fbpx
Guðmundur Jónsson vefur

Guðmundur Jónsson – kveðja frá Knattspyrnufélaginu Fram

 

Guðmundur Jónsson F: 20. júní 1930. D: 23. júní 2017.

* Útför Guðmundar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, föstudag 14. júlí 2017, kl. 15.

Við fráfall Guðmundar Jónssonar, heiðursfélaga Knattspyrnufélagsins Fram, sjá Framarar á eftir félagsmanni sem vann þrekvirki fyrir félagið. Mummi, eins og Guðmundur var kallaður, var mjög öflugur og litríkur félagsmaður sem setti afar sterkan svip á félagslíf Fram. Guðmundur, sem var gerður heiðursfélagi Fram á 100 ára afmælisárinu 2008, lagði til ófá handtökin til að efla félagið. Hann markaði afgerandi spor í sögu félagsins sem þjálfari og æskulýðsleiðtogi. Mummi ól ekki aðeins upp knattspyrnumenn, heldur einnig framtíðar félags- og stjórnarmenn sem áttu eftir og eru að vinna mikið starf fyrir Fram. Þá komu margir snjallir þjálfarar úr „skóla“ Guðmundar, eins og landsliðsþjálfararnir Jóhannes Atlason og Ásgeir Elíasson, sem áttu eftir að verða virtustu þjálfarar landsins – héldu merki Mumma á lofti með því að láta lið sín leika léttleikandi og skemmtilega knattspyrnu, sem gladdi augu knattspyrnuunnenda.

Guðmundur var skrifaður inn í Fram tveggja ára, 1932, af föður sínum, Jóni Guðjónssyni, sem einnig var heiðursfélagi Fram. Jón starfaði í marga áratugi í þágu félagsins og Knattspyrnuráðs Reykjavíkur. Mummi hóf að leika með Framliðinu 18 ára 1949, setti þrennu í leik gegn ÍA, 5:2, og varð markahæsti leikmaður Íslandsmótsins ásamt Ólafi Hannessyni, KR, með fjögur mörk. Þegar Guðmundur lagði skóna á hilluna 1954, 24 ára, vegna meiðsla í baki, hófst nýtt knattspyrnulíf hjá Mumma og nýr glæsilegur kafli í sögu Fram.

Guðmundur varð virtasti þjálfari íslenskrar knattspyrnusögu. Guðmundur vann ótrúlegt starf hjá Fram þegar hann var yfirþjálfari allra yngri flokka, sem urðu afar sigursælir og nær ósigrandi ár eftir ár. Svo mikið aðdráttarafl hafði Mummi að Fram tefldi fram a,b,c- og d-liðum í yngstu flokkunum, sem önnur félög gátu ekki. Það var alltaf líf og fjör í Skipholti, þar sem Fram hafði aðeins einn malarvöll til umráða á afar þröngu svæði. Mörgum þótti heiður að fá leiðsögn hjá Mumma, þó svo að þeir hafi verið í „ruslinu“ fyrir aftan mark!

Mummi varð leiðbeinandi og leiðtogi yngri flokka Fram 1956, 25 ára. Hann var ekki aðeins á ferðinni á sumrin með strákana sína, heldur einnig á veturnar þegar reglulega voru haldin skemmtikvöld í Framheimilinu, skák- og spilakvöld, bingókvöld og sýndar voru knattspyrnukvikmyndir frá mótum og leikjum úti í hinum stóra knattspyrnuheimi. Myndin frá HM í Svíþjóð 1958, þar sem Pele og leikmenn Brasilíu léku listir sínar, var alltaf vinsæl. Drengir hrópuðu upp yfir sig af gleði og ánægju þegar Pele fór á ferðina með knöttinn – eins og þeir gerðu þegar þeir horfðu á Roy Rogers á Trigger, á harðaspretti í Austurbæjarbíói og Gamla bíói! og Tarzan apabróður sveifla sér í trjánum í Stjörnubíói! Það skákaði engin þessum hetjum fyrr en Bítlarnir fóru að leika við hvern sinn fingur í Tónabíói við hliðina á Framsvæðinu við Skipholt, en þangað lumuðu margir Framstrákar sér inn eftir æfingar, eftir leikhlé – þegar laus sæti voru í salnum. Ég man ekki hvað Villi sá myndina „A Hard Day’s Night“ oft eftir leikhlé – það var nokkuð oft!

Þess má geta að margir stoltir strákar gengu út frá bingókvöldum með gifsskjöld með merki Fram, sem var settur upp á vegg og hafa margir þeirra fylgt sínum manni alla tíð! Ég horfi á minn skjöld þegar ég skrifa þessar línur og fyllist stolti. Já, Guðmundur Jónssson var; FRAM!

Mummi vann vel með strákunum sínum, einkunn var gefin eftir alla leiki, frá 1-5, og var mikil spenna í lofti þegar útkoman var tilkynnt í brekkunni fyrir aftan Framheimilið og Mummi sagði hvað hver og einn leikmaður hafði gert vel í leiknum – og hvað mætti betur fara.

Samhliða allri þjálfun sá Mummi um húsvörslu í Framheimilinu og við hlið hans stóð Guðrún eiginkona hans, sem var hæstráðandi innan veggja heimilisins. Hún sá meðal annars um geymslu á ýmsum munum fyrir þá sem voru við æfingar eða í leikjum, og um sælgætissöluna.  Guðmundur stundaði nám við knattspyrnuskólann í Koblenz í Þýskalandi í byrjun árs 1951 og kom heim með margar nýjar hugmyndir, sem hann nýtti sér við þjálfun yngri flokka og síðan meistaraflokks. Hann varð fyrstur þjálfara á Íslandi til að starfa eins og knattspyrnustjóri á Englandi – hafði yfirumsjón með öllum þáttum knattspyrnunnar.

