði séð nóg og gerði tvöfalda skiptingu. Indriði og Guðmundur fóru af velli og inná komu Alex Freyr og Axel Freyr. Það er nánast fantaskapur að hafa tvo nánast alnafna í sama liðinu fyrir okkur gömlu mennina sem eigum erfitt með að muna nöfn. Sjálfur er ég enn að jafna mig á því þegar við vorum með bæði Helga Björgvinsson og Helga Bjarnason í liðinu! Þeir hálf-nafnarnir áttu þó þokkalega innkomu, einkum Axel sem barðist vel þennan rúma hálftíma sem eftir lifði leiks.
Ekki mátti miklu muna að Bubalo tækist að jafna leikinn þegar um halftime var eftir, þegar hann var nærri búinn að nikka boltanum með kollinum í bláhornið. Króatíski markahrókurinn okkar hefur ekki alveg verið í essinu sínu upp á síðkastið og í kvöld fór óþarflega mikið af orku hans í að kvarta yfir dómgæslu og barma sér yfir vítaspyrnunni sem hann taldi sig hafa verið rændan um.
Fram neyddist til að nota þriðju og síðustu skiptinguna þegar Orri tognaði á læri og Helgi kom inná í staðinn. Vonandi ekki alvarleg meiðsli hjá Orra, sem hefur verið með ólíkindum óheppinn á sjúkrasviðinu.
Síðustu tíu mínúturnar fóru að miklu leyti fram á vallarhelmingi Keflvíkinga sem voru klókir og einbeittir í að halda fengnum hlut. Fram fékk allnokkur hálffæri, stundum með óvæntum leikmönnum. Þannig lauk einni sókninni á að Dino af öllum mönnum stóð einn í fremstu víglínu og náði fríum skalla sem markvörður Keflvíkinga blakaði yfir. Minnstu mátti svo muna að Simon skoraði beint úr hornspyrnunni sem dæmd var kjölfarið.
Keflvíkingar fengu svo sem sín færi undir lokin og á einhvern óskiljanlegan hátt tókst framherja þeirra að vippa yfir Atla markvörð… og framhjá markinu. Í 1-2 skipti var undirritaður farinn að smíða fyrirsögnina „Flautumark“ í huganum, til að mynda þegar varnarmaður Keflavíkur náði að henda sér fyrir skalla frá Bubalo á síðustu andartökunum. En svo fór sem fór og þess vegna sitjum við uppi með þennan slappa titil sem raun ber vitni.
Ekki verður fjallað um þennan leik án þess að geta um einstaklega ótaktvissa trommuleikara í stuðningssveit Keflavíkur. Það er nokkurt afrek að vera falskur á trommu! Skellur fyrir bæinn sem færði okkur Engilbert Jensen. Þetta stendur þó klárlega til bóta í næsta leik þar sem andstæðingarnir eru Þróttur, sem einvörðungu eru studdir af atvinnutónlistarmönnum og leikhúsfólki.
Stefán Pálsson