Afturelding/FRAM varð í kvöld Íslandsmeistari í 2. deild kvenna.
Við lékum í kvöld á heimavelli að Varmá gegn Fjölni og ljóst að um hörkuleik yrði að ræða. Við vorum fyrir leikinn búinn að tryggja okkur sæti í 1. deild að ári en þurftum að fá stig til að tryggja okkur sigur í deildinni.
Það var boðið upp á beina útsendingu frá leiknum í kvöld og fréttaritari nýtti sér það. Flott veður í Mosó í dag en smá vindur eins og svo oft í Mosó, þekki það af golfvellinum.
Leikurinn var ágæt skemmtun svona á föstudagskveldi, barátta frá upphafi til enda en mér fannst við geta gert betur þ.e að mér fannst við geta haldið boltanum meira og reynt betur að nýta okkar styrkleika. Geri mér fulla grein fyrir því að leikurinn var mjög mikilvægur og við ætluðum að sækja stig og gulltryggja sigur í deildinni og það tókst í kvöld. Mér fannst við betri allan leikinn og liðið okkar komið í fanta form. Við vorum flottar í dag. Staðan var 0-0 í hálfleik og það urðu líka lokatölur í kvöld.
Þar með er ljóst að við leikum í 1. deild að ári og þetta verkefni að sameina lið FRAM og Aftureldingar hefur tekist með ágætum. Mikill metnaður lagður í verkefnið og allir þeir sem hafa komið að því eiga hrós skilið. Gaman að sjá þegar fólk kemur saman með það eitt að markmiði að gera vel og vinna að framgangi kvennafótbolta í FRAM og Aftureldingu. Vel gert.
Liðið á núna eftir að leika tvo leiki, báða á útivelli og þurfum við FRAMarar að fjölmenna á þessa leiki og sýna liðinu okkar stuðning í verki.
Innilega til hamingju stelpur og njótið kvöldsins.
ÁFRAM FRAM/AFTURELDING