fbpx
FRAM Fylkir II vefur

Föstudagsflenging – og ekki af góða taginu

Þegar heiti Knattspynufélags Seláss og Árbæjarhverfis var breytt og Fylkisnafnið tekið upp, var einnig skipt um búning. Lengi hafa verið vangaveltur um hvers vegna appelsínugulur varð fyrir valinu. Hafa sumir freistast til að skýra það með velgengni og vinsældum hollenska landsliðsins, en það er langsótt enda var Holland ekki komið á kortið sem það knattspyrnustórveldi sem síðar varð þegar Árbæingarnir tóku upp nýja litinn.

Önnur tilgáta er á þá leið framámaður í Fylki hafi heyrt að appelsínugulur væri sérlega áberandi og að rannsóknir sýndu að á kappvelli virtust lið í þannig litum treyjum vera fjölmennari. Hafa ber í huga að þetta gerðist löngu áður en Alex Ferguson ákvað að kenna gráum treyjum sinna manna um ömurlegan fyrri hálfleik hér um árið.

Eftir leik kvöldsins hefur fréttaritari Framsíðunnar látið sannfærast. Fylkismenn virtust í allt kvöld vera í það minnsta tveimur mönnum fleiri en Framarar. Við skulum ekkert reyna að fegra veruleikann: við vorum kjöldregnir.

Framarar stilltu upp með leikkerfið 4-4-2. Hlynur Örn í marki að vanda. Dino og Kristófer í miðvörðunum og Orri og Arnór Daði í bakvörðunum, sá fyrrnefndi loksins snúinn aftur eftir meiðsli. Illu heilli reyndist hann ekki orðinn alveg heill og þurfti að yfirgefa völlinn eftir hálftíma leik. Högni, Hlynur Atli, Indriði Áki og Sigurpáll voru á miðjunni og Bubalo og Guðmundur frammi. Við brotthvarf Arnórs Daða kom Helgi Guðjónsson inná, Högni datt aftur í miðvörðinn og Kristófer tók stöðu Arnórs.

Það tók Framara ekki nema fimm mínútur að komast yfir. Hlynur skallaði í netið eftir hornspyrnu. Þetta reyndist svikalogn.

Eftir markið tóku Fylkismenn öll völd á vellinum. Jöfnunarmarkið var óumflýjanlegt og í raun merkilegast að það hafi ekki komið fyrr en á nítjándu mínútu. Eftir tæpan hálftíma skoruðu gestirnir tvívegis með mínútu millibili og áður en gengið var til klefa í leikhléi var staðan orðin 1:4. Markvörður og vörn okkar litu afar illa út í flestum markanna.

Fram hóf seinni hálfleik með skiptingu, þar sem Benedikt Októ kom inn fyrir Orra. Gott að sjá Benedikt snúa aftur úr meiðslum. Hann á hrós skilið fyrir að hafa sýnt í það minnsta snefil af baráttu í leiknum. Því miður bar minna á því hjá liðinu í heild.

Klaufaleg mistök og brot Hlyns Arnar gáfu Fylkismönnum víti og mark á 55. mínútu og sagnfróðir Framarar í stúkunni fóru að rifja upp hver væru stærstu töp félagsins í sögunni…

Fylkir fékk svo sem tækifæri til að bæta enn við mörkum, en slökuðu fljótlega á klónni og Framarar fengu andrými á ný. Í seinni hluta hálfleiksins kom svona tíu mínútna kafli þar sem okkar menn náðu upp lítilsháttar spili og voru í raun klaufar að ná ekki eins og einu marki til að lappa örlítið upp á markatöfluna. Axel Freyr kom inn á fyrir Hlyn Atla þegar stundarfjórðungur var eftir, en hafði ekki mikil áhrif á leikinn.

Fjögurra marka tap var staðreynd og Árbæingar náðu fram hefndum eftir síðustu heimsókn þeirra í Laugardalinn, þar sem föllnu Framliði tókst að hafa af þeim Evrópusæti í lokaumferðinni. Einhvern veginn virtust Fylkismenn ekki fjölmennara liðið þá, í fínu endurskinsmerkjabúningunum sínum.

Svekkjandi úrslit en þó alveg hægt að horfa á jákvæða punkta. Í fyrsta lagi var sandkakan sem boðið var uppá í Framherjakaffinu hreint lostæti og í öðru lagi stuðla þessi úrslit að því að við losnum við Fylki úr deildinni að ári. Glasið er svo sannarlega hálffullt!

Á leiðinni út af vellinum uppgötvaði fréttaritari Framsíðunnar að einhver apaköttur í mótanefnd KSÍ tók upp á að færa Gróttuleikinn frá fimmtudegi yfir á miðvikudag – einmitt eftir að sá er hér stýrir lyklaborði var búinn að bóka sig í vinnu á miðvikudagskvöldi til að halda fimmtudeginum lausum. Hér er illa farið með góðan dreng og enn verr með báða lesendur þessara pistla. Spurning um að hringja inn sprengjuhótun ?

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!