fbpx
Fagn

Hjartasjúklingur reytir hænu

Þessa dagana hvíla augu Evrópu – og raunar stórs hluta heimsbyggðarinnar – á Portúgal. Ástæðan er vitaskuld Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, með öllum sínum glamúr. Að margra mati liggur fegurð keppninnar í græskulausu gamninu og öllum hrekklausu og hjartahreinu tónlistarmönnunum sem flytja bláeygt popp með einföldum textum um ást og heimsfrið.

Eitt sigurstranglegasta lagið í keppninni kemur frá Ísrael. Það er flutt af hnellinni konu í japönskum klæðnaði sem gaggar eins og hæna og leggur #metoo-byltingunni lið sitt. Ef júróvisjónlög væru íslensk fótboltafélög, þá væri ísraelska hænan Knattspyrnufélagið Þróttur. Meira um það á eftir.

Flestir fótboltaunnendur tengja hins vegar betur við Salvador Sobral, portúgalska söngvarann með ónýta hjartað sem sigraði í fyrra með fáheyrðum stigafjölda. Það er þó ekki söngstíllinn sem heillar okkur boltabullurnar, heldur attítjútið. Salvador Sobral er fullkomlega miskunarlaus í umsögnum um önnur Júróvisjónlög. Honum finnst þau drasl. Hann er maðurinn sem rústaði keppninni sem hann hatar. Aðeins sá sem hefur fylgt íslensku fótboltafélagi í blíðu og stríðu í áraraðir getur til fulls skilið fegurðina sem í þessu felst.

Og svo er Salvador Sobral líka Portúgali eins og félagi Hippólító!

Það var frábært veður og flott mæting á Þróttarvellinum í kvöld. Þegar við komumst að lokum upp úr þessari deild (7,9,13) á þessi fréttaritari eftir að sakna leiktímanna. Föstudagskvöld eru æðisleg fótboltakvöld og ekki spillir fyrir þegar gestgjafarnir eru höfðingjar heim að sækja, með grillmat í landsliðsflokki og álitlega ísskápa fulla af drykkjarföngum.

Það voru tvær breytingar á byrjunarliðinu frá því í sólskinshaglstormsleiknum á móti Selfossi. Dino var meiddur, en þurfti einmitt að yfirgefa völlinn síðast og Mikael Egill var kominn á bekkinn. Alex Freyr var hins vegar í byrjunarliðinu, en áhorfendur á síðasta leik áttu allt eins von á að hann yrði lengi frá vegna meiðsla.

Atli Gunnar stóð vitaskuld milli stanganna og var með Unnar Stein og Kristófer fyrir framan sig, auk Hlyns Atla sem færði sig aftur í miðvörðinn og átti hörkugóðan leik – skallaði allt frá sem til hans barst. Alex og Mihaljo, sem kom inn í byrjunarliðið hlupu svo upp og niður kantana. Heiðar Geir var aftastur á miðjunni með Tiago fyrir framan sig og Fred með fína yfirvaraskeggið sitt og Helga hvorn til sinnar hliðar. Guðmundur að sjálfsögðu fremstur.

Okkar menn byrjuðu vel og náðu þegar upp góðu spili, með mörgum snertingum, fínum gabbhreyfingum og flottum hlaupum. Sá brasilíski Fred var þar í lykilhlutverki, afskaplega flinkur og teknískur leikmaður sem greinilega kann betur við sig í blíðviðri en skafrenningi. Framarar virtust að vild geta aukið hraðann og stungið af svifaseina varnarmenn Þróttar og skapað stórhættu. Þegar á tíundu mínútu náði Alex að prjóna sig upp að endamörkum og senda fyrir á Helga sem skaut framhjá úr afbragðstækifæri og hefði mátt gera betur.

Ekki gafst mikill tími til að sýta þessa marktilraun, því á tólftu mínútu fengu Framarar aukaspyrnu vel fyrir utan teig, sem Fred sendi í fallegum boga beint á hausinn á Hlyni Atla sem skallaði beint á Guðmund sem afgreiddi boltann vandræðalaust í netið. Mark beint af æfingasvæðinu, en Þróttarar litu illa út.

