Knattspyrnudeild Fram hefur gert tveggja ára samning við 23 ára gamlan varnarmann frá Brasilíu, Marcus Vieira. Marcáo eins og hann er kallaður hefur spilað með EC Bahia, Juventude og Zaria Balti.
Auk þess að hafa leikið með félagsliðum þá á Marcáo að baki 4 landsleiki með yngri landsliðum Brasilíu.
Tilkoma Marcáo til Fram verður til með samstarfi við öfluga umboðsskrifstofu Etiminanbrazil sem rekin er af Valdir Sousa sem er vel þekktur í knattspyrnuheiminum. Frá þessu umboðsfyrirtæki hafa farið tugir leikmanna til miðausturlanda og asíu. Marcáo er annar leikmaðurinn sem Etiminanbrazil setur á samning í Evrópu.
Fram hefur nú samið við tvo brasilíska leikmenn og verður mjög spennandi að sjá hvernig þeim gengur að aðlagast aðstæðum hér á landi. Þær eru vissulega ólíkar hitanum í Brasilíu en hins vegar er ástand valla og innanhúsknattspyrnan í knattspyrnuhöllum nýtt í þeirra augum.
Það eru þegar farin að sjást skemmtileg tilþrif á æfingum. Marcáo er gríðarlega öflugur varnarmaður, 193cm á hæð og 90kg. Hann er feikisterkur í loftinu og með mikla sendigetu, bæði lengri sendingar og stuttar. Það er gaman að heyra hann kalla á sína samherja og stýra varnarlínunni með harðri hendi.
Við bjóðum þennan geðþekka leikmann velkominn í Fram og í íslenska knattspyrnu.