fbpx
Þr - FRAM vefur

Vantar meiri bassa

Byrjum á játningu: það fer alltaf um mig hrollur þegar ég stíg inn á gervigrasvöllinn í Laugardal. Ekki vegna þess að andstæðingarnir veki yfirleitt sérstaka skelfingu. Það er varla hægt að hugsa sér vinalegri og sakleysislegri mótherja í fótbolta en Þróttara. Engum er illa við Þrótt… eða nánast engum. Mér skilst að smá rígur sé fyrir hendi milli Víkinga og Þróttara. Það eru þó krúttlegar erjur – nánast á pari við það ef Belgía og Sviss færu í stríð.

Nei, kuldahrollurinn sem ég fæ á þessum velli hefur minnst með núverandi íbúa hans að gera. Þetta er uppsöfnuð áfallastreituröskun eftir barnæsku sem í minningunni einkenndist af ísjökulköldum Reykjavíkurmótsleikjum á gervigrasinu, að viðstöddum tíu manns í kraftgöllum og kvefuðum hundi. Aldrei á ævinni hefur mér orðið jafn kalt og vorið 1988 þegar Fram og Ármann mættust í frosti og fjúki. Þetta var lokaleikurinn í riðlakeppninni og okkur dugði sigur til að hreppa toppsætið. Fram var besta lið á Íslandi og Ármenningar í fjórðu deild. Það var kalt. Herregud hvað það var kalt. Og ekki fékk maður neina markasúpu til að ylja sér. Ónei, 1:0 iðnaðarsigur varð niðurstaðan.
Spoiler alert: við unnum ekki 1:0 í kvöld.

Portúgalski þjálfarinn með sniðuga nafnið hélt tryggð við sama leikkerfi og síðast, með Sigurð, Dino og Arnór í vörninni, Sigurpál, Hlyn og Indriða á miðjunni en Guðmund og Bubalo frammi. Simon og Brynjar voru á sitthvorum kantinum. Sá síðarnefndi kom nýr inn í liðið eftir að Orri tognaði í síðasta leik.

Bæði lið byrjuðu varfærnislega og fyrsta korterið dró lítið til tíðinda. Okkar menn virtust ákveðnir í að verjast og Þróttarar fóru sér hægt í sókninni. Fyrsta markið kom því nánast upp úr engu og það gerðu Framarar. Indriði Áki virtist vera að missa boltann á miðjum vallarhelmingi Þróttara, en náði honum glæsilega undir sig, átti hraða sending á Brynjar sem lyfti knettinum beint á kollinn á Guðmundi Magnússyni sem skallaði vel í netið. Þróttarar voru slegnir og tveimur mínútum síðar mátti ekki svo miklu muna að Guðmundur bætti við öðru marki með langsóttri skallatilraun.

Þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður var eins og Þróttarar vöknuðu til lífsins. Atli Gunnar varði stórkostlega eftir að einn Þróttarinn komst einn í gegn eftir feilsendingu frá Dino og rétt í kjölfarið bjargaði hann okkur aftur eftir skot af stuttu færi. Atli var klárlega besti maður okkar í kvöld, þótt það sé aldrei gaman að þurfa að hrósa markverðinum mest allra í tapleikjum.

Þróttarar skoruðu á 36. mínútu, en markið var dæmt af – væntanlega vegna rangstöðu frekar en fyrir brot á Arnóri sem þurfti að yfirgefa völlinn til að fá aðhlynningu. Manni fleiri og með Framvörnina óskipulagða tókst Þrótti að jafna eftir stungusendingu fyrir markið þar sem einn rauð- og hvítklæddur leikmaðurinn (eða rauðklæddur, eftir því hvort horft er framan á þessa búninga eða aftan – þetta fer afleitlega í ocd-ið mitt) var einn á auðum sjó og skoraði án vandræða. Þetta var ekki í síðasta sinn í leiknum sem þessi staða kom upp og mann grunar að að leikmenn séu ekki alveg búnir að venjast breyttu leikkerfi.

Enn varði Atli vel í markinu og Sigurpáll hreinsaði á marklínu áður en flautað var til hálfleiks, 1:1.

Eftir hlé virtust heimamenn alltaf líklegri og enginn varð sérstaklega hissa þegar þeir náðu forystunni á 57. mínútu. Áður en yfir lauk notuðu Framarar allar sínar skiptingar: Högna, Axel Frey og Helga. Þær höfðu þó lítil áhrif á leikinn. Framliðið virtist einfaldlega ekki nógu öflugt á miðjusvæðinu. Sóknaruppbyggingin var of hæg, sendingarnar of seinar og andstæðingarnir fengu of mikið pláss þegar kom að því að verjast. Það vantaði þéttleika. Það vantaði meiri bassa.

Helsta leikaðferðin virtist felast í löngum sendingum sem sóknarmenn gátu lítið gert við. Reyndar segir það sína sögu að eina sóknin sem nokkuð kvað af var þegar varnarparið Sigurður og Arnór komust í prýðilegt hálffæri. Þróttarar bökkuðu undir blálokin, en ekki nógu mikið til að okkur tækist að ógna af neinu viti. Úrslitin fyrirsjáanlegt 2:1 tap gegn fínu Þróttarliði.

Af áhorfendabekkjunum var það helst að frétta að hvassyrt trumbusláttargagnrýni undirritaðs eftir síðasta leik hafði þau áhrif að Þróttarar létu öll áslátturhljóðfæri eiga sig í kvöld. Er ég Jónas Sen minnar kynslóðar? – Jæja, glíma verður við HK á þjóðarleikvangnum.

Stefán Pálsson

 

 

 

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!