Flautuglaðari dómari hefði ef til vill dæmt vítaspyrnu nokkrum mínútum síðar þegar einn Þróttarinn var að bolast og ýtti Tiago niður í teignum, en þessi dómari var seinþreyttur til vandræða eins og átti eftir að koma í ljós.

Mark númer tvö kom undir lok fyrri hálfleiksins. Það var líka eftir aukaspyrnu, sem að þessu sinni var tekin stutt, Fred prjónaði sig í gegnum vörnina og sendi fyrir, þar sem Guðmundur beygði sig niður og stangaði í netið. Fram var allt í einu komið með tveggja marka forystu og öll völd á vellinum. Liðið pressaði hátt á vellinum og átti auðvelt með að skapa sér færi. Heimamenn voru sárfegnir þegar flautað var til leikhlés, þar sem munurinn hefði hæglega getað verið meiri.

Framstuðningsmenn voru kátir, en þó örlítið tortryggnir í hléinu. Þróttararnir voru hins vegar furðu brattir og glaðsinna. Pistlahöfundur Framsíðunnar er með þá kenningu að Þróttarar séu betri manneskjur en gerist og gengur – og líklega væri heimurinn betri staður ef fleiri væru eins og Þróttarar. Ef það væru fleiri ísraelskar hænur í japönskum þjóðbúningum að gagga um ást og frið.

En það geta ekki allir verið góðar manneskjur. Þess vegna kjósum við flest að brynja okkur með kaldhæðni, sitjum stúrin þegar okkar lið er að tapa, finnst allt vera drasl og fyllumst óöryggi þá sjaldan okkur líður vel í hjartanu – viss um að hamingjan geti ekki enst og fljótlega muni karma bíta okkur í rassinn.

Frammistaðan í fyrri hálfleik var sú besta sem sá er þetta ritar hefur séð frá Framliði lengi og mun betra en það sem boðið var upp á allt síðasta sumar – fyrir utan kannski allt nema lokamínúturnar í bikarleiknum uppá Skaga. Hægt væri að hrósa mörgum, en ekki verður komist hjá því að nefna útlendingana þrjá sérstaklega. Þegar Guðmundur fékk góðar sendingar, áttu Þróttarar ekki roð í hann og Alex átti frábæra spretti. Baráttan í Heiðari Geir var til fyrirmyndar og svona mætti lengi telja. Raunar áttu allir góðan leik.

Við hófum seinni hálfleikinn staðráðnir í að verja fenginn hlut. Það reyndist vandræðalaust fyrsta kortérið, en eftir um klukkutíma leik duttum við of langt til baka og Þróttarar fóru að skapa sín fyrstu færi. Hlaupin tóku líka sinn toll og á 73. mínútu fór Fred af velli fyrir Orra, sem er vonandi að ná sér af meiðslum.

Á 78. mínútu jukum við forystuna í 0:3, örlítið gegn gangi leiksins. Alex og Helgi splundruðu þar Þróttarvörninni. Alex var í fínu skotfæri en sendi knöttinn á Orra sem kom aðvífandi – honum tókst ekki að hemja boltann og sóknin virtist ætla að renna út í sandinn þegar Tiago kom aðvífandi og kórónaði góðan leik sinn með fallegri afgreiðslu.

Framarar á pöllunum voru farnir að gæla við fjórða markið, til að kvitta fyrir hraksmánarlegt tap á sama velli síðasta sumar, en í staðinn náðu heimamenn aðeins að klóra í bakkann, eftir fágætt einbeitingarleysi í Framvörninni. Undir blálokin voru tvær breytingar gerðar á liðinu. Tiago fór útaf fyrir Má og Helgi fyrir Arnór Daða. Lokamínúturnar fóru svo bara í að bíða eftir langþráðum ziggi-zagga, en framherji Þróttar fann þó tíma til að láta reka sig útaf á 95. mínútu eftir að hafa sýnt ítrekaða viðleitni til að næla sér í rautt spjald. Vel gert!

Toppsæti á markatölu! (Jájá, ég veit að það er bara hluti umferðarinnar búinn.) Framtíðin er björt, blá og portúgölsk. Maður leiksins: Tiago.

Stefán Pálsson

Fleiri myndir úr leiknum má sjá hér.

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!