fbpx
Gummi gegn Selfoss

Strit umfram vit

Die protestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus eftir þýska félagsfræðinginn Max Weber er eitt áhrifamesta verk á sviði stjórnmálaheimspeki á fyrri hluta tuttugustu aldar. Í bókinni leitast Weber við að skýra hvers vegna nútímakapítalsimi kom fram í Norður-Evrópu en ekki til að mynda sunnar í álfunni. Tilgáta hans er sú að ástæðurnar séu trúarlegar. Að vinnusiðferði mótmælenda hefði skapað frjórri jarðveg fyrir kapítalíska markaðshætti.

Pistlahöfundur Framsíðunnar er enginn KFUM-maður og raunar kvæntist hann í heiðinni athöfn. En hann er þó óneitanlega afurð þess félagslega umhverfi sem hann er sprottinn úr. 43 ára samlíf með lúterskum vinnumaurum hlýtur að hafa mótandi áhrif. Það var þess vegna sem greinarhöfundur réð sig í vinnu í kvöld – á sama tíma og Framarar héldu til Njarðvíkur.

Góðu fréttirnar voru þær að vinnan gekk hratt fyrir sig og yðar einlægur var stokkinn upp í metandrifinn heimilisbílinn og á meðan fyrri hálfleikur stóð ennþá yfir, geystist eftir Reykjanesbrautinni og náði á Njarðtaksvöllinn þegar vallarklukkan sýndi 52 mínútur. Allt sem gerðist fyrir þann tíma er því vegið og léttvægt metið í þessari leikskýrslu – líka Njarðvíkurmarkið á sjöttu mínútu.

Um leið og lafmóður ökuþórinn hafði klifrað upp í stúku, var Heiðar Geir að fara meiddur af velli. Af göngulaginu að dæma gæti verið um nárameiðsli að ræða, sem væru vondar fréttir fyrir þunnskipað liðið. Sigurður Þráinn kom inná fyrir Heiðar Geir og tók stöðu hans fyrir framan vörnina.

Atli var annars í markinu, varnarlínan Unnar Steinn, Hlynur Atli og Kristófer. Mihaljo og Orri á köntunum. Tiago, Helgi og Fred á miðjunni og Guðmundur fremstur. Hvort þessi lýsing fangi fullkomlega hin fínni smáatriði í leikkerfinu skal ósagt látið, Hver nennir líka að pæla í leikkerfum þegar það er rúmur hálftími eftir, í suðurnesjanepju og liðið manns að tapa?

Framarar á pöllunum voru allt annað en kátir á svipinn. Að þeirra sögn hafði fyrri hálfleikurinn verið tóm hörmung, þar sem afleitlega gekk að koma boltanum á samherja. Sendingarnar voru óskynsamlegar og illa framkvæmdar, sóknirnar ómarkvissar, miðjumennirnir tóku alltaf einni sneringu og mikið og meira að segja innköstin voru ólögleg. Þetta var þannig leikur.

Ekki þurfti að horfa lengi til að sjá að lýsingin var réttmæt. Framliðið átti vondan dag og virtist ekki líklegt til að skora. Það hindraði Njarðvíkinga þó ekki í að stressast og koma sér í klandur, milli þess sem liðið notaði hvert tækifæri til að tefja leikinn með gaufi og drolli. Njarðvík hefur tapað mörgum stigum það sem af er sumri með mörkum á lokamínútunum og það er greinilega farið að taka sinn toll af sjálfstraustinu. Sannast sagna hefði sama spilamennska og Framarar hafa sýnt í flestum leikjum í sumar nægt til að brjóta þá grænklæddu auðveldlega á bak aftur.

Seinna mark Njarðvíkinga var að mörgu leyti lýsandi fyrir leikinn. Framarar reyndu að sækja, en Fred – sem var engan veginn sjálfum sér líkur – var að gaufa með boltann, lenti í klandri og fleygði sér svo til jarðar í von um aukaspyrnu sem hann fékk ekki. Njarðvíkingar  negldu fram og sóknarmaður þeirra náði skoti í Hlyn og í fallegum boga yfir Atla í markinu. Klaufalegt en viðeigandi.

Ekkert benti til að okkur ætlaði að takast að klóra okkur aftur inn í leikinn, en örfáum mínútum síðar lá boltinn samt í Njarðvíkurmarkinu. Uppskriftin var einföld blanda: dass af óákveðnum varnarleik andstæðinganna og slurkur af ákveðni og hörku í Guðmundi Magnússyni, 2:1.

Framarar sóttu hálfmáttleysislega og Njarðvíkingar reyndu að verja fenginn hlut, meðan gramir Framstuðningsmenn einbeittu sér að því að tuða yfir fremur ósannfærandi dómara leiksins. Tíminn virtist ætla að renna út, en á 88. mínútu rataði sending, sem pistlahöfundur vildi eigna Tiago en Fotbolti.net skrifar á Unnar, í gegnum Njarðvíkurvörnina og á Guðmund sem þrumaði í markhornið. Tvö mörk frá fyrirliðanum, meira er varla hægt að biðja um. 2:2.

Fred fór af velli fyrir Má, en fyrr í leiknum hafði Mikael Egill komið inn fyrir Helga.

Einhverra hluta vegna hafði jöfnunarmarkið þau áhrif að grænklæddir tóku að hlaupa hraðar og hætta að drolla í markspyrnum. Bæði lið vildu sækja öll stigin og í uppbótartíma virtist okkur ætla að takast að fullkomna glæpinn þegar Orri komst í hörkufæri en negldi rétt framhjá. Það voru þó heimamenn sem komust nær því með tvöföldu dauðafæri á lokasekúndunum, þar sem Atli varði stórkostlega.

Það er alltaf dálítið gaman að næla í jafntefli eftir að hafa lent 2:0 undir og eftir síðustu leiki veitti okkur ekki af stiginu, en frammistaðan í kvöld var þó sú daprasta í allt sumar. Verðum að gera betur gegn Haukum á þriðjudag, annars fer illa.

Stefán Pálsson

 

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Karfa0
There are no products in the cart!
Halda áfram að versla
0