fbpx
Gummi setur

Best í dönsku…

Þann sextánda maí árið 1983 eyðilagði Pétur Rasmussen dönskukennslu á Íslandi einn síns liðs. Þá kom út fyrsta tölublaðið af Andrési Önd og félögum á íslensku. Aðalhvati barna og unglinga til að lesa dönsku var úr sögunni. Með þverrandi áhuga á dönsku kóngafólki með tilheyrandi lestri „dönsku blaðanna“ var svo síðasti líkkistunaglinn rekinn. Þótt vísitöluunglingurinn læri dönsku í skóla í átta ár, nær enginn lengur þeirri færni að kaupa sér sígarettupakka eða ölflösku. Helvítið hann Pétur.

Fréttaritari Framsíðunnar er af síðustu kynslóðinni sem lærði dönsku af Anders And-blöðunum. Enn er minnisstæður fyrsti skóladagurinn í ellefu ára bekk, þar sem mætt var í fyrsta dönskutímann. Sá er þetta ritar hugsaði sér gott til glóðarinnar að læra loksins tungumál þeirra Andabæinga til fulls. Mikil var undrunin að fá kennslubókina í hendur – slá upp á fyrstu síðu… og svo upp á þeirri síðustu. Og allt í einu rann upp fyrir manni ljós: „Ég kann dönsku!“

Leikurinn í kvöld á móti Leikni fól í sér svipaða opinberun. Kæru Framarar: við erum bara helvíti góð í fótbolta!

Ekki þar fyrir að spilamennskan í dag var ekki nándar nærri eins flott og í fyrri hálfleiknum á móti Þrótti. Þar lékum við Sambabolta og tættum Þróttarana í okkur. En allir geta litið út eins og Brasilía í einum og einum hálfleik. Afrekið er að ná að afgreiða veikari andstæðinga á sannfærandi hátt án þess að eiga stórleik og án þess að gefa á sér nokkurt færi. Það tókst í kvöld.

Það var fjölmennt í Safamýri fyrir leik. Góður hópur mætti í kaffi og léttar veitingar í getraunastofunni og hlýddi á Óla aðstoðarþjálfara kynna byrjunarliðið. Þar kom nákvæmlega ekkert á óvart – óbreytt lið frá síðasta leik: Atli í markinu. Varnarlínan með Unnar, Hlyn og Kristófer – með Heiðar Geir fyrir framan sig. Alex og Mihaljo á köntunum. Fred og Helgi á miðjunni með Tiago á milli sín og Guðmund á toppnum. Á meðan Dino og Orri eru meiddir eða tæpir virðist þetta okkar sterkasta lið um þessar mundir og verður erfitt fyrir aðra leikmenn að sprengja sér leið inn í það.

Og það voru líka hamborgarar frá Kjöthöllinni, sem báru það með sér að alvöru ferfætlingur var drepinn við gerð þeirra. Vesalings flónin sem gera sér að góðu draslið sem boðið er upp á hjá flestum öðrum. Það er bara tímaspursmál hvenær Framvöllurinn fær sína fyrstu Michelin-stjörnu.

Fréttaritari Fótbolta.net lét þess getið í pistli sínum hversu góður andinn væri á vellinum og lýsti þeirri skoðun sinni að Fram ætti að leika alla leiki sína í Safamýri. Fyrirliðinn tók í sama streng eftir leik. Og miðað við stemninguna á vellinum er erfitt að vera ósammála. Vissulega er við þungt og ósveigjanlegt leyfiskerfi KSÍ að etja – en hver sá heimaleikur þar sem við þurfum ekki að þola hina dauðu hönd þjóðarleikvangsins er gleðiefni.

Leiknir er lið í krísu. Var spáð löku gengi fyrir mót of hafði tapað tveimur fyrstu leikjunum. Prýðilegur tími til að mæta þeim. Lið þeirra var varfærið, taugaveiklað og hafði greinilega enga trú á verkefninu.

Við byrjuðum þó ekki með neinum rakettum. Vorum mun meira með boltann og náðum upp þokkalegu spili úti á velli, en liðið var fjarri því eins beinskeytt og síðast. Þar skipti máli að Tiago og Fred höfðu sig mun minna í frammi en þá. Sá makedónski Mihaljo ákvað hins vegar að láta þeim mun meira til sín taka. Flestar sóknarlotur Fram í fyrri hálfleik hófust hjá honum og góðar stungusendingar fram á við settu Breiðholtsvörnina ítrekað í vanda.

Eftir um tuttugu mínútur voru óþolinmóðir Framarar í kvöldblíðunni nokkuð farnir að ókyrrast. Stöðulegir yfirburðir á vellinum virtust ekki skila sér í marktækifærum. Fréttaritari Framsíðunnar seildist í minnisbókina sína og skrifaði: bitlítið. Strikaði tvívegis undir – til að gefa þessum gildisdómi aukið vægi.

Enn sannaðist að fréttaritarinn er fábjáni þegar kemur að leikgreiningu, því einungis mínútu síðar kom löng og flott sending inn fyrir Leiknisvörnina – beint á Guðmund. Níu af hverjum tíu framherjum hefðu reynt að taka boltann niður og puðrað honum einhvern veginn yfir. Sem betur fer er Guðmundur í 10% hópnum (og kominn með 3 mörk í deildinni nú þegar – annars hefði hann alltaf skotið sjálfur) svo hann tók knöttinn með brjóstkassanum og beindi fyrir fætur Helga sem smellhitti hann í bláhornið. 1:0 fyrir Fram.

