Pétur Böðvarsson F: 19. ágúst 1948. D: 18. júní 2018.
Við fráfall Péturs Böðvarssonar sjá Framarar á eftir góðum félagsmanni. Pétur fæddist sem Framari. Faðir hans var Böðvar Pétursson, verslunarmaður – starfsmaður hjá bókaútgáfunni Helgafelli; síðar Vaka-Helgafell og stjórnarmaður í VR til margra ára. Böðvar lék knattspyrnu með Fram og varð síðar öflugur félagsmaður og sat í aðalstjórn Fram um árabil.
Pétur, sem var drengur góður – léttur og spaugsamur, lék bæði knattspyrnu og handknattleik með Fram. Hann var kvikur, sprettharður og útsjónasamur leikmaður, sem gaf ekkert eftir.
Pétur hélt ungur til Seyðisfjarðar þar sem hann var kennari og síðan skólastjóri.
Pétur lék með hinu sigursæla handknattleiksliði Fram sem varð Íslandsmeistari 1967 og 1968. Hann kom skemmtilega við sögu þegar Fram skellti ungverska meistaraliðinu Honved í vináttuleik í Laugardalshöllinni í febrúar 1967, 18:16.
Gunnlaugur Hjálmarsson fór á kostum í leiknum og lék Ungverjana grátt og skoraði 8 mörk. Það mátti lesa þessa lýsingu í Vísi: „… og enn skoraði Gunnlaugur, eftir að hinn ungi og efnilegi leikmaður Fram, Pétur Böðvarsson, „dribblar” eins og alvanur körfuboltamaður og gaf á Gunnlaug frían á línu, sem skoraði 17:13.”
Það var greinilegt að íþróttafréttamaðurinn sem skrifaði þetta var ekki með á nótunum. Hann hafði ekki fylgst vel með körfuknattleiksíþróttinni á Íslandi. Pétur var einn af burðarásum ÍR-liðsins í körfuknattleik á þessum tíma og margfaldur Íslandsmeistari með liðinu. Það var því ekki nema von að hann hafi rakið knöttinn fram völlinn – eins og alvanur körfuknattleiksmaður!
Þó að Pétur hafi ekki verið hár í loftinu gaf hann hávöxnum körfuknattleiksmönnum ekkert eftir – var leikinn bakvörður, sem fór vel með knöttinn og sýndi og sannaði að: Margur er knár þótt hann sé smár!
Hér á myndunum, má sjá Pétur Böðvarsson í góðra vina hópi í Framheimilinu þegar þeir leikmenn Fram sem höfðu leikið Evrópuleiki komu saman 2012. Guðrún Ingimundardóttir, Ágúst Þór Oddgeirsson, Pétur, Bjarney Valdimarsdóttir, Halldóra Guðmundsdóttir og Pétur Jóhannesson.
Á hinni myndinni er Íslandsmeistaralið Fram í handknattleik 1967 – aftari röð frá vinstri: Sigurbergur Sigsteinsson, Gunnlaugur Hjálmarsson, Gylfi Jóhannesson, Ingólfur Óskarsson, Arnar Guðlaugsson og Birgir Lúðvíksson, formaður handknattleiksdeildar. Fremri röð: Guðjón Jónsson, Pétur Böðvarsson, Þorsteinn Björnsson, Karl G. Benediktsson, þjálfari, Halldór Sigurðsson, Tómas Tómasson og Sigurður Einarsson.
Framarar kveðja Pétur Böðvarsson með hlíhug og söknuði.
Sigmundur Ó. Steinarsson.
* Útför Péturs fer fram frá Grafarvogskirkju þriðjudaginn 26. júní 2016, kl. 11.