Alla nítjándu öld og nokkuð fram á þá tuttugustu sóttu franskir skútusjómenn á Íslandsmið. Umsvif Frakka voru slík að frönsk stjórnvöld og félagasamtök hófu rekstur spítala og sjúkraskýla þar sem veikum og slösuðum Frökkum var veitt aðhlynning. Sjúkrastofnanir þessar voru jafnframt opnar Íslendingum eftir því sem unnt var og má segja að Frakkar hafi þannig lagt grunninn að nútímaheilbrigðiskerfi á Íslandi.
Óvíða voru frönsku áhrifin meiri en á Fáskrúðsfirði. Klókir ferðamálaforkólfar eystra hafa ákveðið að nýta sér þessa sögulegu staðreynd með ýmum hætti. Ár hvert eru haldnir franskir dagar á Fáskrúðsfirði með tilheyrandi ostaáti og rauðvímsþambi, auk þess sem keppt er í pétanque, sem er tilgerðarleg útgáfa af boccia. Og til fullkomna frönsku tenginguna bera öll götuskilti í bænum einnig franska útgáfu viðkomandi götuheitis. Í þeim anda verða handahófskennd orð og orðasambönd í þessum pistli þýdd yfir á frönsku með hjálp Google Translate (Traduire avec google).
Áður er lengra er haldið, er rétt að fréttaritari Framsíðunnar játi á sig dálæti á liði Leiknis Fáskrúðsfjarðar. Það er í raun hálfgert öskubuskuævintýri 700 manna bæjarfélag geti haldið úti liði í næstefstu deild sem að meirihluta til er borið uppi af heimaöldum strákum. Fáskrúðsfirði verður tæplega bjargað frá falli (souvé de la rélagation) úr þessu, en vonandi líður ekki á löngu uns liðið fer aftur upp. Að því sögðu ætla ég að óska þess að Fram og Leiknir F. eigi aldrei aftur eftir að mætast í deildarleik.
Framarar léku 4-4-2 að þessu sinni – líkt og raunar í flestum þeim leikjum í sumar þar sem stig hafa unnist. Hlynur var sem fyrr í markinu og átti tvívegis frábærar vörslur. Dino og Kristófer voru í miðvarðarstöðunum en Sigurpáll og Orri í bakvörðunum. Högni var aftastur á miðjunni með Hlyn Atla fyrir framan sig og Brynjar og Indriða Áka á köntunum. Bubalo og Guðmundur frammi. Allt sem sagt eftir bókinni (comme prévu).
Fréttaritarinn var hálfumkomulaus á vellinum án síns hefðbundna sessunautar og það sem verra var, án viskýfleygsins ómissandi (cale de whisky essentiel), sem dreginn er fram í hvert sinn sem okkar menn skora. Þess í stað var setið við hliðina á kunningja að austan sem rakti í smáatriðum ættir og bakgrunn allra Leiknismanna og lét öllum illum látum þegar gestirnir skoruðu.
Reyndar virtist framan af lítil hætta á að sá austfirski léti mikið að sér kveða. Framarar voru mun sterkari í byrjun og virtust eiga auðvelt með að splundra Leiknisvörninni, ef þeir aðeins nenntu að auka hraðann lítilsháttar. Þegar á sjöundu mínútu fékk Bubalo dauðafæri, þegar hann stóð einn á móti markverði andstæðinganna, eftir að allir varnarmennirnir höfðu stoppað í þeirri trú að Króatinn káti (Croatie joie) væri rangstæður. Ekki tókst okkar manni að skora og það sama gerðist nokkrum sinnum í viðbót í leiknum. Framherjar af þessum gæðaflokki verða að gera betur.
Bubalo á þó heiður skilinn fyrir þátt sinn í fyrsta marki leiksins á 25. . mínútu. Indriði Áki sprengdi sér leið í gegnum vörnina, hljóp upp að endamörkum og sendi stutt á Bubalo sem sneri sér eldsnöggt í hálfhring og sendi beint á Guðmund Magnússon sem kom aðvífandi og setti boltann í netið. Rangstöðulykt? Tjah, veit það ekki – en félaginn að austan var eitthvað að kveinka sér (se plaindre un peu).
