Lengi vel hafði fótboltaliðið Barcelona þá sérstöðu í fótboltaheiminum að leikmenn þess voru ekki með auglýsingu á vömbinni eins tíðkaðist hjá öðrum félögum. Skýringin var sögð sú að treyja félagsins væri mikilvæg táknmynd fyrir Katalóníu alla og ekki mætti leyfa kaupahéðnum að saurga hana. En kapítalisminn lætur ekki að sér hæða. Einhver skúnkurinn á markaðsdeild stórliðsins lét sér koma í hug snjöll flétta: fyrst var sett ókeypis auglýsing fyrir Unicef framan á bolinn – hver gæti líka verið á móti barnahjálp Sameinuðu þjóðanna? Þegar auglýsingin hafði vanist var svo glæpurinn fullkomnaður og arabafurstum í Katar selt auglýsingaplássið fyrir enn eina auglýsingaherferðina þar sem olíuskrilljónerarnir þykjast vera góðir en eru svo bara vondir.
Þetta Unicef-trikk er elsta brellan í bókinni. Fyrir löngu síðan, áður en fótboltaheimurinn var orðinn jafngegnsýrður af auglýsingaskrumi, kostunum og duldum áróðri og síðar varð, varð enska deildarbikarkeppnin sér út um kostunaraðila – og til að tryggja sig fyrir neikvæðri umræðu var samið við hina bresku Mjólkurdagsnefnd og keppt um Mjólkurbikarinn. Hver getur verið á móti því að börn drekki mjólk sem styrkir tennur og bein?
Á Íslandi fengum við líka Mjólkurbikar á ofanverðum níunda áratugnum. Keppnin um hann bauð líka upp á það ungæðingslega grín að sigurvegararnir slettu úr mjólkurfernum hver yfir annan í leikslok. Það var löngu áður en klámkynslóðin var búin að planta hjá okkur ranghugmyndum sem gerði slíkt myndmál óþægilegt og fráhrindandi.
Og núna er aftur keppt um mjólkurbikar. Nema í kvöld afhjúpaði hann sig sem súrmjólkurbikar og púðursykurinn var búinn.
Framarar mættu með breytt lið frá ergilega tapinu gegn Þór á Akureyri í síðasta deildarleik. Alex meiddist illa í leiknum og verður frá í fáeinar vikur. Fred byrjaði á bekknum, ennþá lemstraður eftir hörkulega meðferð Norðanmanna. Glöggir lesendur Framvefsins söknuðu e.t.v. umfjöllunar um þann leik, en fréttaritari síðunnar fór ekki norður. Hann er kannski á rófi, en ekki snar. Auk þess sem fjölskyldubíllinn er kominn á sumardekk.
Atli stóð í markinu með þriggja manna varnarlínuna Kristófer Reyes, Hlyn Atla og Arnór Daða fyrir framan sig. Heiðar í atinu aftast á miðjunni, Mihaljo og Már Ægisson hvor á sínum kanti, Orri og Tiago frammi á miðjunni og Guðmundur og Helgi fremstir. Rökrétt uppstilling miðað við tiltækt lið, en þó vakti athygli að sjá Unnar á bekknum þar sem hann hefur staðið sig með prýði í sumar.
Fyrstu tuttugu mínúturnar voru tíðindalitlar og Framarar á pöllunum skröfuðu um daginn og veginn – öndvegishamborgarana, sem steiktir voru af natni og kryddaðir með hárnákvæmum skammti af MSG. Heimaleikirnir í Safamýri verða sífellt heimilislegri, þótt enn eigi eftir að upphugsa ýmis tæknileg smáatriði – t.d. eins og hvort skynsamlegra væri að hafa miðasöluna í aðalinngangnum í stað þess að leiða alla miðakaupendur í gegnum hamborgararöðina o.s.frv.
Sannast sagna voru gestirnir sterkari á þessum upphafskafla. Frömurum tókst ekki nægilega vel að ná upp spili og það var eins og grimmdina vantaði hjá sumum leikmönnum. Víkingar gátu á hinn bóginn sótt hratt upp völlinn, en sköpuðu sér svo sem lítið.
Um miðjan fyrri hálfleikinn virtust okkar menn ætla að finna rétta taktinn og náðu nokkrum bærilegum sóknarlotum. Á 32. mínútu komst Mihajlo upp að endamörkum og sendi fyrir, en boltinn fór beint í útrétta hönd eins Ólsarans. Dómarinn var ágætlega staðsettur en sá ekki ástæðu til að dæma víti. Gestirnir sluppu því vel. Ekki síðasta ákvörðun dómarans sem orkaði tvímælis í leiknum.
Þessi ágæti kafli reyndist svikalogn, því á 36. mínútu tókst Víkingum að prjóna sig vandræðalítið í gegnum vörnina og skora auðveldlega, 0:1. Kröftug tveggjafótatækling Heiðars Geirs undir lok hálfleiksins hefði getað endað með rauðu spjaldi, en Egill Arnar dómari lét gult nægja.
Ekkert hefðbundið Framherjakaffi í leikhléi. (Hef aldrei skilið þessa skýru aðgreiningu á milli deildarleikja og bikarleikja – en er svo sem ekkert of góður til að kaupa mér kaffi og kleinu í þessi fáeinu skipti á hverju sumri.) Framarar voru bara nokkuð brattir. Gestirnir kannski ívið meira ógnandi, en þó engin ástæða til annars en að snúa þessu við í seinni hálfleik.
