Síðara bikarmót Taekwondo sambands Íslands í poomsae var haldið nú um helgina í herbúðum Ármanns í Laugardalnum. Þar var margt um manninn og voru þátttakendur á öllum aldri frá sjö félögum.
Að þessu sinni átti Fram 12 skráða keppendur og hefur félagið aldrei fyrr átt svo marga þátttakendur í keppni í tækni auk þess sem félagið átti í fyrsta sinn keppanda í svokölluðu „freestyle“, eða frjálsum æfingum.
Iðkendum frá Fram gekk almennt vel en margir voru að keppa á sínu fyrsta móti og var sérlega ánægjulegt að sjá svo marga nýliða í keppni fyrir félagið. Helmingur iðkenda komst á verðlaunapall og unnu samtals þrenn gullverðlaun, fimm silfur og þrjú brons. Við erum afar stolt af þessum vaska hópi og óskum þeim til hamingju með árangurinn.
Það eru svo spennandi tímar framundan. Í mars verður bæði haldið Íslandsmótið í bardaga og hið árlega páskamót Fram og í apríl verður svo síðasta bikarmót vetrarins og verður þá eingöngu keppt í bardaga.
Fram stefnir að sjálfsögðu á að senda þátttakendur á öll þessi mót og munu iðkendur æfa af kappi næstu vikur og mánuði með það að markmiði að taka bardagahluta tímabilsins með stæl og verður gaman að fylgjast með okkar fólki.
Til hamingju FRAMarar
Stjórn TKD Fram