Líf og fjör var í Ingunnarskóla um helgina þegar taekwondo deild Fram hélt sitt árlega páskamót í sjötta sinn. Mótið var stærsta, umfangsmesta og fjölmennasta páskamót sem deildin hefur staðið fyrir og voru 98 krakkar á aldrinum 5-12 ára skráðir til leiks.
Fyrrum yfirþálfari deildarinnar, Hlynur Gissurarson, stóð fyrst fyrir þessu móti sem byrjaði aðeins sem lítið innanfélagsmót en hefur vaxið með ári hverju og er í dag árlegur viðburður og opið öllum félögum.
Upphaflega var aðeins keppt í bardaga en á síðasta ári var bætt við keppni í tækni og í ár voru lang flestir sem kepptu bæði í bardaga og tækni. Mótið er stílað inn á yngstu iðkendur íþróttarinnar og er einn af fáum viðburðum sem er opinn byrjendum með hvítt belti. Þetta er því kjörinn vettvangur fyrir unga taekwondo iðkendur að öðlast sína fyrstu reynslu af keppni því á þessu móti eru allir sigurvegarar og fá allir sem taka þátt bæði verðlaunapening og páskaegg. Þetta var því stór dagur fyrir marga og mikill sigur fyrir mörg lítil hjörtu bara að mæta, fara út á gólfið og vera með.
Ný stofnað foreldrafélag sá að þessu sinni um veitingasöluna á mótinu og fór salan fram úr björtustu vonum. Tekjurnar af veitingasölunni munu svo renna beint til iðkenda í formi hópeflis á vegum foreldrafélagsin.
Taekwondo deild Fram þakkar öllu því góða fólki sem lögðu hönd á plóg. Það er ekki sjálfgefið að lítil deild geti staðið fyrir opnum viðburði af þessari stærðargráðu. Við þökkum því hjartanlega öllum sem lögðu okkur lið, iðkendum, foreldrum, þjálfurum og ekki síst vinum úr öðrum félögum.
Takk og gleðilega páska.
Stjórn TKD Fram