Þegar fréttaritari Framsíðunnar var ungur drengur, fékk hann reglulega að heyra söguna um litla drenginn í útlöndum sem batt rautt lak um hálsinn, taldi sig vera Súpermann og stökk svo fram af svölum í fjölbýlishúsi.
Ekki er alveg ljóst hvaða uppeldisfræðilega tilgangi þessi saga átti að gegna. Mögulega var hún talin hafa eitthvað forvarnargildi til að vara ungmenni við því að apa eftir því sem gerðist í bíómyndum. Ef til vill var boðskapurinn sá að framleiðendur afþreyingarefnis bæru einhverja siðferðislega ábyrgð á áhrifum þess á viðtakendur. Og kannski gekk hún bara út á að útlensk börn væru slefandi fávitar.
En það eru fleiri en hrifnæmir krakkar sem eltast við fyrirmyndirnar úr sjónvarpinu. Fullorðnir fótboltamenn gera það líka. Í kringum hvert einasta stórmót í knattspyrnu verður vart við það að íslenskir fótboltamenn og áhorfendur reyni með misjöfnum árangri að apa eftir sjónvarpinu. Stundum er útkoman bara kátleg – eins og þegar 500 hræður í stúku Laugardalsvallar reyna að framkalla mexíkósku bylgjuna. Í öðrum tilvikum er útkoman mun verri.
Fyrr í dag mættust Úrúgvæ og Sádi Arabía á HM. Úrúgvæ í fallegu bláu búningunum sínum er kannski ekki besta liðið á mótinu, en þó eitt af hinum sterkari. Sádi Arabía í hvíta búningnum sínum er hins vegar talið eitt af lökustu liðum keppninnar. (Einungis flón ná ekki þessari samlíkingu.)
Úrúgvæ mætti til leiks staðráðið í að gera eins lítið og mögulega þyrfti til að landa sigrinum. Þeir fóru aldrei upp úr öðrum gír, leyfðu andstæðingum að halda boltanum og spiluðu hálfgerðan göngubolta – vitandi að vörn andstæðinganna myndi alltaf gefa að minnsta kosti eitt mark og hinir gætu sótt fram á sunnudag án þess að skora.
Þetta er fín taktík ef maður hefur Cavani, Suarez og miðvarðaparið úr Atletico Madrid. Það er ekki nóg að eiga fallegan bláan búning…
Uppstillingin var fyrirsjáanleg í blíðunni í Laugardalnum í kvöld. Atli í markinu. Unnar, Hlynur og Kristófer í varnarlínunni. Már og Mihaljo hinn norður-makeónski á köntunum (segið svo að þessi fótboltasíða fylgist ekki með heimsfréttunum). Sigurður Þráinn fyrir framan varnarlínuna með Orra þar fyrir framan og þá Tiago og Fred næsta fyrir aftan Guðmund Magnússon. Hópurinn okkar er þunnskipaður og meiðsli mikil, sem sást á því að ekki voru nema fimm leikmenn á bekknum.
Strax á upphafsmínútunum tóku Framarar í stúkunni að undra sig á því hvað liðið virtist þungt og svifaseint. Létta spilið sem einkenndi mestallan Haukaleikinn var hvergi sjáanlegt. Sendingarnar voru slakar og margir leikmenn leituðu alltaf í að senda aftur á völlinn í stað þess að sækja fram. En bjartsýnismenn á pöllunum minntu sig á að svona hefði nú fyrsta kortérið verið líka á móti Haukunum – og þess utan var erfitt að kvarta þegar við náðum forystunni strax á áttundu mínútu!
Tildrög marksins voru einföld. Már braut sér leið inn í teiginn, sendi til hliðar á Guðmund sem virtist mistakast skotið – en það sigldi þá í fallegum boga í markhornið. 1:0 og við varla byrjaðir.
En þótt markataflan væri fín, gat engum dulist að leikurinn væri ekki að spilast vel. ÍR-ingar fengu endalausan tíma til að undirbúa sóknir sínar og þótt þær fjöruðu flestar út, færðust gestirnir sífellt nær því að jafna metin. Á 37. mínútu mátti minnstu muna að Breiðhyltingar skoruðu þegar Atli náði ekki að grípa boltann eftir lúmska aukaspyrnu. Voru þá Framarar farnir að horfa ansi stíft á klukkuna og bíða eftir leikhléi… og það ekki bara vegna fíknar í andabrauðið og vonda kaffið.
Á fertugustu mínútu virtist loksins ætla að kvikna líf í spilamennsku Framara, þar sem Orri, Fred og Norður-Makedóninn (sko, ég gerði það aftur!) prjónuðu sig í gegn en markvörður ÍR varði vel. – En þetta reyndist svikalogn. Á þeim fimm mínútum sem eftir lifðu af hálfleiknum tókst gestunum að skora í tvígang og í báðum tilvikum verða varnarmenn Framara að axla ábyrgðina. Í fyrra tilvikinu Kristófer en í því síðara Unnar.
2: 1 í hléi og tebollurnar og snúðarnir hurfu undraskjótt í fyrirmennastúkunni uppi í rjáfri. Við borðum til að gleyma.
Hafi vonir staðið til þess að margt breyttist í seinni hálfleik, þá voru allar slíkar hugmyndir skjótt kveðnar niður. ÍR-ingar drógu sig reyndar mjög aftarlega á völlinn, staðráðnir í að halda fengnum hlut en takturinn í leiknum breyttist lítið við það, þótt bláklæddir héldu boltanum lengur.
Á 56. mínútu kom Helgi inná fyrir Má. Orri færði sig þá út á kantinn og Helgi fór á miðjuna/framlínuna. Rétt eftir skiptinguna rankaði liðið við sér í örkotsstund. Mihaljo frá landinu-sem-áður-var-þekkt-sem-fyrrverandi-júgóslavneska-sambandslýðveldið-Makedónía, en heitir núna eitthvað annað, átti fína sending á Tiago sem aftur sendi hratt á Fred sem náði flottu skoti en ÍR-markmaðurinn varði frábærlega. Upphafið á einhverju nýju og betra? Nibbs!
Þegar kortér var eftir fór Mihaljo (sorry, landaheitisdjókurinn er fullmjólkaður núna) útaf og Mikael Egill kom inná. Hann sneri kannski ekki leiknum, en það virtist þó aðeins renna blóðið í honum – þó ekki væri nema í kýtingum við Breiðhyltinga.
Klukkan hélt áfram að telja upp í 90 mínúturnar og fátt bar til tíðinda nema að á Valbjarnarvelli var farið að prófa eitthvert leiktæki sem tengist tónlistarhátíðinni sem þar verður haldin á næstu dögum. Öll börnin eru víst að fara að horfa á Bonnie Tyler á útitónleikum. Ég skil ekkert.
ÍR-ingar héldu út, eins og öllum mátti ljóst vera síðustu tíu mínúturnar. Dýrmæt stig í súginn. En við lærðum þó amk að Fram er ekki Úrúgvæ.
Stefán Pálsson