Knattspyrnufélagið FRAM hefur farið yfir málið og tekur það mjög alvarlega. Búið er að ræða við þann einstakling sem viðhafði ósæmileg orð um litarhátt leikmanns Víkinga og tryggja að svona uppákoma verði ekki aftur enda yðrast viðkomandi að hafa látið þessi orð falla.
Í jafnréttisstefnu FRAM stendur:
“Knattspyrnufélagið FRAM stuðlar að jöfnum tækifærum sinna félagsmanna og mismunar ekki vegna kynferðis, uppruna, kynhneigðar, kynvitundar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða, skoðana, litarháttar eða annarrar stöðu. FRAM leggur áherslu á gagnkvæma virðingu í öllu starfi. Niðurlægjandi framkoma svo sem einelti, ofbeldi, kynferðisleg áreitni, illt umtal og ósæmilegar vígsluathafnir er ekki liðin innan félagsins.”
FRAM mun reyna af öllum kröftum að tryggja að svona komi ekki fyrir aftur og mun með opinni umræðu í félaginu beita sér í þeim efnum. FRAM getur ekki sætt sig við svona framkomu og ætlar ekki að gera það.
Í framhaldi af því ferli sem við fórum í þá hefur Kristleifur Kolbeinsson sent okkur eftirfarandi yfirlýsingu.
“Ég undirritaður Kristleifur Kolbeinsson harma mjög þau ummæli sem ég viðhafði um leikmann Víkings Ó í leiknum gegn FRAM á miðvikudag.
Þau eru óafsakanleg, eiga ekki að heyrast og erfitt að horfast í augu við það að þau hafi verið látin falla.
Ég bið alla leikmenn Víkings Ó, þjálfara, aðstandendur liðsins svo og stuðningsmenn beggja liða innilega afsökunar.
Ég vona að þessi orð hafi ekki valdið viðkomandi leikmanni skaða þó ég átti mig á alvarleika málsins.
Ég vil biðja félagið mitt FRAM, afsökunar og vona að ég hafi ekki valdið félaginu skaða því ég veit að svona hegðun er ekki það sem FRAM vill standa fyrir”.
Reykjavík 1. júní 2018
Kristleifur Kolbeinsson
Knattspyrnufélagið FRAM ætlar ekki að aðhafast frekar í þessu máli að öðru leiti en fram kemur hér að ofan. Við trúum því að allir hafi lært eitthvað af þessu máli og vonum að svona komi aldrei aftur upp í okkar félagi.
F.h. Knattspyrnufélagsins FRAM
Sigurður Ingi Tómasson Formaður