Gæfuleysið féll að síðum Leiknismanna, sem birtist meðal annars í því að eftir tæpan hálftíma misstu þeir fyrirliða sinn af velli óvígan eftir skallasamstuð. Að öðru leyti reyndist fyrri hálfleikur tíðindalítill, fyrir utan að þremur Frömurum tókst að næla sér í spjald – öllum fyrir litlar sakir. Í allt gaf dómarinn fimm gul spjöld, sem er með ólíkindum í leik sem var prúðmannlega leikinn og hefði hæglega átt að vera hægt að dæma án áminninga.

En úr því að talið berst að dómgæslu getur fréttaritari ekki hjá því komist að lýsa ánægju sinni með að sjá Viatcheslav Titov í hlutverki aðstoðardóma. Hann er vitaskuld bróðir  goðsagnarinnar Titovs, besta útlendings sem leikið hefur handbolta á Íslandi – sem og besta ljóðskálds og pitsusendils sem gegnt hefur stöðu línumanns. Lengi lifi Titov!

Getraunastofan hvellsprakk í leikhléi þegar Framherjar fjölmenntu til að drekka sitt kaffi og narta í sínar hörðu tebollur. (Áður er lengra er haldið skal viðurkennt að fréttaritarinn lagði ekki í röðina og hefur því enga ástæðu til að ætla að tebollur hafi verið í boði – hvað þá að þær hafi verið harðar.) Enginn kvartaði þó undan kræsingunum og kaffið var heitt. Ég ítreka fyrri kröfu um Michelin-stjörnuna.

Snemma í seinni hálfleik mátti litlu muna að Leiknismönnum tækist sjálfum að tvöfalda forystu okkar með glæsilegu skallasjálfsmarki, sem varið var á marklínu. Mínútu síðar negldi Guðmundur í slána eftir flotta sókn. Leiknismenn voru greinilega heillum horfnir og því brýnt að hamra járnið á meðan það væri heitt.

Mark númer tvö leit ekki dagsins ljós fyrr en á 64. mínútu. Mihaljo, sem er óðum að verða einn af uppáhaldsmönnum þess er hér stýrir lyklaborði, lék upp að endamörkum og sendi fyrir. Þar stukku samtímis upp varnarmaður Leiknis og Guðmundur Magnússon. Sá síðarnefndi hefur tekið bæði Lýsi og Sanasól og ryður svona smápjökkum til hliðar eins og ekkert sé, 2:0 og leikurinn búinn.

Fyrirliðinn okkar er þegar orðinn markahæstur í deildinni með fjögur mörk í þremur leikjum. Þau verða fleiri. Mun fleiri. Hann er miklu sterkari og margfalt grimmari en nær allir andstæðingarnir sem í boði eru í þessari deild. Það er líka frábært að sjá hvað Guðmundur, sem við Framarar höfum svo lengi vitað að býr yfir miklum hæfileikur, hefur vaxið við það að taka að sér fyrirliðastöðuna.

Á sjötugustu mínútu skráði fréttaritarinn fyrsta marktækifæri gestanna, skot sem Atli í markinu varði örugglega. Það er örugglega erfitt fyrir markvörð að hafa ekkert að gera nánast allan leikinn að þurfa svo að vera á tánum í þessar fáeinu sekúndur sem á mann reynir. Atli átti rólegan dag en í þessi örfáu skipti sem hann þurfti að beita sér, var það vel gert og fumlaust.

Fred fór af velli fyrir Orra þegar tuttugu mínútur voru eftir. Ekki óvænt, þar sem hann virðist yfirleitt farinn að þreytast upp úr miðjum seinni hálfleik. Það er mikill lúxus í þessari deild að hafa menn á kalíberi við Orra til að skipta inn af bekknum til að sigla leikjum í höfn.

Guðmundur var óheppinn að bæta ekki við markareikninginn með skalla sem fór rétt framhjá eftir fína sending frá Alex sem átti margar góðar rispur upp kantinn. Einni slíkri lauk á 77. mínútu með því að hann lék inn að vítateigsboga og lét vaða á markið, skotið hrökk hins vegar af Orra og í fallegum boga yfir Leiknismarkvörðinn, 3:0. Þeir Orri og Alex verða að slást í klefanum um hvor fær markið skráð á sig. Minn hundraðkall fer á Alex.

Mikill vill meira og margir Framarar á vellinum voru farnir að gæla við fjórða markið, sem kom þó ekki. Ekki mátti þó miklu muna að Helgi bætti við öðru marki sínu rétt við lok venjulegs leiktíma. Áður hafði Arnór Daði komið inná fyrir Mihaljo og í blálokin var Mikael skipt inná fyrir Helga.

Maður leiksins? Tjah, það væri auðvelt að nefna Guðmund – eða einhvern hinna markaskoraranna. Og auðvitað freistast maður til þess í þriggja marka sigri. En gleðiefni kvöldsins var kannski miklu frekar hvað vörnin var þétt og gaf andstæðingunum enginn tækifæri.  Hlynur er eins og kóngur í miðju varnarinnar. Unnar er ótrúlega traustur og Kristófer Reyes sló ekki feilnótu. Persónulegt uppáhald þess er þetta ritar var þó Heiðar Geir. Hann hefur séð þetta allt áður og kann þetta allt. Ef árið væri 1989 og ég fengi að ráða, hefði Heiðar Geir farið heim með geislaplötu frá Steinum og út að borða á Laugaási.

Þrjú : núll sigur á Leiknisliði, sem vissulega er ekki það sterkasta í deildinni, en er þó ekki alls varnað. Það er gott. Það er reyndar helvíti gott. Og vitiði hvað krakkar – við eigum bara ansi gott fótboltalið. Það verða töp og það verða vonbrigði í sumar, en allt í einu er þetta tímabil bara orðið svo miklu meira spennandi en horfur voru á fyrir bara örfáum vikum. Framtíðin er blá og með Kjöthallarhamborgurum.

Stefán Pálsson

 

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!