Við Hagamel í Vesturbænum, steinsnar frá vettvangi „atviksins“ frá 1995, er lítill verslunarkjarni. Þar var um árabil starfrækt bókabúðin Úlfarsfell, sem þraukaði lengi með því að reka jafnframt framköllunarþjónustu. Öðru megin við það verslunarrými hefur lengi verið blómabúð – þar sem Vigdís Hauksdóttir vann um tíma áður en hún fór í pólitíkina. Löngu fyrr var þar knæpan Haukur í horni. Það gerði ekki mikið fyrir orðspor ungra manna að sjást detta þaðan út á mánudagsmorgni.
Í sama verslunarkjarna hefur verið starfrækt ísbúð lengur en elstu menn muna: Ísbúð Vesturbæjar. Hún hefur öðlast gott orðspor. Raunar svo gott að klókir fjárfestar opnuðu keðju Ísbúða Vesturbæjar þvers og kruss um bæinn. Þess vegna má nú finna Ísbúð Vesturbæjar við Grensásveginn.
Hvernig kemur þetta allt við sögu þessa? – kynni nú einhver að spyrja. Það er nú ekki flókið. Sessunautur fréttaritara á Framleikjum hefur um langt árabil haft þá vinnureglu að stoppa í ísbúðinni á leiðinni heim eftir sigurleiki og kaupa ís fyrir sína ektakvinnu. Þetta er góð regla og rökrétt. Þannig samgleðst makinn í sigurleikjum bláklæddra og rjómaframleiðendur hagnast ekki á óförum Framliðsins.
Íshorfurnar virtust raunar daprar fyrstu tuttugu mínúturnar af leiknum gegn Haukum í kvöld. Gestirnir mættu mun sprækari á þjóðarleikvanginn og okkar menn sýndust líkari hörmunginni í Njarðvík á dögunum en því sem við fengum að sjá í byrjun þessa Íslandsmóts. Öfugt við Suðurnesjanepjuna gátum við hins vegar ekki kennt veðrinu um. Sjaldséð blankalogn var í Laugardalnum og ellefu stiga hiti. Fyrstu tuttugu mínúturnar fóru meira að segja fram í sól… sem vekur upp spurningar um orsakasamhengi.
Agnarsmái leikmannahópurinn okkar þynnist sífellt. Arnór Daði er enn utan liðsins eftir heilahristinginn sem hann fékk á móti ÍA og Heiðar Geir er meiddur eftir Njarðvíkurleikinn og hætt við að það verði bið í hann aftur.
Atli var vitaskuld í markinu. Unnar, Hlynur og Kristófer Reyes mynduðu þriggja manna baklínuna með Sigurð Þráinn í hinu hefðbundna hlutverki Heiðars Geirs. Hann sinnti því frábærlega í leiknum og sló varla feilnótu. Mihajlo og Már á köntunum. Orri og Tiago framarlega á miðjunni með Fred þar fyrir framan og Guðmund á toppnum.
Sem fyrr segir byrjuðu Haukar betur og Framvörnin virtist ótraust. Eftir um átján mínútur mátti minnstu muna að illa færi þegar Atli mátti hafa sig allan við að verja óvænt skot í stöngina og aftur fyrir. Við beturvitarnir í tómlegri stúkunni litum hver á annan og kenndum leikvanginum um.
En þá hvarf sólin og okkar menn byrjuðu að vinna sig almennilega inn í leikinn. Sendingarnar urðu betri og nákvæmari og einhvern veginn fengu Framarar ótrúlega mikið pláss á miðjunni, þrátt fyrir að spilið væri alls ekki mjög hratt. Nokkrum sinnum tókst kantmönnunum að sprengja sér leið upp að endamörkum og senda fyrir, en þar vantaði ýmist bláar treyjur eða skotin og skallarnir fóru yfir og framhjá. Framherjar voru því farnir að búa sig undir markalausan fyrri hálfleik og leituðu að skírteinunum sínum, til að komast í kaffibollann (sem var heimilislega vondur) og þurru snúðana, þegar Guðmundur átti skalla sem varnarmenn Hauka náðu að hreinsa út fyrir teig – þar sem Tiago kom aðvífandi og skaut í fallegum boga á mitt marki – og raunar beint í áttina að Haukamarkmanninum, sem náði ekki að slæma hönd í hann. 1:0, frábært mark.
Tiago var ekki hættur í markaskoruninni. Þegar fimm mínútur voru liðnar af seinni hálfleik, áttu þeir Guðmundur glæsilegt þríhyrningaspil inn í Haukavítateiginn, Tiago lék svo á 1-2 rauðklædda og afgreiddi knöttinn fallega í netið. 2:0 og gaman að vera til.
Þótt Haukar fengju stöku færi, var himinhrópandi munur á liðunum tveimur allan seinni hálfleikinn. Framarar höfðu sjálfstraust og byggðu upp hverja sóknina á fætur annarri. Haukar voru máttlausir og farnir að rífast hver í öðrum eftir um klukkutíima leik. Rétt eftir eina slíka snerruna breyttum við stöðunni í 3:0, eftir flott samspil hjá Mihajlo, Orra og Freds, sem endaði á að skora. Græðgisgrísirnir í stúkunni heimtuðu fjórða markið. Ísseljurnar á Grensásveginum tóku fram rjómablönduna.
Þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka gerðu Haukar þrefalda breytingu sem hafði nákvæmlega ekkert að segja. Um leið skiptu Framarar Helga inná fyrir Fred, til að fá ferskar fætur fyrir lokaátökin.
Fáránlega litlu munaði að markafleygurinn (sem hefur um þessar mundir að geyma 10 ára Ardbeg) tæmdist fimm mínútum fyrir leikslok þegar markvörður Hauka brá sér í skógarferð, Guðmundur vann knöttinn af harðfylgi en skaut í utanverða stöngina. Tveimur mínútum síðar komst Helgi einn í gegn, en lék upp að endamörkum og skot hans dansaði eftir marklínunni.
Eftir þessi tvö dauðafæri kom það hins vegar í hlut Hauka að minnka muninn í 3:1 eftir þvögu, þar sem Atli varði vel en Haukar náðu að lokum frákastinu. Markið kom alveg í lok venjulegs leiktíma en áður en dómarinn flautaði til leiksloka fékk Guðmundur dauðafæri til að bæta enn á markareikning sinn, en virtist augljóslega togaður niður í teignum.
Afar sannfærandi sigur eftir smá dýfu í úrslitum síðustu leikja. Og markaskorarinn Tiago maður leiksins. Ekki bara út af mörkunum, heldur líka goða frammistöðu úti á vellinum. Með svona frammistöðu þurfa mjólkurframleiðendur ekki að kvíða sumrinu. Næsti leikur er á móti ÍR – spurning um að breikka Grensásveginn aftur tímabundið í tengslum við hann?
Stefán Pálsson