fbpx
liðsmynd

Fínt – fyrir utan morðin…

Marion Barry var litríkur borgarstjóri í Washington DC, seint á síðustu öld. Ferill hans var með miklum ólíkindum, meðal annars stóð hann það af sér að fara í fangelsi eftir að hafa verið kvikmyndaður við að reykja krakk á hótelherbergi. Þótt meginstraumsfjölmiðlarnir pönkuðust á Barry, naut hann stuðnings síns fólks í höfuðborginni, einkum þeldökkra Demókrata.

Einhver eftirminnilegustu ummæli Marions Barry tengdust því þegar hann var spurður út í glæpatíðnina í borginni hans. „Í rauninni eru glæpir ekki mikið vandamál hjá okkur“, svaraði Barry, „ef maður telur ekki með öll morðin.“ Að sumu leyti áttu þessi snjallyrði Marions Barry við á leiknum í dag. Framarar gengu til leikhlés nokkuð sáttir – leikurinn hefði bara verið býsna góður og okkar menn staðið sig ansi vel… ef ekki væri fyrir mörkin hjá andstæðingunum.

Það er alltaf sérstök stemning að mæta til leiks í fyrsta deildarleik tímabilsins. Reyndar hefur mótanefnd komið því þannig fyrir að Framarar eru þegar búnir að leika þrjá „alvöru“ leiki í bikarnum – en deildarkeppnin er samt alltaf sérstök. Þar sem Laugardalsvöllurinn er enn ekki tilbúinn var leikstaðurinn fluttur í Safamýrina. Mætti pistlahöfundur setja fram þá frómu ósk að Laugardalsvöllur verði óleikfær sem lengst og við náum sem flestum leikjum á þessum alvöru heimavelli – þótt á gervigrasi sé!

Framliðið er talsvert breytt frá fyrra ári og þurfti fréttaritarinn að verja talsverðum tíma í að rýna í byrjunarliðið. Uppstillingin var varfærin. Bjartsýnismenn myndu kannski lýsa henni sem 3-5-1-1, svartsýnismenn myndu segja 5-4-1. Sá sem hér stýrir lyklaborði hefur þó aldrei nennt að velta sér mikið upp úr leikkerfum, enda segja þau ekki mjög mikið.

Atli Gunnar var í markinu, sem vænta mátti. Fyrir framan hann byrjuðu Unnar Steinn Ingvarsson, Dino Gavric og Kristófer Reyes, með Alex Frey og Mikael Egil á köntunum. Heiðar Geir og Hlynur Atli voru á miðsvæðinu ásamt Portúgalanum Tiago. Þar fyrir framan var svo Fred hin brasilíski og Guðmundur Magnússon frammi á toppnum. Ruglandi? Já, ég var líka úti á þekju.

Fyrir nokkrum árum fór sá er þetta ritar í herraklippingu. Bæklingurinn á heilsugæslustöðinni sagði að það myndi hafa í för með sér tímabundinn sviða eða óþægindi. Veruleikinn var sá að í hálfan mánuð fannst mér einhver hafa sparkað bylmingsfast í punginn. – Og það var nokkurn veginn tilfinningin sem fyrsta kortér leiktíðarinnar gaf manni.

Eftir tveggja mínútna leik áttu Selfyssingar sakleysislega sendingu inn fyrir vörnina sem okkar mönnum mistókst að hreinsa frá – allt í einu var Ingi Rafn Ingibergsson kominn einn í gegn og skoraði auðveldlega. Næstu mínútur reyndu Framarar að jafna og virtust hafa ágætt vald á leiknum. Á elleftu mínútu áttum við til að mynda sendingu inn í teig Selfyssinga, þar sem áttavilltur Stefán Logi (var hann ekki hjá okkur í yngri flokkunum?) fór í skógarferð og boltinn dansaði á markslánni.

Mínútu síðar negldu Selfyssingar fram, þar sem Kristófer Páll Viðarsson, síðhærður og með ennisband í argentínsku landsliðslitunum reyndist Claudio Cannigia fátæka mannsins og skoraði farsakennt mark eftir að þremur varnarmönnum Fram og markverðinum mistókst að hreinsa frá, 0:2 eftir tólf mínútna leik. Dauði, djöfull og herraklipping.

Framarar á pöllunum voru stúrnir og ekki bætti úr sök að veðrið þjáðist af geðhvarfasýki. Inn á milli var hið ljúfasta maíveður með skínandi sól en jafnóðum brast á með haglhraglanda og vindhviðum.