Mummi byrjaði að þjálfa meistaraflokk Fram 1962 og hélt hann vel utan um leikmannahóp sinn – fann út hvaða staða á vellinum hentaði hverjum best og var óhræddur að færa menn til. Mönnum þótti að Mummi tefldi djarft þegar hann færði hinn vel spilandi Guðjón Jónsson af miðjunni, þar sem hann hafði leikið með landsliðinu, aftur í bakvörð. Guðmundur gerði það vegna þess að hann vildi láta lið sitt byrja að leika knettinum fram frá öftustu línu – þoldi ekki „háloftaspyrnur“ varnarmanna. Mummi taldi Guðjón rétta manninn til að stjórna spilinu frá aftasta manni og þá kom fram gott auga Guðmundar á knattspyrnunni og hvernig best væri að nýta styrk leikmanna sinna. Liðin undir stjórn Guðmundar voru alltaf mjög teknísk og vel spilandi.

Langþráður Íslandsmeistaratitill vannst strax! Mummi gaf þá mörgum af „strákunum sínum“ – leiknum, fljótum og skotföstum – tækifæri að spreyta sig við hliðina á gömlum refum.

Guðmundur tók sér frí frá þjálfun meistaraflokks 1964. Hann tók aftur við meistaraflokki 1970 og gerði Fram strax að bikarmeisturum og síðan að Íslandsmeisturum 1972.

Mummi hafði góð tök á að fá það bestur út úr leikmönnum sínum með nokkrum hnitmiðuðum setningum um leið og hann horfði djúpt í augu þeirra, þannig að þeir fengu trú á sjálfum sér – að þeir væru bestu knattspyrnumenn í heimi! Hann kallaði menn hiklaust á séræfingar ef honum fannst ástæða til.

Guðmundur var með blátt blóð í æðum. Þegar Guðmundur fór til Englands til að kynna sér þjálfun, gat hann ekki hugsað sér að fara til annars félags en Chelsea, sem klæddi sína menn bláu – frá toppi til táar! Það kunni Mummi svo sannarlega að meta. Hann var mikill aðdáandi knattspyrnustjórans Dave Sexton, sem hann kynntist á ferðum sínum til Chelsea í London, og hann hreifst einnig af José Mourinho.

Guðmundur, sem var þjálfari unglingalandsliðsins 1966 og 1967, var gerður að heiðursfélaga KSÍ og sæmdur Heiðurskrossi KSÍ 2007.

Mummi var alltaf með hugann hjá Fram – tilbúinn til að leggja sitt að mörkum til að lífið gengi sinn vana gang. Það vakti mikla athygli þegar Halldór B. Jónsson og félagar í knattspyrnudeildinni kölluðu á krafta Guðmundar er hann var 55 ára 1985, og báðu hann að þjálfa 2. flokk félagsins. Guðmundur svaraði að sjálfsögðu kallinu og mætti til leiks yfirvegaður, með sama áhugann og kraftinn – og taldi kjark í strákana. Uppskeran var eins og til var sáð, flokkur hans varð bæði Íslands- og bikarmeistari, tapaði ekki leik um sumarið!

Sem tvöfaldur meistari hætti Guðmundur þjálfarastörfum og var það við hæfi að hans síðasta meistaraverk hjá Fram var með yngri flokk, með leikmenn sem Ásgeir Elíasson tók við frá lærimeistara sínum.

Framarar kveðja og minnast Guðmundar með þakklæti fyrir ómetanleg störf í þágu félagsins. Eiginkonu hans Guðrúnu Jóhannesdóttur og fölskyldu eru sendar hugheilar samúðarkveðjur.

Sigmundur Ó. Steinarsson

AFREKSSKRÁ MUMMA

 1. Var leikmaður meistaraflokks Fram 1949-1954.
  * Skoraði fyrsta mark Íslandsmótsins tvisvar, 1951 og 1953.
  * Varð markakóngur 1. deildar 1949 ásamt Ólafi Hannessyni, KR. Báðir skorðu 4 mörk í fjórum leikjum. Mummi setti þrennu í leik gegn ÍA, 5:2.
 1. Þjálfaði alla yngri flokka Fram 1956-1962. Alfreð Þorsteinsson aðstoðaði Guðmund við þjálfun 5. flokks 1962.
 2. Þjálfaði meistaraflokk 1962, 1963 og 1964.
 3. Þjálfaði meistaraflokk 1970, 1971, 1972 og 1973.
 4. Þjálfaði meistaraflokk 1975 og 1976 ásamt Jóhannesi Atlasyni.
 5. Þjálfaði meistaraflokk 1978.
 6. Þjálfaði 2. flokk 1985.
 7. Þjálfaði unglingalandslið Íslands (U19) 1966 og 1967.

Árangur meistaraflokks undir stjórn Guðmundar:

Íslandsmeistari: 1962, 1972.
Bikarmeistari: 1970, 1973.
Meistarakeppni KSÍ: 1971.
Reykjavíkurmeistari: 1964, 1970, 1971, 1972, 1973.
Íslandsmeistari, innanhúss: 1975.
Reykjavíkurmeistari, innanhúss: 1975, 1978.
Evrópuleikir (6): Hibernians, Möltu 1971, Basel, Sviss 1973, Slovan Bratislava, Tékkóslóvakíu 1976.

Myndir frá tíma Guðmundar með FRAM er hægt að sjá  hér http://frammyndir.123.is/photoalbums/283363/

 

 

 

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!