Allt kaffi sem drukkið er á heimili fréttaritara Framsíðunnar er lagað með pressukönnu. Pressukönnur eru prýðisgóð leið til kaffilöguna, svo fremi að maður sleppi síðasta sopanum úr bollanum. Stundum vill þessi gullna regla gleymast í græðgi og fljótfærni og munnurinn fyllist af kaffikorgi, sem spillir annars ágætri kaffiupplifun. Leikurinn í dag var einn af þessum kaffibollum.
Það virðist ætla að verða bið á að portúgalski þjálfarinn okkar landi fyrsta sigrinum. Talsverðar breytingar voru þó gerðar á leikmannahópnum frá síðasta leik, ekki hvað síst á miðjunni sem stóð sig engan veginn nógu vel á móti Þrótti. Sigurpáll og Hlynur Atli fóru á bekkinn, en Högni og Axel Freyr komu í staðinn inn í byrjunarliðið. Hlynur Örn tók við markmannshönskunum af Atla Gunnari – sem þó var einna bestur okkar manna síðast.
Uppstillingin var því fyrirsjáanleg: Sigurður, Dino og Arnór í vörninni, Brynjar og Simon á köntunum, Högni, Axel Freyr og Indriði á miðjunni og Guðmundur og Bubalo frammi. Hvorki Alex né Haukur voru á bekknum og eru þá væntanlega komnir á býsna langan meiðslalista með Orra og Benedikt Októ.
Fyrsta dauðafærið leit dagsins ljós á 7. mínútu þegar einn HK-maðurinn komst aleinn inn fyrir vörnina, að því er virtist kolrangstæður en Hlynur varði vel. Þrátt fyrir þetta virtust Framarar ívið sterkari og Bubalo komst í dauðafæri eftir tæpt kortér en var aðeins of svifaseinn. Strax í næstu sókn dró til tíðinda. Kópavogsbúar sóttu og Arnór Daði renndi sér í glæsilega tæklingu og vann boltann í vítateignum. Áhorfendur klöppuðu fyrir góðum varnarleik – uns þeir áttuðu sig á því að dómarinn benti á vítapunktinn. Kolrangur dómur en HK komið með forystu.
Svekkelsi yfir vítaspyrnudómnum og nokkrar aðrar rangar eða vafasamar ákvarðanir dómarans slógu leikmenn Fram út af laginu, botninn datt úr spilamennskunni og HK tók völdin á miðjunni. Á 35. mínútu var þjálfaranum nóg boðið og gerði breytingu á vörninni. Sigurður fór út en Sigurpáll kom inná.
Á sömu mínútu og skiptingin fór fram, gerði úrhellisdembu, sem átti eftir að reynast afdrifarík. Framarar, sem lítið höfðu gert af viti framávið mínúturnar á undan fengu aukaspyrnu á vítateigslínu á 39. mínútu. Nær allir HK-mennirnir stilltu sér upp í varnarvegg. Simond Smidt lét vaða með föstu og lágu skoti sem smaug undir vegginn. Skotið fór í horn markvarðarins sem henti sér fyrir knöttinn, en náði einhvern veginn að klúðra honum undir sig og í netið. Einhverjir myndu jafnvel kalla þetta sjálfsmark, þótt deila megi um hvort eðlilegra sé að skrá markið á Simon eða bleytuna á vellinum.
Viðurkennast verður að fram að markinu virtumst við aldrei líklegir til að skora, en komumst mun meira inn í leikinn eftir að jafnt var orðið. Í seinni hálfleik virtust Framarar koma mun ákveðnari til leiks og stemningin í stúkunni var á þá leið að þrjú stig ættu að koma í hús. Skömmu eftir að flautað var aftur til leiks náði Simon – sem var einna bestur okkar manna í dag – góðri rispu upp kantinn, sendi fyrir en Guðmundur var óheppinn að ná ekki að skora.
Þessi ágæta byrjun reyndist svikalogn. Nokkrum mínútum síðar misstu Framarar boltann í vörninni á hættulegum stað, þar sem okkar gamli liðsmaður Ásgeir Marteinsson, virtist augljóslega stíga aftan á Högna Madsen sem féll við. Dómarinn sá ekkert athugavert, en Ásgeir geystist fram og skoraði með góðu en þó ekki tiltakanlega föstu langskoti, 1:2.
Svartsýnismenn í röðum áhorfenda seildust í símann og fóru að slá upp stigatöflunni í deildinni með tilliti til fallbaráttu. Leikmenn voru þó blessunarlega ekki á því að leggja árar í bát. HK-menn bökkuðu en Framarar sóttu, en þó aldrei nægilega hratt eða á nógu mörgum mönnum.
Á 57. mínútu átti Brynjar, sem er að takast vel að spila sig inn í liðið, góða sending inn í teiginn á Guðmund Magnússon sem jafnaði metin af miklu harðfylgi, 2:2.
Eftir jöfnunarmarkið opnaðist leikurinn aftur. Bæði lið reyndu að sækja. Framarar virtust flinkari, en HK hafði ákefðina. Strax eftir markið kom Hlynur Atli inn á fyrir Axel Frey og nokkrum mínútum síðar kom Helgi Guðjóns inn fyrir Indriða. Helgi var duglegur að skapa sér færi eftir að inná var komið, en hefði mátt gera miklu betur á 69. mínútu þegar hann sópaði knettinum yfir úr upplögðu marktækifæri.
Framarar fengu nokkur hálffæri og áhorfendur urðu jafnt og þétt pirraðri yfir að sigurmarkið virtist ekki ætla að líta dagsins ljós. Það kom reyndar sigurmark – bara vitlausu megin.
Þegar tvær mínútur voru liðnar af uppbótartíma gerði Dino kjánaleg mistök í vörninni, þar sem hann var að gaufa með boltann, leyfði HK-manni að ná honum af sér og 2:3 tap var staðreynd. Þeir eru stórhættulegir þessir síðustu kaffisopar, tóm drulla og viðbjóður.
Pollýönur þessa heims geta í það minnsta huggað sig við að kvennaliðið okkar stal jafntefli á Húsavík með tveimur mörkum í uppbótartíma. Húsvíkingar ganga ekki hlæjandi til sængur í nótt. Það má ylja sér við það. Næsti leikur er gegn Haukum og sá þarnæsti gegn Leikni. Óljóst er hver mun skrifa um þær viðureignir á þessum vettvangi, því fréttaritari Framsíðunnar er á leiðinni til Hollands eins og fínn maður. Einhver er nú innkoman!
Stefán Pálsson