Steinar Bjarnason hefur skrifað undir sinn fyrsta samning við knattspyrnudeild FRAM. Steinar semur við FRAM til þriggja ára eða út keppnistímabilið 2020.
Steinar er fæddur árið 2002 og því ennþá gjaldgengur í 3. flokki. Hann spilaði sinn fyrsta leik með meistaraflokki nú í janúar sl. og varð þá líklega yngsti leikmaður í sögu FRAM til að spila opinberan mótsleik með meistaraflokki en hann er 15 ára síðan í lok september sl. Elstu menn og færustu sagnfræðingar hafa ekki getað nefnt neinn sem var yngri til að spila sinn fyrsta leik og þar til annað kemur í ljós þá ber Steinar því þann titill að vera yngsti leikmaður í sögu FRAM.
Steinar, sem er uppalinn hjá FRAM, hefur einkum leikið sem miðjumaður og getur bæði leikið fram- og afturliggjandi en getur leyst flestar stöður á vellinum. Hann er vinnusamur og ákveðinn leikmaður með mikla spyrnugetu og jafnvígur á báða fætur. Hann skorar reglulega mörk og leggur upp mikið af færum fyrir félaga sína.
Steinar hefur verið viðloðandi úrtakshópa KSÍ síðustu árin og keppti með Reykjavíkurúrvalinu til sigurs á Norðurlandamótinu vorið 2016.
Knattspyrnudeild FRAM bindur miklar vonir við Steinar og það verður spennandi að fylgjast með honum vaxa og dafna á næstu árum.