fbpx
Fylkir-fram vefur

Bræðrabylta í Breiðholti

Þegar kemur að knattspyrnu á Íþróttafélag Reykjavíkur sér meiri og merkilegri sögu en flestir gera sér grein fyrir. Leiða má að því líkum að fyrstu árin eftir stofnun sína hafi KR, þá Fótboltafélag Reykjavíkur, haldist á lífi sem óformleg deild innan ÍR. Síðar kom það í hlut félagsins að láta þýða og gefa út fyrstu knattspyrnureglurnar á íslensku – án þess þó að ÍR-ingar héldu út eigin knattspyrnuflokki.

Það var ekki fyrr en í byrjun fimmta áratugarins sem ÍR gerði fyrstu tilraunina til að stofna knattspyrnudeild. Skipulagðar voru æfingar og meistaraflokkslið sent til keppni á Íslandsmóti, sem var þó í raun brot á reglum sem gerðu ráð fyrir að einungis lið sem unnið höfðu sigur í keppni 1. flokks mættu skrá sig til leiks. Ofmetnaðurinn reyndist dýrkeyptur. Í fyrsta leik töpuðu ÍR-ingar fyrir Fram með sex mörkum gegn engu, drógu sig í kjölfarið úr mótinu og máttu sæta hörðum refsingum fyrir vikið. Áratugir liðu áður en þráðurinn var tekinn upp að nýju.

Ekki hafa Fram og ÍR haft mikið hvort af öðru að segja á þeim tíma sem liðinn er. Þó hafa þau einu sinni áður verið í sömu deild. Það var sumarið 1998 þegar ÍR keppti í fyrsta og eina skiptið í efstu deild. Um þær mundir voru Framarar sérfræðingar í að bjarga sér naumlega frá falli í síðustu eða næstsíðustu umferð. Og það var einmitt 0:0 jafntefli gegn ÍR í taugatrekkjandi leik í Laugardalnum í 17. umferð sem gulltryggði sætið okkar.

Líkt og fyrir tveimur áratugum, munu Framarar ljúka mótinu með fjögur stig úr viðureignunum gegn ÍR. Fyrri leiknum lauk með 2:1 sigri eftir flautumark frá Bubalo. Litlu mátti muna að svipað yrði upp á teningnum í kvöld en að lokum máttu liðin sættast á skiptan hlut. Úrslit sem verður að telja sanngjörn.

Eftir að hafa stillt upp með leikkerfinu 4-4-2 í síðasta leik neyddust stjórnendur Framliðsins til að gera breytingar, enda þeir Högni og Sigurpáll báðir í leikbanni. Reyndar gátu Framarar á áhorfendapöllunum stytt sér stundir við að þrefa um hvort réttara væri að tala um kerfið sem 4-4-2 eða 3-5-2, þar sem Hlynur Atli virtist detta aftur í vörnina þegar Fram var með boltann en lá framar meðan varist var. Þetta umræðuefni var kærkomið fyrsta korterið, sem sannast sagna var verulega tíðindalítið.

Hlynur Örn stóð í markinu sem fyrr. Dino og Kristófer Reyes voru í öftustu varnarlínu og þeir Orri og Sigurður Þráinn í bakvörðunum. Fyrir framan Hlyn Atla, sem áður var nefndur, var Indriði Áki með þá Brynjar og Helga á köntunum. Bubalo og Guðmundur frammi. Vegna leikbanna og meiðsla mátti heita að varamannabekkurinn væri að langmestu leyti skipaður strákum úr öðrum flokki.

Sem fyrr segir bar fátt til tíðinda í fyrstu. Framarar virtust óþarflega varfærnir gegn frekar slöku Breiðholtsliði og saknaði maður þess að sjá ekki meiri grimmd og tilraunir til að fara upp kantana. Til tíðinda dró eftir tæpan hálftíma þegar skotið var í útrétta hönd eins ÍR-ingsins innan teigs. Dómarinn var vel staðsettur og sá atvikið vel, en sleppti vítaspyrnunni. Framarar á pöllunum urðu æfir, en hefðu líklega orðið álíka gramir yfir að fá dæmt á sig víti fyrir sömu sakir.