Úti á vellinum náðu Framarar oft góðum leikköflum. Portúgalska herskipið hefur augljóslega lagt upp með þá taktík að spila boltanum eftir vellinum en grípa ekki til kýlinga og hlaupa. Vissulega göfug stefna þótt spurningin sé hversu áhrifarík hún sé í þessari deild. Áhyggjuefnið var þó taugaveiklunin í vörninni og samskiptaleysið í þau fáu skipti sem virkilega reyndi á hana.

Fram fékk nokkur þokkaleg færi þegar líða tók á fyrri hálfleikinn og var Guðmundur þar atkvæðamestur og sífellt ógnand. Á 36. mínútu kom í ljós að dómari leiksins var ekki Siguðurður Þrastarson, eins og vefur KSÍ hermdi, heldur Salómon sjálfur úr Gamla testamentinu. Féll þá einn Framarinn í miðjum vítateignum (ekkert brot samt) en línuvörðurinn… afsakið aðstoðardómarinn… flaggaði. Eftir stutt samtal við manninn á fánanum ákvað dómarinn að sanngjörn málamiðlum væri sú að færa brotið til um þrjá metra og dæma aukaspyrnu. Var það ekki síðasta dæmið um forvitnilegt samráð dómaratríósins í leiknum.

Við vorum 0:2 undir í leikhléi, sem fyrr sagði, en stemningin þó furðugóð í kaffisötrinu í getraunastúkunni í Framheimilinu. Auk soðins kaffis var boðið upp á randalínur, sem eru prýðisgott bakkelsi. Hamborgararnir komu frá Kjöthöllinni og voru í úrvalsflokki. (Hefur komið nógu skýrt fram í þessum pistli að ég vil leika alla leiki í Safamýri frekar en því sálarlausa afstyrmi sem Laugardalsvöllurinn er?)

Ein breyting var gerð í upphafi seinni hálfleiks, þar sem Unnar fór að velli fyrir Helga Guðjónsson til auka sóknarþungann. Það reyndist snjöll breyting, þar sem Helgi kom með aukinn hraða inn í liðið. Tiago var fínn fram á við og á góðar sendingar, en fljótur er hann ekki.

Þegar tæpar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik ákvað Hipólito að skerpa enn á sókninni fram á við og tók Mikael hinn íslenska útaf fyrir Mikael hinn makedónska. Það skilaði þegar árangri. Strax í fyrstu sókn var Guðmundur nærri því að minnka muninn og á sextugustu mínútu átti okkar maður frá fyrrum Júgóslavíu góða rispu upp kantinn og sendi fyrir markið þar sem Helgi Guðjóns kom aðvífandi og skoraði af öryggi. – Hér með er það pantað að Helgi skori amk 10 deildarmörk í sumar, enda ofurvaramaður Inkasso.

Selfyssingar, sem höfðu haft nokkuð góð tök á leiknum fram að þessu, fóru gjörsamlega á taugum við markið. Framarar sóttu hins vegar að kappi. Sérstök ástæða er til að hrósa Alex Frey sem var sífellt ógnandi á kantinum og Fred hinum brasilíska, sem var bæði flinkasti leikmaður vallarins og sá sem státaði af flottasta yfirvaraskegginu. Raunar eina yfirvaraskegginu.

Klunnalegt brot Selfyssinga á 69. mínútu, gaf okkur aukaspyrnu á hættulegum stað í miðjum haglstormi. Gummi stillti sér upp ásamt öðrum hvorum portúgölskumælandi Framaranum og Stefán Logi í Selfossmarkinu veðjaði augljóslega á að Guðmundur myndi hlaupa yfir boltann og láta hinn skjóta. Flónið! Gummi hleypur aldrei yfir boltann! Skotið fór í fallegum boga yfir varnarvegginn og í markið. Nafni hreyfði sig ekki fyrr en til að sækja hann í netið. 2:2.

Eftir jöfnunarmarkið jafnaðist leikurinn nokkuð. Framarar héldu áfram að vera líklegri, en þá sjaldan að Selfyssingar sóttu skapaðist hætta. Við þurfum virkilega að þétta vörnina fyrir átök næstu vikna. Undir lok leiksins lenti Alex Freyr í ljótu samstuði við einn Selfyssinginn og var borinn útaf sárkvalinn með bundið um hnéð. Það væru herfileg tíðindi ef hann verður lengi frá keppni.

Í blálokin fengu bæði lið dauðafæri til að stela stigunum, en jafntefli varð niðurstaðan. Að líkindum sanngjörn niðurstaða, þótt Framarar hafi verið ívið betri í það heila tekið. Maður leiksins: Fred (Frederico Bello Saraiva), flinkur spilari sem verður gaman að fylgjast með í sumar. Næsta stopp Þróttur.

Stefán Pálsson

 

 

 

 

 

 

 

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email