Á 50. mínútu dró til tíðinda. Leikmaður Víkinga braut á Guðmundi og aukaspyrna var dæmd. Eftir því sem fréttaritari gat best greint (með hefðbundnum fyrirvörum um að hann er hálfgerður vitleysingur og veit lítið um fótbolta) greip Ólsarinn um andlitið og lét sem sín hinsta stund væri komið. Virtist Guðmundur hafa spyrnt frá sér boltanum sem hraut framan í Víkinginn sem snýtti rauðu. Dómarinn hafði augljóslega ekki tekið eftir neinu og leit forviða á aðstoðardómarann sem hafði ekkert séð… en úr því að Víkingurinn lá lengi og hafði fengið blóðnasir ákvað Egill Arnar að gefa Guðmundi gula spjaldið. Sérkennileg ákvörðun, því í fyrsta lagi hafði hann augljóslega enga hugmynd um hvað gerst hefði og í öðru lagi hefði hann átt að lyfta rauða spjaldinu ef hann taldi að Guðmundur hefði sparkað boltanum viljandi í andlit andstæðingsins.
Upp úr aukaspyrnunni barst boltinn í miðjan vítateig Ólsara, þar sem Guðmundur kom aðvífandi og bjó sig undir að skalla – en fékk olnbogaskot í andlitið. Ekkert dæmt og engin vítaspyrna. Nokkrum mínútum síðar kom Fred inná fyrir Helga, sem var langt frá sínu besta. Augljóst var þó að Fred gekk ekki heill til skógar og sýndi lítið í leiknum.
Þegar rétt rúmur klukkutími var liðinn af leiknum lentu Guðmundur og Emir í liði Víkinga í hörkusamstuði á miðjum vallarhelmingi gestanna. Emir renndi sér en Guðmundur fór standandi í tæklinguna og frá sjónarhorni okkar í stúkunni var það sá fyrrnefndi sem var brotlegur. Báðir lágu meiddir eftir og þurftu aðhlynningu, á meðan dómarinn tvísté, horfði til beggja aðstoðardómara sinna en fékk enga hjálp þaðan. Að lokum ákvað hann að dæma Guðmund brotlegan og lyfti gula spjaldinu öðru sinni og þar með því rauða. Emir, sem legið hafði sárþjáður, fékk skjóta lækningu meina sinna og gat sjálfur tekið aukaspyrnuna með meidda fætinum og skotið yfir hálfan völlinn.
Manni færri virtust Framarar slegnir út af laginu og Víkingar fengu dauðafæri þar sem framherji þeirra komst einn á móti Atla markverði sem varði frábærlega. Atli átti raunar mjög góðan leik með þrjár mjög góðar vörslur, gat ekkert gert að markinu en átti að öðru leyti frekar náðugan dag. Tveimur mínútum síðar skapaðist aftur stórhætta, en Arnór Daði bjargaði andliti Fram með sínu eigin andliti – setti hausinn fyrir skot eins Ólsarans úr dauðafæri. Arnór Daði átti annars mjög góðan leik í kvöld og var mögulega bestur okkar manna – einkum eftir að Guðmundur fór af velli.
Á 75. mínútu var enn eitt umdeilt atvik. Orri virtist sloppinn í gegnum Víkingsvörnina, en Vignir Snær í Víkingsliðinu tók hann niður. Frá sjónarhorni fréttaritara var þetta reyndar lögleg og fantagóð tækling. Dómarinn flautaði hins vegar aukaspyrnu, sem hefði alltaf átt að þýða rautt spjald – en einhverra hluta vegna lét hann gult spjald nægja.
Á síðustu tíu mínútunum fór Már, sem átti fínan leik, útaf fyrir Sigurð Þráinn sem gaman var að sjá aftur – og nú í óvæntri stöðu sem framherja síðustu mínúturnar. Sú staða var þó kannski fremur til marks um hvað bekkurinn okkar er þunnskipaður en að Siggi sé næstfyrsti kostur í senterinn. Kristófer skipti svo við Mikael undir lokin.
Lokamínúturnar buðu annars upp á mikla dramatík. Vitleysisgangur í vörninni gaf Víkingum dauðafæri, en Atli var vel á verði. Skömmu síðar átti Orri gott skot en rétt framhjá markinu. Dómarinn veifaði seinna gula spjaldinu á Víkinginn Vigni fyrir sáralitlar sakir og náði þannig tveimur rauðum og fimm gulum spjöldum í leik sem var að mestu prúðmannlega leikinn og því algjör óþarfi að missa í einhverja vitleysu.
Til að fullkomna dramatíkina kom svo upp vafaatriði á fimmtu mínútu uppbótartíma þar sem Víkingum mistókst með fádæma aulagangi að hreinsa frá marki sínu og velflestum Frömurum sýndist þeir hafa skorað aulalegt sjálfmark. Dómari og línuvörður voru hins vegar á öðru máli og hljótum við að gera ráð fyrir því að það hafi verið rétt niðurstaða.
Góðu fréttir kvöldsins eru sem sagt þessar: baráttan fyrir að Fram leiki sem fæsta leiki á Laugardalsvelli í sumar gengur vel. Í kvöld tókst okkur a.m.k. að losna við bikarúrslitaleikinn. Lítill fugl hefur líka hvíslað því að leyfiskerfi UEFA sé jafnvel enn stífara en leyfiskerfi KSÍ svo að við hefðum aldrei fengið að spila í Evrópudeildinni í Safamýri. Vondu fréttirnar eru þær að þrátt fyrir hæpna úrskurði dómarans í kvöld, þá getum við ekki kennt honum um úrslitin. Ólsarar voru sterkari og okkar menn ekki eins grimmir og þarf. Næsta verkefni: mala Skagamenn á sunnudaginn. Þar verður Guðmundur með, þökk sé hinum asnalegu reglum KSÍ um að spjöld í bikarkeppni telji ekki í deild.
Stefán Pálsson