fbpx
FRAMhús vefur

Góður félagsmaður kveður – Rúnar Svanholt Gíslason

Rúnar Svanholt Gíslason F: 10. júlí 1952. D: 16. júní 2018.

Við fráfall Rúnars Svanholt Gíslasonar sjá Framarar á eftir góðum félagsmanni. Rúnar var keppnismaður mikill og gaf alla krafta sína í þau verkefni sem hann fékkst við hverju sinni. Hann gekk hreint til verks, var yfirvegaður og hæglátur – vildi láta verkin tala.

Rúnar varð ungur einn besti lyftingamaður landsins í ólympískum lyftingum og margfaldur Reykjavíkur- og Íslandsmeistari í sínum flokki, léttvigt. Rúnar, sem keppti fyrir Ármann í lyftingum, var aðeins 18 ára þegar hann vann bestu afrekin á Meistaramóti Íslands 1971, setti glæsileg Íslandsmet í öllum greinum í sínum flokki; í pressu, snörun, jafnhendingu og í samanlögðu.

Sterkasta grein Rúnars var snörun og átti hann Íslandsmetið í snörun í meira en áratug.

Rúnar hóf að leika með meistaraflokki Fram í knattspyrnu undir stjórn Guðmundar Jónssonar 1970 og var í sterkum leikmannahópi Fram sem barðist um Íslandsmeistaratitilinn; varð bikarmeistari tvisvar, 1970 og 1973, og einu sinni Íslandsmeistari, 1972.

Rúnar, sem var fljótur og fylginn sér, lék stöðu útherja og miðherja. Rúnar lék einn landsleik; gegn Lúxemborg undir stjórn Tony Knapp 1976 á Laugardalsvellinum, 3:1. Tveir Framarar léku leikinn með honum, Árni Stefánsson, markvörður, og Jón Pétursson, sem var fyrirliði. Framararnir Ásgeir Elíasson og Trausti Haraldsson voru varamenn.

Þegar Rúnar lagði knattspyrnuskóna á hilluna hóf hann að leika golf af kappi og var fljótlega snjall kylfingur og liðsmaður landsliðs eldri kylfinga, LEK.

Rúnar átti sæti í Leyfisdómstól KSÍ frá upphafi.

Á myndinni er Rúnar í leik gegn Val á Laugardalsvellinum, þar sem Magnús Bergs nær ekki að stöðva hann.

Framarar kveðja Rúnar Svanholt Gíslason með hlýhug og söknuði.

Sigmundur Ó. Steinarsson.

 

* Útför Rúnars fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju fimmtudaginn 28. júní 2018, kl. 13.

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email