HSÍ, Olís, Olísdeildin og PÍETA samtökin hafa tekið höndum saman og ætla nú að vinna í sameiningu að vitundarvakningu og söfnun fyrir samtökin, sem einbeita sér að forvörnum gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða.
Ætlunin er að vekja athygli á samtökunum og því sem þau standa fyrir á leikjum í Olísdeildinni á næstu vikum ásamt því að safna fé fyrir samtökin.
Lesin verður yfirlýsing sem flutt verður af handboltafólkinu okkar, en henni verður jafnframt hægt að dreifa á samfélagsmiðlum. Það væri dýrmætt að sem flestir myndu vilja deila henni þar með myllumerkinu #segðuþaðupphátt og breyta prófílmyndinni sinni.
Eins verður hægt að kaupa armbönd til styrktar Píeta á leikjum Olísdeildarinnar.
Við hvetjum FRAMara til að taka þátt í þessu átaki á þann hátt sem þeir best geta og dreifa á samfélagsmiðlum.
PÍETA YFIRLÝSINGIN
NÁNAR UM PÍETA –
FORVARNARSAMTÖK GEGN SJÁLFSVÍGUM OG SJÁLFSSKAÐA
Píeta samtökin eru góðgerðasamtök sem falla undir þriðja geirann. Enginn hagnast fjárhagslega á samtökunum og þjóðin á samtökin.
Húsnæði samtakanna er á Baldursgötu 7 í Reykjavík. Eftir páska 2018 verður opnuð þar sjálfsvígs- og sjálfsskaðamiðstöð þar sem fólk í slíkum vanda á kost á því að fá 15 ókeypis tíma hjá sálfræðingi eða geðhjúkrunarfræðingi. Aðstandendur munu eiga kost á 5 ókeypis tímum. Starfsemin er rekin í anda Pieta house á Írlandi. Starfsemin á Írlandi hefur margsannað sig og búið er að opna 18 slík hús þar í landi.
Píeta þýðir umhyggja og er lagt upp úr því að hafa húsnæði samtakanna notalegt og heimilislegt í miðju íbúðahverfi. Almenna leigufélagið lánar samtökunum 100 fermetra íbúð næstu árin fyrir starfsemina. Fjölmörg fyrirtæki og félagasamtök hafa lagt sitt af mörkum svo hægt var að innrétta húsnæðið huggulega.
Fólkið á bakvið Píeta: Edda Arndal geðhjúkrunarfræðingur hefur verið ráðin forstöðumaður hússins. Búið er að ráða móttökuritara og einnig verða sálfræðingar í verktakastörfum við að veita viðtölin. Framkvæmdastjóri Píeta samtakanna er Sirrý Arnardóttir, sirry@sirry.is. Björk Jónsdóttir skólastjóri er formaður samtakanna og í stjórn eru Margrét María Sigurðardóttir lögfræðingur og fyrrum umboðsmaður barna, Vilhjálmur Árnason siðfræðingur, Jóhann Baldur Arngrímsson sálfræðingur og Benedikt Þór Guðmundsson sem upphaflega kynnti Íslendingum Píeta hugmyndafræðina.
Ráðgjafaráð, skipað fræðimönnum úr háskólasamfélaginu, er vakandi yfir störfum Píeta samtakanna. Meðlimir í ráðgjafaráðinu hafa reynslu af því að missa náinn ástvin úr sjálfsvígi. Ráðið skipa Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur og félagsráðgjafi (HÍ), Guðmundur Hálfdánarson (HÍ), Þórunn Sigurðardóttir (HÍ), Ágúst Þorbjörnsson (HR) og Helga Gottfreðsdóttir (HÍ).
Píeta samtökin standa árlega fyrir göngunni „Úr myrkri í ljósið“ á vorin og „Vetrarsólstöðugöngu“ í desember.
Samtökin eru með facebooksíðuna Píeta ísland, sjálfsvígsforvarnarsamtök og heimasíðuna pieta.is þar sem hægt er að styrkja samtökin fjárhagslega.
Stefnt er að því að opna Píeta skjól í öllum landsfjórðungum á næstu árum.
FRAMarar stöndum saman og “segjum það upphátt”
ÁFRAM FRAM