Þegar hér var komið sögu hefði staðan raunar getað verið orðin 4:1, ef bæði lið hefðu nýtt afbragðsfæri sín í leik hinna taugaveikluðu varna. Ekki tókst Framliðinu þó að gera sér mat úr forskotinu. Á 29. mínútu jöfnuðu gestirnir. Varnarmenn Fram hreinsuðu úr þvögu (purifiée á partir rapprochés) út úr vítateignum, beint fyrir fætur eins þeirra rauðklæddu sem náði bylmingsskoti í markhornið. Hlynur náði ekki einu sinni að hreyfa sig í áttina að boltanum, enda séð hann seint. Mínútu síðar mátti minnstu muna að Leiknir kæmist í 1:2, eftir klaufaleg mistök í Framvörninni.
Á hinum enda vallarins var Guðmundur allt í öllu og átti tvö til þrjú góð færi áður en hálfleikurinn var úti. Það var þó Leiknisliðið sem fór hlæjandi til búningsklefa, því á markamínútunni náði einn Leiknismaðurinn – og fjarri því sá hávaxnasti (les fournisserus de grand pas) – skalla af löngu færi eftir hornspyrnu sem flaut beint upp í vinkilinn. 1:2 í hálfleik og jafnvel fínskorin súkkulaðikakan og rótsterkt kaffið náði ekki að létta stemninguna í hléi.
Helgi kom inná fyrir Hlyn Atla í byrjun seinni hálfleiks, þar sem Leiknismenn virtust staðráðnir í að halda fengnum hlut… og það jafnvel um of. Hláleg uppákoma átti sér stað á 49. mínútu þar sem varnarmaður Leiknis sendi aftur til markvarðarins sem tók sér allan tímann í heiminum í að hinkra eftir að Bubalo nennti að trítla í áttina að honum. Þá var svo langur tími liðinn að markvörðurinn hafði steingleymt hvaðan sendingin kom og tók boltann upp: óbein aukaspyrna.
Það voru mjög stuttir níu metrar (court neuf métres) í varnarvegginn og hvatvísir Leiknismenn komnir nánast upp að boltanum þegar honum var spyrnt að marki. Þaðan hrökk knötturinn útúr teignum. Aðvífandi Framari lyfti honum inn í teiginn þar sem Guðmundur teygði sig fram og vippaði yfir markvörð andstæðinganna, 2:2.
Mínútu síðar lá boltinn enn á ný í Leiknismarkinu. Framarar áttu skyndisókn og einn varnarmanna gestanna, enn vankaður eftir jöfnunarmarkið, ákvað að bjarga hornspyrnu með því að senda boltann út í miðjan teiginn. Brynjar sló ekki hendinni á móti góðu boði (voulez vous) og skoraði af stuttu færi, 3:2.
Í stað þess að láta hné fylgja kviði slaknaði á bensínfætinum (pied da l´annélérateur) hjá okkar mönnum. Leiknismenn unnu sig hægt og bítandi inn í leikinn og voru nærri búnir að jafna á 64. mínútu eftir ljót varnarmistök. Enn mátti litlu muna að Leiknir skoraði sitt þriðja mark á 83. mínútu en ágætt skot þeirra fór rétt framhjá. Þegar þar var komið sögu hafði Fram klárað allar skiptingar sínar, þar sem Unnar og Axel komu inn fyrir Kristófer og Guðmund.
Litlu var bætt við leiktímann og heyra mátti marga varpa öndinni léttar. Góð þrjú stig í húsi í sigri sem var öruggari en markatalan gefur til kynna. Guðmundur Magnússon var klárlega maður leiksins, en Framarar verða að nýta færin sín betur (déja vu) gegn sterkari liðum deildarinnar ef ætlunin er að príla hærra upp töfluna.
Næsti leikur verður á Akureyri og því ekki von á neinni leikskýrslu, þess í stað verður fréttaritari Framsíðunnar í tjaldútilegu í Borgarfirði eins og fínn maður. Lífið er ljúft, (J´aime la vie).
Stefán Pálsson