Árið 2001 sendi Witold Rybczynski frá sér hina bráðskemmtilegu tæknisögubók „One Good Turn“, sem rakti sögu skrúfjárnsins og skúfugerðar frá öndverðu til okkar daga. Að mati Rybczynskis var skrúfjárnið markverðasta tæki sem mannkynið fann upp á síðustu þúsöld og færir hann góð rök fyrir því mati sínu í verkinu.
Snjöll íslensk þýðing á titli bókarinnar væri „Vantar hersluminn“, sem hefði verið góð yfirskrift á þessa leikskýrslu. En þar sem lið dagsins voru fagurlega blá- og gulklædd svo minnti helst á sænsku fánalitina, kom varla annað til greina en að troða IKEA-tilvísun í fyrirsögnina. Langsótt? Kannski, en smellnara fáið þið það ekki á þreytulegum sunnudegi.
Það voru örlítið taugaveiklaðir Framarar sem mættu til leiks gegn liðinu frá landinu þar sem allir heita Þórður eða Stefán en þó helst blanda af hvoru tveggja. Skagamönnum hefur verið spá yfirburðum í deildinni og að úrvalsdeildarsætið yrði tryggt fyrir verslunarmannahelgi. Fyrstu tuttugu mínúturnar réðu gestirnir lögum og lofum á vellinum og spurningin virtist heldur hvenær en ekki hvort ísínn brysti.
Kristófer Reyes tók út leikbann eftir rauða spjaldið á Akureyri um daginn og þeir Dino og Alex eru enn á sjúkralistanum. Atli stóð í markinu með þá Arnór Daða, Hlyn og Unnar, sem aftur er kominn inn í liðið, fyrir framan sig í vörninni. Mihaljo og Már voru hvor á sínum kanti. Heiðar Geir aftastur á miðjunni, Orri, Tiago og Fred þar fyrir framan og Guðmundur á toppnum. Helgi byrjaði á bekknum en að öðru leyti var byrjunarliðið fyrirsjáanlegt.
Sem fyrr segir byrjuðu Skagamenn mun betur og Atli þurfti að taka á honum stóra sínum á fimmtándu mínútu þegar einn Þórðurinn (nema hann hafi heitið Stefán) slap einn í gegn. Í hornspyrnunni í kjölfarið sló Atli knöttinn vel frá marki, en náði í leiðinni að kýla Arnór Daða kaldan. Hann var borinn af velli og fluttur á braut í sjúkrabíl – vonandi var þar bara um varúðarráðstöfun að ræða og Arnór hrissti þetta skjótt af sér.
Á tuttugustu mínútu varði Atli aftur vel, þegar sakleysislegur bolti frá Skagamönnum flaut einhvern veginn í gegnum alla vörnina og stefni í markhornið. Almennt séð var Atli einn okkar allra besti maður í dag og kemur mjög öflugur til leiks í sumar.
Um miðbik fyrri hálfleiksins var sem rofaði til í kollinum á leikmönnum Framliðsins að andstæðingarnir væru ekki Brasilía, þótt gulklæddir séu. Meiri skynsemi komst í spilið og okkar mönnum tókst að skapa sér talsvert pláss á miðjunni, sem og að sækja upp kantana. Ástæða er til að hrósa þar sérstaklega Má Ægissyni, sem virðist vera að festa sig í sessi í byrjunarliðinu.
Á 27. mínútu átti Már einmitt fína fyrirgjöf sem Guðmundur var nærri búinn að koma í netið. Fyrsta færi Framara í leiknum sem eitthvað kvað að, en ekki það síðasta. Guðmundur var að venju ógnandi í framlínunni, en hvimleitt er að sjá hvern dómarann á fætur öðrum láta hann gjalda styrks síns og líkamsburða. Það að pervisnir varnarmenn hrjóti af honum eins og flugur er einfaldlega til marks um að hann sé duglegur að borða Lýsi og Sanasól og því óþarfi að flauta í tíma og ótíma. Á sama hátt á andstæðingum ekki að líðast að brjóta á honum, hrinda og toga í sífellu – þetta er ekki handbolti!
Á 35. mínútu átti Fred flotta stungu innfyrir, sem Orri var nærri búinn að ná og komast einn í gegn. Sá brasilíski átti almennt ágætan leik, en ekki er laust við að maður sakni dálítið stórhættulegu aukaspyrnanna og sendinganna frá Þróttarleiknum fyrr í vor. Undir lok hálfleiksins virtist brotið á Guðmundi innan teigs, en ekkert dæmt. Skagamaðurinn við hliðina á fréttaritara hallaðist að því að um víti hefði verið að ræða. Margt ljótt má segja um Skagamenn, en ósannsöglir eru þeir ekki. Framararnir í stúkunni voru á sama máli og ekki ljúgum við!
Kaffi og tebollur í leikhléi. Formaður KSÍ var mættur í bakkelsið. Vonandi kippir hann í spotta til að tryggja að Fram fái áframhaldandi leyfi til að spila í Safamýri í sumar. Ekki viljum við að Guns N´Roses þurfi að koma fram á niðurtroðnu grasinu. Duff McKagan er víst mjög viðkvæmur fyrir slíku.
Seinni hálfleikur var nýbyrjaður þegar ógæfan reið yfir. Andartaks einbeitingarleysi í vörninni gerði það að verkum að einhver Þórðurinn eða Stefáninn komst upp að endamörkum, sendi út í teig og þar kom leikmaður með skammstöfunina Þ.Þ.Þ. (þau eru ekkert að grínast með þetta!) og afgreiddi snyrtilega í netið. 0:1.
Á 67. mínútu heimtuðu Framarar víti þar sem boltinn virtist fara í gulklædda hönd. Dómari og línuvörður hristu höfuð. Kveinstafir okkar stóðu enn sem hæst þegar Guðmundi var kippt niður í teignum. Dómarinn lét leikinn halda áfram, en fór að lokum eftir bendingu línuvarðar (sorrý Gylfi, aðstoðardómara) og dæmdi víti. Guðmundur sem yfirleitt er afar örygg vítaskytta tók stutt tillhlaup en spyrnan var slök og auðveldlega varin. Skrambinn!
Helgi kom inná fyrir Orra skömmu síðar, en setti ekki sérstaklega mark á leikinn. Tíu mínútum fyrir leikslok var stuggað við Hlyni Atla í Skagavítateignum en ekkert dæmt, enda ein af óskráðum reglum dómgæslunnar sú að hafi lið fengið eitt víti í leik dugar helst ekkert minna en aflimun og stórfelld líkamsárás til að fá annað. Undir blálokin kom Mikael Egill svo inná fyrir Fred sem var orðinn kúguppgefinn.
Þriðja tapið í röð staðreynd – tölfræði sem ætti undir venjulegum kringumstæðum að valda mönnum verulegum áhyggjum. Leikur Framara var þó miklu betri nú en í bikarleiknum á miðvikudag. Takist okkur að halda hinum fáliðaða hópi okkar tiltölulega heilum er engin ástæða til að hafa áhyggjur. Það vantar bara herslumuninn. Einn hring enn á sexkantinum.
Fréttaritari Framsíðunnar er annars með böggum hildar yfir að hafa gert þau kjánalegu byrjendamistök að bóka sig í vinnu næsta föstudagskvöld. Það verður því engin skýrsla frá Njarðvíkurleiknum. Er síða 390 á Textavarpinu ekki örugglega ennþá virk?
Stefán Pálsson