Eins og kunnugt er fagnar Knattspyrnufélagið Fram 110 ára afmæli sínu í ár.
Á afmælisárinu hefur knattspyrnudeild Fram ákveðið að halda mót í minningu Ásgeirs Elíassonar sem er einn af dáðustu sonum Fram og íslenskrar knattspyrnu.
Ásgeir lék með Fram og íslenska landsliðinu við góðan orðstír um árabil. Alls lék hann 302 meistaraflokksleiki með Fram og 32 A-landsleiki í knattspyrnu fyrir Íslands hönd. Ásgeir var afreksmaður í fleiri íþróttum og lék líka landsleiki í handknattleik og blaki.
Ásgeir var þjálfari Fram á gullaldarárum félagsins 1985-1991 og vann liðið þrjá Íslandsmeistaratitla og þrjá bikarmeistaratitla undir hans stjórn á þessum árum. Ásgeir þjálfaði lið Fram aftur á árunum 1996-1999 og tímabilið 2006 með góðum árangri.
Ásgeir var landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu á árunum 1991-1995. Alls stýrði hann landsliðinu í 35 leikjum og náði góðum árangri. 12 leikir unnust, 8 lauk með jafntefli og 15 töpuðust.
Ásgeir kom víðar við en hjá Fram og íslenska landsliðinu á sínum þjálfaraferli. Hann þjálfaði ÍR, Víking Ólafsvík, FH og Þrótt og gat sér gott orð hvar sem hann kom.
Ásgeir var hvers manns hugljúfi og mikils metinn í knattspyrnusamfélaginu á Íslandi. Hann var óumdeildur og
naut virðingar fyrir sín störf og hlýlegt viðmót.
Minningarmótið verður haldið á gervigrasvelli Fram í Safamýri laugardaginn 12. maí.
Upphitun hefst með reitabolta kl. 13:30. Mótið sjálft stendur svo frá kl. 14:00-17:00
Leikið verður í 6 manna liðum en fjöldi varamanna ótakmarkaður. Leikið verður í riðlakeppni, undanúrslitum og til úrslita. Aldurstakmark er 30 ár.
Sérstök dómnefnd velur úrvalslið mótsins og besta leikmanninn.
Sigurliðið fær þann heiður að varðveita glæsilegan farandbikar í eitt ár.
Að móti loknu eða kl. 18:00 hefst kvöldverður og skemmtidagskrá í veislusal Fram í Safamýri.
Verð á hvern leikmann er kr. 6.900-. Innifalið í verðinu er mótsgjald, fordrykkur og kvöldverður (300g af úrvalskjöti beint af grillinu ásamt góðu meðlæti).
Skráning liða fer fram á dadi@fram.is.