fbpx
FRAMhús vefur

Góður félagsmaður kveður – Rúnar Svanholt Gíslason

Rúnar Svanholt Gíslason F: 10. júlí 1952. D: 16. júní 2018.

Við fráfall Rúnars Svanholt Gíslasonar sjá Framarar á eftir góðum félagsmanni. Rúnar var keppnismaður mikill og gaf alla krafta sína í þau verkefni sem hann fékkst við hverju sinni. Hann gekk hreint til verks, var yfirvegaður og hæglátur – vildi láta verkin tala.

Rúnar varð ungur einn besti lyftingamaður landsins í ólympískum lyftingum og margfaldur Reykjavíkur- og Íslandsmeistari í sínum flokki, léttvigt. Rúnar, sem keppti fyrir Ármann í lyftingum, var aðeins 18 ára þegar hann vann bestu afrekin á Meistaramóti Íslands 1971, setti glæsileg Íslandsmet í öllum greinum í sínum flokki; í pressu, snörun, jafnhendingu og í samanlögðu.

Sterkasta grein Rúnars var snörun og átti hann Íslandsmetið í snörun í meira en áratug.

Rúnar hóf að leika með meistaraflokki Fram í knattspyrnu undir stjórn Guðmundar Jónssonar 1970 og var í sterkum leikmannahópi Fram sem barðist um Íslandsmeistaratitilinn; varð bikarmeistari tvisvar, 1970 og 1973, og einu sinni Íslandsmeistari, 1972.

Rúnar, sem var fljótur og fylginn sér, lék stöðu útherja og miðherja. Rúnar lék einn landsleik; gegn Lúxemborg undir stjórn Tony Knapp 1976 á Laugardalsvellinum, 3:1. Tveir Framarar léku leikinn með honum, Árni Stefánsson, markvörður, og Jón Pétursson, sem var fyrirliði. Framararnir Ásgeir Elíasson og Trausti Haraldsson voru varamenn.

Þegar Rúnar lagði knattspyrnuskóna á hilluna hóf hann að leika golf af kappi og var fljótlega snjall kylfingur og liðsmaður landsliðs eldri kylfinga, LEK.

Rúnar átti sæti í Leyfisdómstól KSÍ frá upphafi.

Á myndinni er Rúnar í leik gegn Val á Laugardalsvellinum, þar sem Magnús Bergs nær ekki að stöðva hann.

Framarar kveðja Rúnar Svanholt Gíslason með hlýhug og söknuði.

Sigmundur Ó. Steinarsson.

 

* Útför Rúnars fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju fimmtudaginn 28. júní 2018, kl. 13.

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!