Þegar komið var fram á 44. mínútu og flestir farnir að búa sig undir leikhlé, náðu heimamenn fágætri en kröftugri sókn þar sem framherji þeirra var mun ákveðnari en okkar menn og skoraði af harðfylgi, 1:0. Framarar voru stúrnir í hléi og gátu lítið huggað sig við eitís-slagarana sem glumdu í hátalarakerfinu… eins og Come on Eileen kemur manni nú yfirleitt í gott skap.

Hafi þjálfarinn haldið þrumuræðu inni í klefanum náði hún amk ekki gegn alveg strax, því fyrstu tíu mínúturnar af síðari hálfleik einkenndust af sömu ládeyðu okkar megin. ÍR-ingarnir virtust ná tökum á miðjunni og útlitið ekki bjart. Sóknir Framliðsins voru fyrirsjáanlegar og helst upp miðjan völlinn eða að treyst var á löng útspörk markvarðarins.

Axel kom inn fyrir Sigurð Þráinn á 54. mínútu og fljótlega tók landið aðeins að rísa. ÍR datt til baka og hugðist verja forystuna (greinilega lítt minnugir þess hversu óhönduglega þeim tókst það í fyrri leiknum á Laugardalsvelli). Á 64. mínútu átti Indriði Áki góða sendingu út á hægri kantinn þar sem Bubalo kom á fleygiferð og sendi hárnákvæmt á kollinn á Guðmundi sem skallaði vel í netið af stuttu færi. Vel að verki staðið hjá öllum aðilum, einkum þó Bubalo sem var mun duglegri að vinna fyrir liðsfélaga sína í leiknum en oft áður.

Þegar markið kom höfðu Framarar þegar beðið um skiptingu – væntanlega tvöfalda. Brynjar fór útaf fyrir Unnar Stein Ingvarsson, en þjálfarateymið hætti snarlega við seinni skiptinguna svo enginn veit hvort kalla átti Guðmund eða Bubalo af velli.
Sjö mínútum síðar var Guðmundur aftur að verki. Hann fékk langa sendingu rétt fyrir utan vítateig, sem hann freistaði að senda áfram inn í teig, varnarmaður ÍR komst á milli og boltinn hrökk aftur til Guðmundar sem lét vaða í bláhornið. Falleg afgreiðsla og Fram komið yfir!

Strax í kjölfarið fór Guðmundur af velli fyrir Alex. Framarar reyndu að þétta raðirnar í vörninni, en ÍR þurfti á ný að færa sig framar á völlinn. Rétt í kjölfar marksins fékk ÍR svo sitt fyrsta alvöru færi í langan tíma, þar sem Hlynu Örn mátti hafa sig allan við að verja ágætt skot af talsverðu færi.

Ekki mátti miklu muna að Framliðinu tækist að klára leikinn á 80. mínútu þegar Unnar Steinn átti gott skot eftir flotta rispu Indriða Áka. Liðin héldu svo áfram að sækja á báða bóga og jafnt og þétt jókst harkan í leiknum. Slök tök dómarans gerðu ekkert til að draga úr því. Illu heilli létu Framarar pirringin ræna sig einbeitingunni og á 89. mínútu venjulegs leiktíma tókst ÍR-ingum að skora úr sókn sem virtist fremur hættulítil, 2:2. Enn lifðu þó nokkrar mínútur eftir af leiknum og Indriði Áki var nærri því að stela sigrinum með þrumufleyg sem markvörður ÍR-inga varði glæsilega.

Hvorugt liðið fagnaði í leikslok. Framarar voru argir út í sjálfa sig fyrir að hafa ekki haldið út til loka og þannig glutrað niður sigrinum og eitt stig gerir ekki nógu mikið fyrir ÍR-inga sem enn verða að teljast í fallbaráttu.

Nú tekur við langt hlé framyfir verslunarmannahelgi áður en draumur hins hlutlausa knattspyrnuunnanda rennur upp, Fram : Leiknir Fáskrúðsfirði á þjóðarleikvangnum. Tryggið ykkur miða í tíma.

Stefán Pálsson

 

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!