Nýtt námskeið hjá Knattspyrnuakademíu Fram fyrir iðkendur fædda 2002-2006 hefst í næstu viku.
Námskeiðið stendur í fjórar vikur, 5.febrúar – 1.mars.
Skráning er hafin á skráningarsíðu Fram og takmarkast fjöldi þátttakenda við fjörtíu.
Knattspyrnuakademían er metnaðarfullt verkefni á vegum barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildar Fram en þetta er þriðja árið sem hún er starfrækt. Markmið akademíunnar er að gera iðkendum grein fyrir hvað þarf til að ná árangri í afreksknattspyrnu, bæta færni þeirra og auka skilning þeirra á mikilvægi þátta sem styðja við knattspyrnuþjálfunina; svo sem næringarfræði og sálfræði.
Iðkendur fæddir 2002-2006 og foreldrar þeirra eru hvattir til að kynna sér þetta spennandi verkefni.
Knattspyrnuæfingarnar verða tvo morgna í viku (mánudaga og fimmtudaga kl. 6:15-7:20) og fara þær fram við bestu aðstæður í Egilshöll undir stjórn Zeljko Óskars Sankovic og þjálfara frá knattspyrnudeild Fram.
Zeljko er margreyndur afreksþjálfari og starfar sem yfirþjálfari yngri flokka hjá Fram. Aðrir knattspyrnuþjálfarar verða Pedró Hipólito þjálfari meistaraflokks Fram, Vigfús Geir Júlíusson og Heiðar Geir Júlíusson sem báðir hafa áralanga reynslu af þjálfun yngri flokka og síðast en ekki síst Arnar Freyr Gestsson markmannsþjálfari.
Knattspyrnuakademía Fram býður upp á þrjú námskeið í vetur; það fyrsta var í nóvember sl, annað námskeiðið er framundan í febrúar og þriðja námskeiðið verður í apríl. Til viðbótar við knattspyrnuæfingar munu iðkendur nóta leiðsagnar sérfræðinga í næringarfræði, sálfræði, styrktarþjálfun, hlaupaþjálfun og jóga. Á þessu öðru námskeiði verður áhersla lögð á styrktarþjálfun og jóga/teygju- og liðleikaþjálfun. Hlaupaþjálfun og sálfræði koma svo inn á námskeiðinu í apríl.
Styrktaræfingar fara fram undir stjórn Hilmars Þórs Arnarsonar Osteopata (MOst) og íþróttafræðings (Bsc). Hjá Hilmari munu iðkendur fá kennslu í grunnþáttum styrktarþjálfunar. Farið verður yfir meiðslafyrirbyggjandi æfingar og mikilvægi þeirra og iðkendum kenndar réttar hreyfingar og rétt líkamsbeiting í styrktarþjálfun.
Hilmar Þór útskrifaðist sem íþróttafræðingur (Bsc) frá Háskólanum í Reykjavík árið 2013 og sem Osteopati (Most) frá Swansea University 2017. Hilmar hefur mikla reynslu sem styrktarþjálfari og starfar í dag m.a. sem styrktarþjálfari 3.fl. karla og kvenna í handknattleik hjá Fram og sér um styrktarþjáfun og meðhöndlun mfl. karla í handknattleik hjá Fram.
Það skiptir ekki síður máli að liðka og teygja á líkamunum en að styrkja hann. Gróa Másdóttir, jógakennari, mun mæta fjórum sinnum á meðan á námskeiðinu stendur og kenna teygjur sem miðast við fótbolta. Í lok teygjuhlutans verður farið í öndunaræfingar og slökun enda afar mikilvægt að geta kúplað sig frá dagsins amstri þegar þörf er á.
Styrktar- og jógaæfingar verða undir stjórn Hilmars Þórs og Gróu á miðvikudagsmorgnum kl. 6:15 í Íþróttahúsi Fram í Safamýri.
Námskeiðsgjald er kr. 22.000- og skráning er hafin á https://fram.felog.is/.
Námskeiðsgjald er kr. 18.000- fyrir þá sem voru með á fyrsta námskeiðinu.
Nánari upplýsingar veitir Daði í síma 587-8800 eða dadi@fram.is
Hér gefur að líta skemmtilegar svipmyndir af námskeiði Knattspyrnuakademíu Fram frá því í vor.